Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 06. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég hafði gert forseta viðvart um að ég óskaði eftir nærveru hæstv. fjmrh. Það væri auðvitað einnig mjög fróðlegt að fá hæstv. viðskrh. hingað inn. Hér eru mál að ræða sem falla undir hans ráðuneyti. ( EG: Hæstv. viðskrh. er væntanlegur í húsið núna eftir 10 mínútur, ég var að tala við hann.) Það gengur auðvitað ekki að búinn sé til bandormur í því skyni að losa ráðherra við að svara fyrirspurnum þegar mál eru til umræðu og auðvitað hefði verið eðilegt að hæstv. ráðherrar hefðu verið mættir hér án þess að um væri beðið.
    Ég vil fyrst segja það að þetta frv., sem að réttu lagi ætti að bera yfirskriftina frv. til laga um kreppuráðstafanir, er lagt fram vegna kjarasamninga sem gerðir voru á hinum almenna vinnumarkaði í kjölfar þeirra samninga sem gerðir hafa verið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Í því sambandi vekur kannski fyrst og fremst athygli að samningamaður ríkisins, fulltrúi fjmrh., lýsti því yfir í fjölmiðlum í gær eða fyrradag að ríkisstjórnin hefði loksins komist það áleiðis eftir rúmlega fjögurra vikna verkfall ýmissa háskólamenntaðra manna að nú væri farið að bjóða háskólamenntuðum mönnum svipaðar kjarabætur og fælust í samningum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Eftir að þessir menn hafa verið rúmar fjórar vikur í verkfalli er loksins af hálfu ríkisins farið að bjóða þeim sambærilegar bætur við það sem felst í samningunum við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Ég hygg að Bandalagi háskólamenntaðra manna hafi enn ekki verið boðið upp á kjör sem séu sambærileg við þá samninga sem gerðir voru við Sóknarkonur ef rétt er lesið og heldur ekki sambærileg við þá samninga sem gerðir voru á hinum almenna vinnumarkaði og ríkisstjórnin hefur nú greitt fyrir.
    Hæstv. forsrh. skýrði frá því hér áðan að veruleg verðbólga mundi fylgja í kjölfar þessarar samningsgerðar og hann tók það sérstaklega fram, sem er einstakt, að gengið mundi síga eða falla á næstu vikum. Hæstv. menntmrh. fann á sínum tíma upp á orðinu gengisaðlögun þegar hann var viðskrh. hér í gamla daga og var hlegið að því um allt land. Hæstv. forsrh. hefur með öðrum orðum sagt að þessir kjarasamningar feli þegar í stað í sér kjararýrnun. Það er auðvitað enginn vafi á því að ef háskólamenntaðir menn í þjónustu ríkisins eiga nú að skrifa undir þá samninga sem hæstv. fjmrh. hefur boðið þeim fram að þessu ætlast hann til þess að þessar stéttir taki á sig hlutfallslega meiri kjaraskerðingu en aðrar stéttir. Má því segja að síðasta samningstilboð fulltrúa ríkisvaldsins við þessar stéttir ætti að bera yfirskriftina ,,Tilboð um kjaraskerðingu``.
    Það var rætt í gær um þau mál sérstaklega og ég skal ekki fara nánar út í þá sálma. Aðeins segja að það er algerlega þýðingarlaust fyrir ríkisstjórnina og einstaka ráðherra að skella skollaeyrum við þessari löngu vinnustöðvun sem orðið hefur. Ég þekki ekki einn einasta mann sem telur að ríkisvaldið hafi farið rétt að í samningsviðræðunum og samningsgerðinni

við háskólamenntaða menn. Ríkisstjórnin getur auðvitað engan veginn skotið sér undan þeirri ábyrgð að skólastarf hefur raskast og allt í tvísýnu um það hverjar verða lyktir skólaársins, þó svo að hæstv. menntmrh. hafi sagt í Sþ. í gær að um leið og samningar takist muni hann hefja viðræður við skólastjóra og kennara um það hvernig hægt sé að ljúka skólaárinu með eðlilegum hætti. Hefði auðvitað farið betur á því að hann hefði sagt: Með óeðlilegum hætti. En ég skal ekki tala meira um það, aðeins minna á að mér finnst tómlæti ríkisstjórnarinnar í sambandi við þær kjaradeilur sem nú eru uppi æpandi, ámælisvert og óskiljanlegt.
