Almannatryggingar
Laugardaginn 06. maí 1989

     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu en mér finnst ástæða til þess að þakka hv. nefnd fyrir það hvernig hún hefur staðið að afgreiðslu þessa máls og ég heyri að þar eru allir sammála um afgreiðslu málsins og það var auðvitað meginefnið.
    Ég lagði talsvert ríka áherslu á það þegar ég mælti fyrir þessu frv. sem 12 hv. deildarmenn skrifa undir að þetta mál næði fram að ganga og þá var ég að tala um efnislega hlið málsins. Ýmsir töldu að hér væri kannski að finna einhver tæknileg vandamál sem þyrfti að skilgreina í áframhaldinu og mér sýnist að það hafi þá verið gert með þeirri brtt. sem hér liggur fyrir þannig að málið er efnislega nákvæmlega eins og það var flutt að öðru leyti en því að landlæknisembættið kemur ekki inn í ákvörðun í þessum málum.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að ég hefði talið það skynsamlegra að það væru tveir embættismenn, annars vegar tryggingayfirlæknir og hins vegar landlæknir, sem kæmu að þessu máli til þess að ákvarða. Um það er ekki samkomulag eins og nú standa sakir og við því er að sjálfsögðu ekkert að segja að því er mig varðar. Efnislega hliðin er að mínu viti meginmálið til þess að ná þessu máli fram og ég fagna því sérstaklega hversu vel nefndin hefur tekið á þessu máli og meira en það, því að með þessari brtt. er gerð önnur breyting í þá átt að gera betur við þá einstaklinga sem verða fyrir vinnuslysum og verða fyrir örorkutapi af þeim völdum. Eins og lögin eru nú er miðað við það að þeir verði að vera meira en 15% öryrkjar til þess að fá bætur. Í þessari brtt. er það fært niður í 10% örorku eins og gert er ráð fyrir í frv. okkar sem flytjum málið að gert verði ráð fyrir að því er varðar þá sem verða fyrir mistökum lækna eða annarra aðila sem starfa í heilbrigðisþjónustunni eins og hér er rætt um.
    Þetta er að vísu nokkuð stórt skref til viðbótar því sem ég taldi nauðsyn á að fá fyrir þá einstaklinga sem kunna að verða fyrir mistökum af höndum lækna og annarra í heilbrigðisþjónustunni í áframhaldinu. Hér er gengið lengra og ég fagna því sérstaklega að þetta mál skuli hafa orðið til þess að teygja sig enn þá lengra í samfélagsátt, samhjálp til þeirra sem verða fyrir áföllum í lífinu og er nauðsyn á að styðja við bakið á af hálfu almannakerfisins. Mér er sagt af fróðum mönnum varðandi mistakamálið að svona lög eins og hér er lagt til að verði staðfest mundu taka yfir 80--90% af þeim mistökum sem kunna að eiga sér stað í kerfinu. Ég tel það gífurlega stórt spor til þess að tryggja þá einstaklinga sem hafa nánast orðið úti á klakanum vegna kerfisins og vegna fjármagnsins sem það kostar að fara í gegnum kerfið í málaferlum og það sé mjög stórt skref af hálfu Alþingis að stíga þetta núna og með viðbót að því er varðar vinnuslysin.
    Ég ítreka þakklæti mitt til nefndarinnar og treysti því að þetta mál fái hraðbyr í gegnum þingið og verði lögfest á allra næstu dögum. Og það tel ég mjög til hins betra að því er varðar Alþingi Íslendinga að líta

í þessa átt og staðfesta það að hér sé þörf á breytingu sem allir eru auðvitað sammála um að hefði átt að verða fyrir löngu síðan.