Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 06. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga og víkja að nokkrum atriðum úr ræðu hæstv. forsrh.
    Það sem mér finnst einkenna þetta frv. og þær ráðstafanir sem í því felast vegna kjarasamninga er fyrst og fremst það að hér virðist vera, og meira en virðist vera, hér er greinilega um að ræða ákveðnar kreppuráðstafanir af hálfu núv. ríkisstjórnar til þess að komast út úr þeim samningum og þeirri vondu stöðu sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur komið íslensku atvinnulífi í, og með þeim afleiðingum að þegar verkalýðshreyfingin þarf að fá sínar kjarabætur, þá verður hæstv. ríkisstjórn að grípa til mjög alvarlegra, vil ég segja, kreppuráðstafana. Í þessu frv. koma fram atriði sem fela það í sér, og mun ég víkja nánar að einstökum atriðum á eftir. En áður en ég geri það vil ég sérstaklega vekja athygli þingheims á því sem stendur raunverulega upp úr, og er mjög alvarlegt mál, að svo illa er komið fyrir íslenskum atvinnuvegum nú að verkalýðshreyfingin sér sig tilknúna til þess í vondri samningsstöðu að leggja áherslu á það að lengja bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 180 í 260 daga. Þetta atriði eitt út af fyrir sig skýrir vel þá niðurlægingu sem atvinnuvegirnir eru komnir í, að verkalýðshreyfingin skuli þurfa að gera sérstakan samning við núv. ríkisstjórn um það að lengja bótatímabilið.
    Þetta er auðvitað í alveg rökréttu samhengi við það sem er að gerast úti á hinum almenna vinnumarkaði, að núna ganga tæplega 3000 manns atvinnulausir og er það mjög óvenjulegt að svo skuli vera í lok vertíðar. En allt frá því í febrúar hafa verið á atvinnuleysisskrá 2000--3000 manns og því miður eru horfur á því að það muni aukast allverulega á næstunni jafnframt því sem unga fólkið, sem fær nú ekki að ljúka sínum prófum, hlýtur að leita út á vinnumarkaðinn í æ ríkari mæli. Við horfum því fram á það að samhliða því að verið er að gera ráðstafanir til að lengja bótatímabilið til þess að þeir sem eru þegar búnir að vera atvinnulausir í tvo til þrjá mánuði verði það áfram í næstu þrjá mánuði, þá er verið að gera ráðstafanir hér á hinu háa Alþingi sem stefna ekki í þá átt að eyða atvinnuleysinu heldur að skapa skilyrði til þess að það verði viðvarandi með auknum fjárframlögum í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.
    Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og mjög alvarlegt að núv. hæstv. ríkisstjórn skuli hafa markað þá stefnu sem hefur þessar afleiðingar í för með sér og verkalýðshreyfingin virðist viðurkenna eða undirgangast. Það er aftur mál út af fyrir sig að íslensk verkalýðshreyfing skuli ganga undir það jarðarmen að þurfa að semja um það með þessum hætti að lengja bótatímabilið. Ég er í sjálfu sér því fylgjandi auðvitað að bótatímabilið geti verið lengra en 180 dagar, en það á að vera algjör undantekning að menn skuli þurfa að gera ráð fyrir því að bótatímabil vegna atvinnuleysis sé í 260 daga.
    Annað atriði sem einnig er mjög skýrt er það að

nú skal halda áfram að greiða úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins til fiskvinnslunnar. Þar með er því slegið föstu að það er ekki gert ráð fyrir því að fiskvinnslan geti borið sig á næstunni. Hæstv. forsrh. hefur margoft talað um það, bæði hér í ræðustóli áðan og einnig þegar við hann hefur verið talað af hálfu fjölmiðla, að hann geri sér miklar vonir um það að hækkun markaðsverðs á helstu útflutningsafurðum muni koma til skjalanna þannig að ekki þurfi að reyna á greiðslur í gegnum Verðjöfnunarsjóð og einnig að þær hækkanir á verðum erlendis geti komið til móts við tap fiskvinnslunnar. Sem sagt: Annað aðalatriðið í þessum ráðstöfunum er að það er gert ráð fyrir áframhaldandi tapi undirstöðuatvinnuvega og helstu útflutningsgreina.
    Þessi stefna, þessi niðurstaða gefur ekki bjartar vonir um það að íslenskt atvinnulíf nái sér á strik á næstunni eða að íslensk þjóð búi við betri lífskjör á meðan núv. hæstv. ríkisstjórn situr að völdum.
    Hæstv. forsrh. vildi halda því fram, ef ég skildi hann rétt hér áðan, að með þeim ráðstöfunum sem fælust í þessu frv. og öðru því sem ríkisstjórnin gefur fyrirheit um, þá muni tap frystingar þrátt fyrir þessar ráðstafanir verða 3%. ( Forsrh.: Þær aukast um 3% við þessa samninga.) Já, við þessa samninga, aukast. Það þýðir auðvitað að þrátt fyrir þessar ráðstafanir sem felast í frv. verður frystingin rekin með allverulegum halla. Ég vildi nú óska þess að það kæmi skýrar fram hvert sé mat hæstv. forsrh. á því hvað sá halli sé raunverulega mikill og einnig væri fróðlegt að fá það fram hér í umræðunni hvað fiskvinnslan sjálf telur í þessum efnum.