    Ég tel nauðsynlegt að Alþfl. hafi sinn fulltrúa hér inni í sambandi við það sem ég vil segja um skattamálin. Meðan ég bíð eftir hæstv. viðskrh. vil ég víkja að öðrum atriðum.
    Ég get vel byrjað á því að tala um bætur almannatrygginga. 8. liðurinn í yfirlýsingu hæstv. forsrh. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Bætur almannatrygginga. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að bætur almannatrygginga hækki í samræmi við almennar launahækkanir á samningstímabilinu.`` Þessi yfirlýsing verður ekki skilin öðruvísi en svo að það hafi verið tregða í ríkisstjórninni að fylgja þeirri sjálfsögðu reglu sem fylgt hefur verið fram að þessu að láta bætur almannatrygginga hækka í samræmi við almennar launahækkanir. Athyglisvert er að verkalýðshreyfingin skuli hafa krafist þess að hæstv. forsrh. setti þessa setningu inn í yfirlýsingu og inn í bréf sitt til hennar. Þetta gefur til kynna að ágreiningur hafi verið í ríkisstjórninni um það hvort rétt væri að almannatryggingarnar fylgdu almennri hækkun kaupgjalds í landinu. Fróðlegt væri að fá upplýsingar hjá hæstv. forsrh. um hvaða aðilar í ríkisstjórninni það voru sem vildu standa á móti því að bætur almannatrygginganna hækkuðu í samræmi við almennar launahækkanir. Ef tilfellið er að ekki hafi verið ágreiningur um þetta í ríkisstjórninni, þetta hafi alltaf verið ákveðið og að verkalýðshreyfingin hafi ekki þurft um þetta að biðja eða tala, er þetta auðvitað meiningarlaus setning og einungis sett þarna inn til þess að slá ryki í augu fólksins í landinu, slá ryki í augu
almennings í landinu.
    Það væri ekki í fyrsta skipti sem það er gert. Það er auðvitað sama setningin og sama klausan sem gengur alltaf aftur og aftur í öllu því sem kemur frá þessari ríkisstjórn, kreppuráðstafanir núna, þær ráðstafanir sem á undan hafa gengið og eru að verða eilífðarmál hér á þinginu og nýjar ráðstafanir þessarar ríkisstjórnar til þess að reyna að bjarga atvinnuvegunum. Samt sem áður er ástandið ekki betra en svo að það kaupfélag á landinu, KEA, sem fram að þessu hefur verið talið eitt traustasta fyrirtæki landsins skilar ekki betri útkomu en svo að tapið á sl. ári losar 200 millj. kr. Það var eftirtektarvert að í ummælum kaupfélagsstjórans á Akureyri um ástandið núna tók hann sérstaklega fram að nauðsynlegt væri að fella gengið til þess að atvinnureksturinn fengi

viðunandi rekstrargrundvöll. Hann talaði jafnframt um að nauðsynlegt væri að lækka fjármagnskostnað og um þá miklu verðbólgu sem er í landinu og losaði 30% í marsmánuði. Ég hef ekki tölurnar yfir þennan mánuð að sjálfsögðu en það er eftirtektarvert að öll þessi verðbólga stafar af ráðstöfunum sem hæstv. forsrh. hefur beitt sér fyrir bæði við myndun ríkisstjórnarinnar og eins hér í þinginu. Hæstv. forsrh. ber því auðvitað í höfuðdráttum og öllum atriðum ábyrgðina á því hvernig komið er fyrir fyrirtækjunum og fyrir heimilunum í landinu og það þýðir ekki lengur fyrir hann að koma sér undan að svara þegar beint er til hans skýrum spurningum.