    Ef við lítum, þó ekki sé til baka nema um tíu daga, þá sér maður ef maður les ræður forustumanna fiskvinnslunnar en aðalfundir helstu samtaka á þessu sviði voru í lok apríl bæði hjá frystihúsum innan Sambands ísl. samvinnufélaga og einnig hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þá sér maður að þeir aðilar sem eru í forsvari fyrir fiskvinnsluna hafa ekki mikla trú á þeim leiðum sem núv. ríkisstjórn er að fara og m.a. koma fram í þessu frv., því þetta eru gamlir kunningjar, ef ég mætti orða þetta þannig, sem verið er að grípa til til þess að halda þessu gangandi.
    Á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna flutti stjórnarformaður samtakanna, Jón Ingvarsson, mjög yfirgripsmikla ræðu um stöðu íslenska hraðfrystiiðnaðarins. Í ræðu sinni sagði formaður stjórnar SH, með leyfi forseta, m.a. að það væri ábyrgðarleysi að láta undirstöðuatvinnuveginn sökkva svo djúpt. Þetta er mælt 27. apríl sl. Í ræðu formanns SH segir m.a., með leyfi forseta, í sambandi við verðjöfnunarsjóðskerfið:
    ,,Sú ríkisstjórn sem tók við völdum í september á sl. ári (þ.e. 1988) beitti sér fyrir auk framangreindrar 3% gengislækkunar að Verðjöfnunarsjóði yrði gert að taka 750 millj. kr. erlent lán til að verðbæta framleiðslu frystihúsanna frá 1. júní 1988 með 5% verðbótum. Lán þetta er talið geta verðbætt framleiðsluna út júní á þessu ári.
    Fulltrúar frystingarinnar í stjórn Verðjöfnunarsjóðs

samþykktu umrædda lántöku á grundvelli yfirlýsingar sjútvrh. þess efnis að framleiðendum yrði ekki gert að endurgreiða lánið. Þrátt fyrir áskoranir hefur ríkisstjórnin ekki tekið af öll tvímæli í þessum efnum með lagabreytingu þar að lútandi. Og víst er að fulltrúi SH í Verðjöfnunarsjóði mun ekki taka þátt í afgreiðslu sem þessari nema óyggjandi trygging liggi fyrir því að ríkisstjórnin muni standa við heit sín, enda er fjarstæðukennt að ríkisstjórn nánast neyði framleiðslufyrirtæki til að taka lán til að fjármagna taprekstur.``
    Ég vil í framhaldi af þessu spyrja hæstv. forsrh. hvort þessari lántöku sé eins háttað og fyrri lántöku vegna greiðslu í gegnum Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. ( Forsrh.: Já.) Já, segir hæstv. forsrh. Þá held ég að sé alveg nauðsynlegt að það komi fram hvort framleiðendur eigi að endurgreiða sjálfum sér þessa tilfærslu á peningum eða ekki eða hvort ríkisstjórnin ætlar að sjá til þess að þetta verði ekki endurkröfuhæft.
    Formaður stjórnar SH sagði í ræðu sinni, með leyfi forseta, að staða frystingar væri þannig komin (þ.e. í lok apríl) að hallinn á frystingu væri kominn í 10% fyrir lok samningstímabilsins sem hér um ræðir, þ.e. í þeim samningum sem hér er verið að ræða um í tengslum við ráðstafanir vegna kjarasamninganna.
    Nú hefur það ekki komið skýrt fram hjá hæstv. forsrh. hvert raunverulegt tap verður þrátt fyrir þessar ráðstafanir. Ég leyfi mér að áætla og gera ráð fyrir því að tap hjá frystingunni og fiskvinnslunni verði eftir sem áður allverulegt og mundi áætla 4--5%. Ég geri mér ekki vonir um það með sama hætti og hæstv. forsrh. að markaðsverð hækki þannig t.d. í Bandaríkjunum að það gefi vonir um betri afkomu útflutningsatvinnuveganna. Styrking dollarans! Það er mjög erfitt að spá fyrir um það, þannig að það ríkir mikil óvissa í þeim efnum. Og varðandi aðra markaði, ég nefni sem dæmi Sovétríkin vegna þess að hæstv. forsrh. kom inn á það í sinni ræðu að við flyttum mikið út og fengjum greiðslur fyrir í dollurum. Ég geri mér ekki góðar vonir um það að sá markaður verði Íslendingum neitt sérstaklega hagstæður á næstu mánuðum og næstu árum. Það vita allir að Sovétmenn eru að breyta sínu efnahagskerfi og því miður bendir allt til þess að sú breyting geti orðið útflytjendum og seljendum á matvöru eins og fiskur er, mjög erfið, svo ekki sé meira sagt. Ég tel og hef fullvissu fyrir því að Sovétmenn meti innflutning á fiski og jafnvel landbúnaðarvörum, ég nefni sem dæmi ullarvörum, að þeir meti innflutning á þessum vörum þannig að þeir hafi ekki gjaldeyri aflögu til þess að greiða fyrir slíkan innflutning. Það þýðir náttúrlega, ef þeir meta stöðuna þannig, að það muni verða æ erfiðara fyrir okkur Íslendinga að selja þeim frystar sjávarafurðir eða síldarafurðir og ég nefni sem dæmi ullarvörur. Því miður. Það þýðir að við þurfum að leita annarra markaða fyrir þann útflutning sem hefur farið inn á þennan markað, þ.e. til Sovétríkjanna, og það mun ekki gerast nema með ærnum tilkostnaði.