    Þegar ríkisstjórnin var mynduð var þessi setning sett á blað, með leyfi hæstv. forseta: ,,Sérstakt átak verður gert til þess að virkja verðlagseftirlit almennings og verður m.a. haft samstarf við samtök launafólks og neytenda í því skyni.`` Þegar hæstv. forsrh. hafði farið í jólafrí og ávarpaði þingið í byrjun febr. lét hann prenta sem fskj. með frv. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti þessa setningu: ,,Loks leggur ríkisstjórnin það fyrir Verðlagsstofnun að hún taki upp samstarf við verkalýðs- og neytendafélög um aðhald að verðlagi. Í þeirri yfirlýsingu og á því blaði sem hæstv. forsrh. sendi verkalýðshreyfingunni við gerð þessara samninga nú stendur: ,,Í samstarfi við samtök launafólks verði unnið öflugt verðkönnunar- og kynningarstarf.`` Hér er búið að sleppa Neytendasamtökunum. Neytendasamtökin voru inni í haust. Neytendasamtökin voru inni í febrúar en þau eru það ekki lengur. Ekki veit ég hvers vegna þeim er sleppt nú. Ég held að hæstv. forsrh. verði sjálfs sín vegna að gefa deildinni stutta lýsingu á því sérstaka átaki sem hann beitti sér fyrir á haustdögum til að virkja verðlagseftirlit almennings, m.a. í samstarfi við samtök launafólks og neytenda.
    Ég minnist þess að á fundi fjh.- og viðskn. var upplýst af Alþýðusambandi Íslands að þetta verðlagseftirlit hefði verið fellt niður af hálfu verkalýðshreyfingarinnar vegna þess að hæstv. fjmrh. stóð ekki við þau fyrirheit sem hann hafði gefið í sambandi við greiðslu kostnaðar af þessu átaki og af þessu verðlagseftirliti. Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Hvað hefur verið gert síðan í febrúar til þess að taka upp samstarf við verkalýðs- og neytendafélög um aðhald að verðlagi? Hvar liggja fyrir skýrslur um þetta starf? Hver hefur niðurstaðan verið og hvernig stendur á því að hæstv. forsrh. sér nú ástæðu til að setja þetta aftur inn í bréfið til verkalýðshreyfingarinnar? ,,Í samstarfi við samtök launafólks verði unnið öflugt verðkönnunar- og kynningarstarf.`` Getur verið að launþegahreyfingunni hafi fundist sem hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn hafi ekki staðið við stóru orðin? Má vera að hæstv. ríkisstjórn hafi látið undir höfuð leggjast að kynna fyrir verkalýðshreyfingunni og neytendasamtökunum allar þær nýju álögur sem búið er að leggja á þjóðina á undanförnum vikum og mánuðum, álögur sem sumpart eru tilkomnar vegna hærri skatta, vegna hærri gjalda í opinberri þjónustu

og þar fram eftir götunum? Má vera að svo sé? Getur verið að fólkinu ógni sú verðbólga sem hér er? Fólki sem hafði fengið 1,25% launahækkun síðan 1. júní á sl. ári og 1,25% nú í febrúar eða mars meðan verðbólgan á þessu tímabili var komin núna í marsmánuði yfir 30%. Getur verið að verkalýðshreyfingunni hafi blöskrað? Má vera að þeim mönnum sem þar sitja inni, sömu mönnum í launþegahreyfingunni og nú eru að senda Alþb. úrsögn, sömu mönnum og eru að segja upp Þjóðviljanum, hafi blöskrað framkoma hæstv. fjmrh. og að þeim finnist að fulltrúar Alþb. séu svartar krákur í hópi stuðningsmanna sinna?