    Hæstv. forsrh. ræddi hér nokkuð um að miklar

vonir væru bundnar við Vestur-Evrópu. Það vita allir að Vestur-Evrópumarkaður er mjög óviss og óstöðugur. Þótt hann hafi verið okkur Íslendingum hagstæður á undanförnum árum, þá er ekkert sem segir til um það nema síður sé að hann verði okkur jafnhagstæður á næstu missirum. Ég nefni sem dæmi aukna erfiðleika í sambandi við útflutning á saltfiskafurðum. Við fáum ekki jafnmikið til baka nú og fyrir einum til tveimur árum í sambandi við útflutning á saltfiskafurðum þannig að ég get ekki átt von á því, og get því miður ekki tekið undir þá bjartsýnisræðu forsrh. þegar hann talar um það að væntanlega muni markaðsverð breytast okkur í hag, ég segi því miður. Ég vildi óska þess að sú vissa væri fyrir hendi að við gætum mætt auknum tilkostnaði framleiðslunnar með þeim hætti að markaðsverð hækkuðu.
    Hæstv. forsrh. vék nokkuð að genginu. Ég vildi gjarnan fá það staðfest hjá honum hér á eftir hvort ég hafi skilið hann rétt. Hann sagðist hafa rætt við forustumenn eða forsvarsmenn fiskvinnslunnar og sagði eitthvað á þá leið að í framhaldi af þeim viðræðum og með tilliti til þeirra ráðstafana sem nú er verið að gera samkvæmt þessu frv. mundi ríkisstjórnin meta stöðu sjávarútvegsins á hverjum tíma og í því sambandi, ef ég heyrði rétt, sagði hæstv. forsrh. eitthvað á þessa leið að gengið muni síga á næstunni. Ég bið
hæstv. forsrh. að leiðrétta ef þetta er rangt eftir honum haft, en þá er bara spursmálið: Mun gengið síga mikið eða lítið? Það er náttúrlega mjög þýðingarmikið í upphafi ferðar að gera sér grein fyrir því um hvaða stærðir maður er að tala. Ég vildi gjarnan fá það fram hvort um er að ræða það mikið gengissig að það mundi mæta t.d. þessu bili sem ég held að sé annars vegar á milli þeirra ráðstafana sem þetta frv. gerir ráð fyrir og svo raunverulega stöðu atvinnuveganna hins vegar, að það gengissig mundi mæta því tapi sem ég hef viljað áætla 4--5%. Til þess að mæta því og koma þessum útflutningsatvinnugreinum á núllpunktinn, mundi þurfa að mínu mati allverulegt gengissig.
    En hæstv. forsrh. mun örugglega svara þessu atriði hér á eftir þannig að tekin verða af öll tvímæli og við getum gert okkur grein fyrir því hvort búið sé að brúa það bil sem þörf krefur til að þessar mikilvægu atvinnugreinar séu í það minnsta reknar á núlli, svo ekki sé nú talað um það að þær séu reknar með hagnaði.
    Varðandi stöðu fiskvinnslunnar, þá eru það orð að sönnu sem komu fram hjá formanni stjórnar SH á aðalfundi samtakanna fyrir skömmu, að það er auðvitað hreint ábyrgðarleysi að láta undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar sökkva svo djúpt sem raun er. Það mun auðvitað koma niður á þjóðfélaginu og lífsafkomu byggðarlaganna allt í kringum landið ef ekki er vel búið að þessum atvinnugreinum. Þetta þarf nú ekki að segja hv. þm. né hæstv. forsrh.
    En það er ekki óeðlilegt að menn velti því fyrir sér

hvort það sé vísvitandi verið að framkalla þessa erfiðu stöðu ár eftir ár með þeim hætti sem við stöndum nú frammi fyrir og hvort það sé hugsanlegt að með þessu sé einhver stjórnarflokkanna að reyna að notfæra sér þessa erfiðu aðstöðu sem t.d. Framsfl. er í og ég vil segja að vissu leyti Alþfl., þó það sé nú af annarri ástæðu hjá Alþfl. en hjá Framsfl., þá sé það hugsanlegt að þriðji flokkurinn, Alþb., sé að reyna að framkalla þá stefnu sem er grundvallaratriði stefnu Alþb., að knésetja einkarekstur. Hvort það sé hugsanlegt að sá flokkur notfæri sér þessa veiku stöðu, ég vil segja sérstaklega Alþfl., að þora ekki að fara í kosningar og einnig að notfæra sér þá stöðu að Framsfl. treystir sér greinilega ekki til þess að efna til kosninga og taka öðruvísi á málum þrátt fyrir erfiða afkomu samvinnuhreyfingarinnar og Sambandsfyrirtækja í sjávarútvegi og fiskiðnaði. Það er spursmál hvort Alþb. sé ekki að notfæra sér veika stöðu þessara flokka til að framkalla þetta, að eyða eigin fé fyrirtækjanna og breyta eignarhaldinu, færa eignarhaldið til.
    Ég sé það að hv. kvennalistaþingmaður Guðrún Agnarsdóttir er önnum kafin við það að ræða við hv. þm. Alþb., enda er nú sagt víða úti í þjóðfélaginu að kvennalistakonur verji núv. ríkisstjórn falli í hvaða máli sem er, þannig að ég skil það vel að hv. þm. þurfi að ræða við hv. þm. Alþb., Skúla Alexandersson, og ganga frá þeirra málum. ( GA: Það kemur nú fyrir, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, að þingmenn skrifa nál. saman þó þeir séu ...) ( Forseti: Má ég biðja um þögn í salnum og ekki persónuleg samtöl.) Ég vona að sú undirskrift dugi þannig að það sanni bara það sem ég sagði. ( Forseti: Má ég biðja ræðumann að halda sig við efnið.) Það er ágætt að hæstv. forseti hefur tekið við sér og ætlar að fara að stjórna hér skörulega.
    Ég heyri það að hv. þm. Stefán Guðmundsson vill að ég haldi áfram að tala um samvinnuhreyfinguna og Framsfl. og skal ég gera það með mikilli ánægju vegna þess að mér er mjög hugleikið að Framsfl. átti sig á þeirri stöðu og ábyrgð og skyldu sem hann hefur í útgerð og fiskvinnslu allt í kringum landið og láti ekki þetta núverandi stjórnarsamstarf hrekja sig neitt af leið í þeim efnum að tryggja rekstrarforsendur þessarar mikilvægu atvinnugreinar. Um það erum við sammála hv. þm. Stefán Guðmundsson og auðvitað hæstv. forsrh. líka. En ég var einmitt að víkja að þessum veikleika núv. ríkisstjórnar. Ég var að víkja að þessum veikleika sem felst í því að framsóknarmenn virðast ætla að taka þátt í þessum leik Alþb. að knésetja einkaframtakið og ég flokka nú samvinnuhreyfinguna að vissu marki undir það en hún virðist hafa aðra útgönguleið samt í sambandi við sín fyrirtæki heldur en hrein einkarekstursfyrirtæki. En það er alveg greinilegt að þessi stefna á að halda áfram, þessi stefna að eyða hér eigin fé fyrirtækja með þeim afleiðingum að fyrirtækin verða komin í eigu sjóða og banka (Gripið fram í.) og ríkisins ef svo heldur áfram sem horfir. Ég skil það vel að eini útgerðarmaðurinn sem nú er staddur á þingi, hv. þm.

Skúli Alexandersson, sé ekki ánægður með það, en hugsanlega er fyrirtæki hans ekki þeirrar stærðar að það skiptir svo miklu máli í þeirri umræðu sem hér er. (Gripið fram í.) ( KP: Hvað með þetta þarna?) Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að þótt hv. þm. Kristinn Pétursson sé staddur hér í deildinni þá situr hann ekki hér inni í deildinni sem þingmaður þótt hann hlýði hér á ræður manna. ( KP: En hv. þm. Stefán Guðmundsson?) Ég ætla ekki að svara fyrir það hvort hann sé útgerðarmaður eða ekki. (Gripið fram í.) Honum væri heiður að því. ( Forseti: Má ég biðja hv. þingdeildarmenn að leyfa ræðumanni að ljúka ræðu sinni.) Það er ágætt að vita það að menn skuli vilja telja sig til útgerðarmanna, ekki veitir af, þeir eru ekki svo
margir hér á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í.) Ég vil biðja hv. þm. Karvel Pálmason að stilla sig augnablik, hann getur fengið orðið á eftir mér. En ég skil það vel að hv. stjórnarþingmönnum, sérstaklega þingmönnum sem koma t.d. frá Vestfjörðum, eins og hv. þm. Karvel Pálmason gerir, að honum líði ekkert vel þegar hann fer að skoða nánar til hvers er ætlast af honum í sambandi við frv. til l. um ráðstafanir vegna kjarasamninga þrátt fyrir þau bréf og þrátt fyrir þær viðræður sem hafa átt sér stað á milli ríkisstjórnarinnar annars vegar og Alþýðusambandsins hins vegar og ég mun koma nánar að því hér á eftir.