    Ég vil enn fremur vekja athygli á því að í febrúaryfirlýsingu hæstv. forsrh. segir: ,,Ríkisstjórnin felur Verðlagsstofnun að fylgjast sérstaklega með verðákvörðunum einokunar- og markaðsráðandi fyrirtækja.`` Í yfirlýsingunni nú segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir aðhaldi að verðákvörðunum einokunarfyrirtækja og markaðsráðandi fyrirtækja.`` Þýðir þetta að þessu aðhaldi hefur ekki verið beitt síðan í febrúar? Hefur Verðlagsstofnun ekki komist yfir þau verkefni sem henni hafa verið falin? Hefur Verðlagsstofnun og verðlagsstjóri ekki beitt því aðhaldi sem talað var um í sambandi við verðákvarðanir einokunarfyrirtækja og markaðsráðandi fyrirtækja? Hvernig stendur á því að hæstv. forsrh. tekur þessa setningu inn aftur? Er það til þess að látast? ( Forsrh.: Góð vísa er aldrei of oft kveðin.) Er það til
þess að látast? Er góð vísa ekki of oft kveðin? Það má vera að það sé rétt hjá hæstv. forsrh. En ef farið hefði verið eftir vísunni í fyrsta sinn þyrfti ekki að lofa að gera það sama öðru sinni því hér er ekki talað um að halda áfram aðhaldi, það er tala um að beita sér fyrir aðhaldi. Ef hæstv. fosrh. er þá læs og veit hvað hann skrifar. --- Við höfðum reynt að koma okkur saman um það að ljúka fundinum tiltölulega fljótlega, það má auðvitað endurskoða það.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvað felist í þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið í sambandi við skattamál. Það er náttúrlega það sama um skattsvikin þar og annars staðar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök launafólks um úrbætur í skattamálum, m.a. um aðgerðir til að koma í veg fyrir skattsvik.`` Eitthvað kannast ég við þessa setningu úr fyrri plöggum. Alltaf er spurningin sú hvort ekki hafi verið staðið við það að hafa samráð við launþegahreyfinguna. Eða vildi hún það ekki? Gleymdi hún að svara bréfum ríkisstjórnarinnar, eða lokaði hún dyrum á ríkisstjórnina þegar hún var að gera allt þetta í samráði við ríkisstjórnina? Síðan segir: ,,Þá mun ríkisstjórnin láta kanna skattlagningu lífeyrisiðgjalda m.a. með tilliti til tvísköttunar.`` Ég vildi óska eftir því að hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því hvernig hann hugsaði þessa framkvæmd og jafnframt óska ég eftir því að hann íhugi hvort ekki sé nauðsynlegt að iðgjöld af líftryggingum falli einnig þarna undir. Það er fjöldi fólks í þessu landi sem ekki hefur laun og

hefur ekki aðgang að lífeyrissjóði. Margt af þessu fólki hefur keypt sér líftryggingar. Eðli þeirra er hið sama og lífeyrissjóðanna og af þeim sökum er auðvitað eðlilegt að iðgjöld af lífeyristryggingum verði skattfrjáls með sama hætti og greiðslur til lífeyrissjóðanna. Ég geri ráð fyrir því að það hafi verið athugunarleysi hjá hæstv. ríkisstjórn að taka ekki iðgjöld af líftryggingum þarna með.
    Hér er talað um skattlagningu fyrirtækja í 7. lið. Ég skil það svo að nú sé ætlunin að heimila á nýjan leik einhvers konar fjárfestingar- eða sveiflujöfnunarsjóð hjá fyrirtækjunum. Í annan stað eigi aftur að auka heimildir til fyrninga og enn fremur eigi að auka á nýjan leik afskriftir vegna vörubirgða, afskriftir vegna lagera og þar fram eftir götunum og rýmka heimildir til þess að afskrifa vafasamar útistandandi skuldir. Er ekki rétt skilið, hæstv. fjmrh., að í þessu felist í stuttu máli það fyrirheit sem ríkisstjórnin hefur gefið í sambandi við skattlagningu fyrirtækjanna? Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort það sé rétt skilið hjá mér að þessar skattalagabreytingar eigi að taka gildi það snemma að hægt sé að beita þessu svigrúmi sem hér er gefið fyrirheit um í sambandi við álagningu á opinber gjöld vegna sl. árs? Það væri auðvitað eðlilegt vegna þess að fyrirtækin höguðu rekstri sínum með hliðsjón og tilliti til þeirra skattalaga sem þá voru í gildi. Skattalaga sem ég og þáv. utanrrh. beittum okkur fyrir með mikilli harðneskju með formanni Alþfl. Jóni Baldvini Hannibalssyni. Skattalögum sem við þrír vorum þá allir sammála um að nauðsynlegt væri að ná fram. Hér er talað um að sérstaklega verði tekið mið af þeim breytingum sem verði innan Evrópubandalagsins. Þetta er nákvæmlega sama og ég og fyrrv. utanrrh. sögðum í aprílmánuði og maímánuði í fyrra og nákvæmlega það sama og Jón Baldvin Hannibalsson sagði í maímánuði í fyrra. Það virðist með öðrum orðum vera þannig að þegar vorar þá fái hæstv. forsrh. einhvern skilning á þörfum atvinnuveganna fyrir heilbrigð og eðlileg skattalög en síðan villist hann á fyrri stigu, myrkviði afturhalds framsóknar, þegar skammdegið er sem mest og tekur þá til baka þær góðu ákvarðanir sem þó var hægt að fá hann til þess að fallast á meðan sól var hæst á lofti. En ég get ekki séð, hæstv. fjmrh., að það breyti svo sem miklu hvort þetta sé sett á pappír nú í sambandi við skattlagningu fyrirtækjanna ef hugmyndin er sú að þetta gildi næsta ár. Það eru fáir menn sem vilja sætta sig við þá tilhugsun að hæstv. fjmrh. verði þá enn í sínu sæti. Að vísu eru hinir fleiri sem óttast að svo kunni að fara.