    Það er auðvitað hroðaleg niðurlæging fyrir verkalýðsleiðtoga að þurfa að undirgangast það jarðarmen í pólitísku samstarfi við aðra flokka að gera ráð fyrir viðvarandi atvinnuleysi, gera ráð fyrir því að hér gangi fleiri þúsund manns atvinnulausir á næstu missirum. Það felst raunverulega í þessu frv. að gert er ráð fyrir viðvarandi miklu atvinnuleysi hér. Þess vegna er það sem Alþýðusambandið óskar eftir þessari breytingu á Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta vita hv. þm. og sérstaklega þeir sem eru í forustu fyrir verkalýðshreyfinguna og hafa greinilega tekið þátt í þessu, þar líka. Ég tel það ámælisvert. Það er ekki rétt stefna. Rétt stefna felst í því að eyða atvinnuleysi en ekki að lengja atvinnuleysisdaga hjá því fólki sem hefur ekki vinnu.
    Ég vil ítreka það að hæstv. forsrh. tali skýrar þegar hann ræðir um gengissig til þess að hægt sé að gera sér betur grein fyrir því hvað felst í þessum ráðstöfunum.
    Varðandi það atriði sem lýtur að sköttum þá ætla ég ekki að vera langorður um það. Það munu væntanlega aðrir þingmenn fjalla um þann þátt þessarar ráðstöfunar sem hafa betri þekkingu á skattamálum en ég. En ég verð að segja það að þær breytingar sem koma fram í þessu frv. þær vigta ekki nægilega að mínu mati. Skattar eru enn þá allt of háir, allt of háir á einstaklingum og fyrirtækjum þannig að sú ráðstöfun ein út af fyrir sig dugar skammt.
    En ég vil víkja nokkrum orðum að vörugjaldinu. Sjálfstfl. varaði mjög sterkt við því hér í umræðunni í vetur að vörugjaldið yrði hækkað. Það var ekki hlustað á okkar aðvörunarorð. Því miður. Stefna

ríkisstjórnarinnar og sérstaklega stefna hæstv. fjmrh. var sú að það skyldi hækka vörugjaldið. Hér fluttum við ræður, margir hv. þm., og vöruðum við vörugjaldinu. Við vöruðum við neikvæðum afleiðingum þess að fara þá leið sem hæstv. ríkisstjórn ákvað með vörugjaldinu í vetur. Hér voru lesin upp aðvörunarorð frá samtökum iðnrekenda, frá samtökum iðnaðarmanna og frá verkalýðshreyfingunni í heild og varað við illum afleiðingum þess að vörugjald yrði lagt á með þeim hætti sem raun varð á, enda eru afleiðingarnar farnar að koma í ljós. Fjöldinn allur af iðnfyrirtækjum er að hruni kominn. Þegar hefur orðið rekstrarstöðvun hjá mörgum iðnfyrirtækjum. Þannig að það er ekki af hinu góða sem ríkisstjórnin er að semja við verkalýðshreyfinguna eða Vinnuveitendasambandið um lækkun eða breytingu á vörugjaldi. Það er vegna þess að staðreyndirnar knýja hæstv. ríkisstjórn til þess að breyta um stefnu í þessum efnum. ( Gripið fram í: Nei.) Og það er hluti af því alvarlega ástandi, það er hluti af því atvinnuleysi sem kemur fram vegna áhrifa vörugjaldsins. Þetta er staðreynd. Ég sé það á hæstv. forsrh. að hann gerir sér fullkomlega grein fyrir þessu enda er hann kominn hér með frv. sem gerir ráð fyrir því að breyta um stefnu í þessum efnum til þess að íslensk iðnfyrirtæki geti haldið áfram rekstri. En ég er efins í því að þrátt fyrir þetta frv. muni fyrirtækin aftur geta hafið rekstur eða náð þeirri stöðu sem þau þurfa að fá til þess að þau séu rekin með eðlilegum hætti.
    Það var athyglisvert að hlusta á það hjá hæstv. forsrh. þegar hann talaði um bréf til aðila vinnumarkaðarins að í þessum bréfum undirstrikaði hann að það væru atriði sem kostuðu ríkissjóð ekki neitt, þ.e. mundu ekki þýða útgjöld fyrir ríkissjóð. Það er nefnilega einu sinni enn farin sama leiðin og hún er sú að láta verkalýðshreyfinguna borga sjálfa fyrir sína samninga. Það er ömurlegt að horfa upp á það ár eftir ár hvernig verkalýðshreyfingin lætur ríkisstjórnir knýja sig til þess að semja í sínum eigin málum og borgar fyrir það sjálf. Það sem ég á við er m.a. þetta atriði sem lýtur að atvinnuleysisbótum, en þar er verkalýðshreyfingin raunverulega að semja um sína eigin stöðu. Hún er að semja um það sem hún raunverulega ræður yfir. En ríkisstjórnin hefur hagað málum þannig að hún er að rétta verkalýðshreyfingunni til baka það sem ríkisstjórnin hefur þegar af henni tekið.
    Annað atriðið í því máli eru svonefndar félagslegar íbúðir sem var áhersluatriði kvennalistakvenna. Að setja það fram sem samningsatriði milli stjórnmálamanna sem verkalýðshreyfingin á raunverulega að greiða sjálf fyrir finnst mér fyrir neðan allar hellur. Þessar svokölluðu félagslegu íbúðir, sem kvennalistakonur voru að semja um við núverandi stjórnarflokka, verða allar byggðar fyrir peninga sem verkalýðshreyfingin mun sjálf leggja til. Hæstv. ríkisstjórn og kvennalistakonur hafa ekki lagt neitt fram, ekkert sem verkalýðshreyfingin hefði ekki getað gert sjálf. Ég skal undirstrika það. Það kemur hvergi fram í þessu frv. hvaðan fjármagnið á að koma til að

byggja
þessar 200 félagslegu íbúðir. Og ég vil vekja athygli þeirra hv. kvennalistakvenna, sem hér eru inni í deildinni, á því að þessir peningar koma ekki úr ríkissjóði. Hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson kemur ekki með þessa peninga úr sameiginlegum sjóði ríkisins. Hæstv. ráðherrar, ríkisstjórnin mun fara til lífeyrissjóðanna og óska eftir því að þeir auki kaupin á skuldabréfum húsnæðislánakerfisins sem nemur þessari upphæð. Og ég vil spyrja þessar ágætu konur að því: Um hvað voruð þið að semja þegar þið voruð að semja við þessa ríkisstjórn um þessar 200 félagslegu íbúðir? Nú kynni einhver að segja: Jú, þessar íbúðir eiga að verða á svo hagstæðum kjörum. Á sama tíma og það er sagt segir hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.: Við erum búnir að koma vöxtunum niður í 4--4 1 / 2 %.
    Hver er stefnan hjá hæstv. félmrh. í sambandi við vexti? Stefna hæstv. félmrh. er sú að markaðsvextir skuli ráða. Og þegar sá ráðherra er spurður að því hvað hún eigi við með markaðsvöxtum, ég vildi nú gjarnan að hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hlustaði á þetta svo hún gerði sér grein fyrir því hvernig hún var göbbuð af hæstv. ríkisstjórn í sambandi við félagslegar íbúðir, ( GA: Guðrún Agnarsdóttir hlustar á þetta.) að þegar þetta dæmi er gengið upp þá mun stefna hæstv. félmrh. verða ofan á vegna húsbréfakerfa og breytinga í sambandi við vaxtastefnuna, að markaðsvextir muni ráða, þeir munu verða 4 1 / 2 %. Þar með er ríkið ekki að leggja neitt til þessara 200 íbúða umfram það sem verkalýðshreyfingin hefði getað gert með sínum eigin peningum. Þannig að hv. þm. Kvennalistans þurfa ekki að semja við ríkisstjórnina eða veita ríkisstjórninni stuðning og verja hana falli með svona ódýrum hætti. Ég held að þær hafi verið plataðar af þessum pólitísku refum sem ráða nú ferðinni í hæstv. ríkisstjórn. Ég er þá sérstaklega að tala um hæstv. fjmrh. Þeir kunna að vera fleiri þar en hæstv. fjmrh. er alveg snillingur í að setja upp svona sjónhverfingar eins og þetta með félagslegar íbúðir.
    Ég vildi sérstaklega víkja að þessu með félagslegar íbúðir vegna þess að þar er verkalýðshreyfingin raunverulega, eða ég vil segja forustumenn verkalýðshreyfingarinnar að blekkja hinn almenna félaga, telja honum trú um að í núverandi samningum hafi forustan m.a. náð þessum mikilsverða áfanga, að það eigi að byggja núna 200 nýjar íbúðir á félagslegum grundvelli til viðbótar því átaki sem þegar er fyrir hendi. En ég held að fólk sjái í gegnum þennan blekkingavef. Og ég held að það sé nú í nánd að þegar markaðsvextir hæstv. félmrh. fara að ráða hér ríkjum í íslensku þjóðfélagi, þessir 4--5% vextir, þá muni húsnæðismálakerfið verða óþarft í þeirri mynd sem við höfum verið að fjalla um hér á hinu háa Alþingi. Þá munu þeir aðilar sem raunverulega fjármagna þetta kerfi gera það sjálfir. Þeir munu sjálfir sjá um það að þetta fjármagn renni til þeirra þarfa, m.a. til félagslegra þarfa launafólks. Ég tel það enda miklu eðlilegra að þeir sem standa daglega í baráttu fyrir verkalýðshreyfinguna og verkafólkið fjalli

um það með hvaða hætti þeir noti fjármuni fólksins til að byggja félagslegar íbúðir fyrir það heldur en að einhverjir stjórnmálamenn séu að skreyta sig með þessum fjöðrum. Ég er þá ekki að tala sérstaklega um það að kvennalistakonur séu að gera það, en ég tel að þær hafi fallið fyrir því sem hæstv. ríkisstjórn ætlaðist til, til að tryggja það að kvennalistakonur verðu þessa ríkisstjórn falli ef á þyrfti að halda.