    En er hæstv. forsrh. sammála fjmrh. sínum um að breytingin á skattlagningu fyrirtækja eigi ekki að taka til sl. árs? Er það hugmynd hæstv. forsrh.? ( Forsrh.: Skattar eiga ekki að vera afturvirkir.) Eiga skattar ekki að vera afturvirkir? ( Forsrh.: Skattabreytingar eiga ekki að vera afturvirkar.) Voru skattabreytingarnar í desembermánuði ekki afturvirkar? Hvenær var rekstrarár fyrirtækjanna sem skattlagt var nú á þessu ári? Var það frá 1. janúar 1988 til 13. desember

1988? Hvenær var rekstrarárið, hæstv. forsrh.? ( Forsrh.: Það veit hv. þingmaður.) ( Gripið fram í: Þetta er einhver misskilningur.) Hvenær þyngdi hæstv. forsrh. þá álögurnar á fyrirtækjunum? Var það í desember 1987 eða var það í desember 1988? ( For srh.: Ég var bara að segja það sem hv. þingmaður hefur oft sagt.) Það var í lok ársins sem hæstv. forsrh. þyngdi skattana. Nú segir hæstv. forsrh. að skattarnir eigi ekki að vera afturvirkir. Það góða sem hann vill það gjörir hann ekki en það illa sem hann ekki vill það gjörir hann. ( Gripið fram í: Það vonda sem hann ekki vill er nú ekki orðið.)
    Ég hafði fallist á að við reyndum að hafa þennan fund stuttan. Ég hlýt að láta í ljós undrun mína yfir því að hæstv. viðskrh. skuli ekki láta svo lítið að vera hér við. Það er náttúrlega furðulegt, hæstv. forseti, þegar hér er
lagður fram bandormur sem grípur inn á hin mörgu ráðuneyti og þegar stjórnarandstaðan er beðin um að hliðra til er það algjörlega óþolandi að þeir ráðherrar sem málið fellur undir skuli vera úti í bæ. Það er svona eitt með öðru í þessu þinghaldi.