    Í sambandi við bréf ríkisstjórnar til Alþýðusambandsins þá kemur það fram, eins og ég gat um áðan, að óttinn við atvinnuleysið er mjög ríkjandi hjá aðilum sem þarna hafa fjallað um mál. Ég hef þegar talað um að það er auðvitað röng stefna og líka röng stefna hjá Alþýðusambandinu að semja við ríkisvald sem gefur sér þær forsendur að hér skuli vera viðvarandi atvinnuleysi. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason hristir höfuðið. Ef það er ekki að gera ráð fyrir viðvarandi atvinnuleysi að lengja bótadagana, ef það er ekki ráðstöfun sem felur í sér ótta, til hvers var þá verið að semja um það núna? (Gripið fram í.) Það er óheppilegt að sú krafa skyldi endilega þurfa að koma fram þegar 2500 manns eru á atvinnuleysisskrá. ( Gripið fram í: Hún hefur margoft komið fram.) ( KP: En ekki verið sinnt.) En hvernig stendur á því að hv. þm. beita sér ekki fyrir ráðstöfunum sem gera ráð fyrir engu atvinnuleysi? Hvar eru tillögurnar, hvar eru þær greinar í þessu frv., hvar eru þeir milljarðar sem tryggja það að fyrirtækin geti gengið og enginn skuli þurfa að ganga atvinnulaus? ( KSG: Það kemur í ljós.)
    Ég minnist þess að á hinum svonefndu viðreisnarárum, þegar ég var í forustu verkalýðshreyfingarinnar, að þá kom upp kreppa þegar síldin hvarf á árunum 1966 og 1967, mjög alvarleg kreppa. Þá varð samdráttur í útflutningstekjum þjóðarinnar yfir 40% á einu ári, á árinu 1966. Ég minnist þess þá hvernig verkalýðshreyfingin brást við þeim vanda og þáverandi ríkisstjórn. Þá var unnið að því með allt öðrum hætti. Þá var ekki talað um það að auka atvinnuleysisbætur, þá var talað um það að efla fyrirtækin, stofnaðir yrðu sjóðir, settar á laggirnar atvinnumálanefndir sem eyddu atvinnuleysinu. Þetta veit hv. þm. Karvel Pálmason. Þannig brugðust sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn við vandanum á þeim árum. ( KP: Hvenær komu atvinnuleysisbætur til ríkisstjórnar ...?) Það er mikill munur eða á þeirri stefnu sem hér er
lögð á borðið. Hér er lögð á borðið fyrir okkur hrein og klár kreppustefna. ( Gripið fram í: Hv. þm. var formaður í einni svona atvinnumálanefnd. --- Karl Steinar var formaður í einni atvinnumálanefnd.) Já, hann ætti þess vegna að skilja það ... (Gripið fram í.) Munurinn á því að hér er, hv. þm., almennt orðalag en ekki fastmótað eins og gert var á árunum 1966--1967. (Gripið fram í.) Það var fastmótuð stefna sem Alþfl. og Sjálfstfl. voru með þá, enda eyddum við atvinnuleysinu og reistum atvinnulífið við. (Gripið fram í.) Þetta vita hv. þm. Ég skil það vel að hv. þm. Karvel Pálmasyni og Karli Steinari líði illa undir því að þetta skuli rifjað upp. Vegna þess að það er verið

að fá þá til að samþykkja hér ráðstafanir sem þeir vita að muni ekki skila jákvæðum árangri gagnvart atvinnulífinu. Þeim er þetta ljóst. Hvar eru milljarðarnir sem eiga að rétta við stöðu fyrirtækjanna og skapa það afl úti í atvinnulífinu sem þarf til þess að atvinnuleysinu sé eytt? Hvar eru tillögurnar um það að unga fólkið þurfi ekki að vera atvinnulaust í sumar? Ég sé ekki eina einustu tillögu, ekki eitt einasta atriði í þessu frv. sem gerir ráð fyrir því. Það gerir ekki einu sinni ráð fyrir því að útflutningsatvinnuvegirnir séu reknir á núlli. Þessar ráðstafanir gera ráð fyrir því að útflutningsatvinnuvegirnir séu reknir með tapi. En það er vonast til þess að markaðsverð hækki til þess að leiðrétta stöðu þessara fyrirtækja. Gefur það miklar vonir um betra atvinnuástand? Það er ágætt að vera þingmaður og lifa í vernduðu umhverfi gamalla flokka sem geta kannski ekki farið lægra heldur en Alþfl. er kominn í dag. Það er ágætt að eiga von á því að sitja hér á þingi sem einn af 8 eða 10 þingmönnum einhvers flokks. Ég undrast þann hálfkæring sem kemur stundum fram í viðhorfum og athöfnum ákveðinna hv. þm. sem eru nálægt verkalýðshreyfingunni svo ekki sé meira sagt. ( Gripið fram í: Hverra hv. þm., ræðumaður?) Ég ætla ekki einu sinni að setja það inn í þingtíðindi hver greip fram í núna af tillitssemi við hv. þm.
    En ef við lítum á þessi bréfaskipti á milli hæstv. ríkisstjórnar annars vegar og Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins hins vegar þá er það atriði sem mér finnst einnig mjög athyglisvert og snýr alveg sérstaklega að Alþfl. Og það er þetta atriði sem segir í bréfi ríkisstjórnarinnar til Alþýðusambandsins, dags. 30. apríl, með leyfi forseta:
,,4. Skattamál: Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök launafólks um úrbætur í skattamálum, m.a. um aðgerðir til að koma í veg fyrir skattsvik. Þá mun ríkisstjórnin láta kanna skattlagningu lífeyrisiðgjalda, m.a. með tilliti til tvísköttunar. Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök launafólks um undirbúning og framkvæmd virðisaukaskattsins sem tekinn verður upp um næstu áramót, m.a. um hugsanleg tvö þrep í skattinum.``
    Þetta finnst mér mjög athyglisvert. Mér finnst það athyglisvert sérstaklega fyrir það í fyrsta lagi að við sjálfstæðismenn erum búnir að berjast fyrir því allar götur síðan virðisaukaskattsfrv. kom hér fram að það yrðu tvö þrep í virðisaukaskattinum. Þegar þetta mál var til umfjöllunar á sínum tíma börðust alþýðuflokksmenn hatrammri baráttu gegn því að það kæmi til greina að hafa tvö þrep í virðisaukaskatti. Og ekki aðeins það, og kem ég þá að atriði nr. tvö: Þegar Sjálfstfl. kom með tillögur um ráðstafanir vegna vanda atvinnuveganna sl. haust þá var þetta eitt af meginatriðunum í okkar tillögum að virðisaukaskattslögunum yrði breytt þannig að það yrðu tvö þrep og annað þrepið yrði lægra. Það yrði lægri prósenta þar með sérstöku tilliti til álagningar á matvæli. ( Gripið fram í: Það var nú bara

útfararsálmur.) Það er fróðlegt og ég vona að það komi í fjölmiðlum að hv. þm. Karl Steinar hafi talað um það sem útfararsálm þegar Sjálfstfl. lagði til að það yrði ekki nema 8% eða 10% virðisaukaskattur á matvælum. Ég vona að það komi fram í fjölmiðlum hver er enn þá afstaða hv. þm. Alþfl. til þessa máls. (Gripið fram í.) En nú hefur verkalýðshreyfingin, í samningum líklegast við hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson, komið því til leiðar að Alþfl. hefur orðið að beygja sig eða kaupa stólana því verði að nú skal samið um það við verkalýðshreyfinguna að hafa tvö þrep í virðisaukaskattinum, annað lægra m.a. vegna matvæla, og hitt hærra. ( KP: Ekki allur Alþfl.) Ég tel þetta áfanga og ég vona satt að segja að Framsfl. geti skreytt sig með því, þó ég sé ekkert að halda neitt sérstaklega upp á Framsfl., en ég vona að hann geti skreytt sig með því og skýrt frá því opinberlega að það hafi verið hæstv. forsrh., sem er nú vinsæll maður, sem hafi tryggt framgang þessa stefnumáls m.a. okkar sjálfstæðismanna. Ég sé að hann brosir blíðlega til mín. Hann er mjög ánægður með þetta. (Gripið fram í.) Mér finnst það hörmulegt, virðulegi forseti, að enn skuli vera þingmenn hérna í deildinni sem eru ekki búnir að viðurkenna mistök sín í sambandi við virðisaukaskattsfrv. á sínum tíma og þau lög sem voru samþykkt --- sem ég samþykkti nú ekki, ég tek það fram. (Gripið fram í.) Ég greiddi ekki atkvæði með því. ( KP: En matarskattinn?) Það hafa nú verið samþykktar bráðabirgðaráðstafanir á þingi fyrr og það vita allir að söluskatturinn í þeirri umferð var bráðabirgðaráðstöfun en ekki frambúðarráðstöfun. Virðisaukaskatturinn var hins vegar frambúðarráðstöfun, það vita allir. En að Alþfl. vildi ekki taka þátt í því að hafa tvö þrep í virðisaukaskattinum, það
er söguleg staðreynd. ( KP: Liggur það fyrir?) Hann er kannski búinn að skipta um skoðun? (Gripið fram í.) Já. ( EG: Spurði arkitekt stjórnarslitanna.) Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hv. þm. hér í salnum voru að tala um rýtingsstungur. Ég vildi óska eftir því að þeir biðu með það þangað til þeir fá orðið og fjalla þá nánar um það.
    Ég var nú kominn að því atriði sem olli vinslitum á milli sumra, en nú er það orðið samkomulag og meira en það því það er fskj. með frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga. Alþfl. hefur sem sagt fallist á það grundvallaratriði í sambandi við uppbyggingu virðisaukaskatts á Íslandi að hann geti verið tveggja eða fleiri þrepa ef á þarf að halda.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, teygja þessar umræður mikið á langinn en ég vildi koma þessum atriðum að. Ég vil m.a. segja það að lokum að frv. og þessar ráðstafanir eru víðs fjarri því að vera fullnægjandi fyrir atvinnulífið. Þetta eru kreppuráðstafanir sem munu því miður ekki duga til að bæta stöðu íslensks atvinnulífs og til að bæta stöðu og afkomu launafólks.