    Hér er talað um að skattur á erlendar lántökur verði felldur niður frá og með 1. júlí nk. Nú vitum við að þessi skattur var tímabundinn á sínum tíma og settur á vegna þeirrar miklu þenslu sem hér var og því hafði verið lofað að hann félli niður um áramót. Nú var gert ráð fyrir að hann yrði út allt þetta ár. 6% lántökugjald jafngildir 6% afföllum á lántökum. Til viðbótar við þessi 6% liggur svo fyrir frumvarp þar sem gert er ráð fyrir afturvirkum skatti á þau fjárfestingarlán sem fjárfestingarsjóðir atvinnurekstrarins hafa veitt á undanförnum árum. Afturvirkur skattur, hæstv. forsrh., sem ég hygg að valdi því að óhjákvæmilegt sé t.d. í Stofnlánadeild landbúnaðarins að hækka vexti þar úr 2% í 2,5%, ég tala nú ekki um ef lántökugjaldið bætist við. Hefur hæstv. fjmrh. hugsað hvaða afleiðingar það hefur ef gildistaka þessa verður dregin til 1. júlí? Halda hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að einhverjir muni taka erlend lán fram að þessum tíma til þess að borga í ríkisfjárhirsluna? Eða halda þessir tveir ráðherrar að það sé svo bjart útlitið hjá skólafólki á þessu vori að ástæða sé til þess að draga niðurfellingu lántökugjaldsins af þeim sökum að skólafólkið hafi of mikið að gera nú í vor? Heldur hæstv. forsrh. það? Auðvitað mun þetta valda því að sjóðirnir munu draga við sig að taka lán og veita þau. Auðvitað munu einstaklingarnir reyna með öllum brögðum að komast hjá því að taka þessi lán fyrr en eftir að lántökuskatturinn hefur verið felldur niður. Auðvitað mun það kosta margvíslegt óhagræði og hafa kostnað í för með sér. Því skil ég ekki hvað vakir fyrir þessum tveim hæstv. ráðherrum og gaman væri að fá ráðherra iðnaðarmála hingað inn til að spyrja hann hvernig hann hugsi þetta. Hver er hugmyndin að þessu?
    Hv. 14. þm. Reykv. gerði góðlátlegt grín að ríkisstjórninni út af vörugjaldinu. Nú er flutt frv. um að fella niður vörugjald af vörum sem þessi sama

ríkisstjórn þröngvaði í gegnum þingið fyrir nokkrum mánuðum. Það er auðvitað athyglisvert að lesa hvaða vöruflokkar það eru sem eru látnir halda vörugjaldi, það er fróðleg lesning. Af hverju þarf endilega að halda vörugjaldinu á parketgólfum, svo ég taki dæmi? Bárujárn á að halda vörugjaldinu. Af hverju endilega bárujárn en ekki slétt járn? Það er svona eitt og annað. Það vekur upp grunsemdir um að það sé reynt að tína út þá vöruflokka sem gefa ríkisstjórninni mest í aðra hönd, gefa mest af sér. Það verður gaman að fara yfir það með fulltrúum iðnaðarins hvað þarna býr að baki. En af hverju er verið að draga þetta óréttláta vörugjald svona lengi? Það á að koma til móts við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur með þessu. Af hverju á þá ekki að afnema þetta undir eins? Hvers konar sýndarmennska er þetta? Það vita allir að ríkisstjórninnni gæti snúist hugur í haust. Þá verður kannski komið svigrúm til þess að leggja á aðra nýja skatta í staðinn.
    Auðvitað veldur þetta, eins og lántökugjaldið, því að menn munu draga við sig að ráðast í framkvæmdir. Menn munu draga við sig að kaupa eitt og annað meðan þeir bíða eftir því að vörugjaldið verði tekið af. Þetta mun líka valda margvíslegri röskun og truflun. Þetta mun draga úr eftirspurn eftir vinnuafli. Þetta mun með öðru koma í veg fyrir að börnin fái vinnu nú á þessu sumri. Það er ekki nokkur vafi á því. En unglingarnir eru náttúrlega látnir sitja á hakanum. Ekki aðeins í sambandi við lok skólaársins, þegar ríkisstjórnin hefur ekki staðið með neinum sóma að því að reyna að leysa þá deilu, heldur gægist það líka fram hér í sambandi við þetta frumvarp að verið er að slá á frest margvíslegum ákvörðunum sem hljóta að draga framkvæmdir á langinn og hægja á vissum viðskiptum. Ég er sannfærður um það að hæstv. ráðherrar hafa enga hugmynd gert sér um það hvers eðlis þessar truflanir verða. Hafa ekkert hugleitt hvaða afleiðingar dráttur af þessu tagi mun hafa.
    Ég vil spyrja hæstv. forsrh. að því hvað átt sé við með þessari setningu, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ríkisstjórnin vinnur nú að mótun almennra reglna um veitingu atvinnuleyfa til að girða fyrir misnotkun, t.d. stofnun gervifyrirtækja, til að komast hjá eðlilegum skyldum gagnvart launafólki og opinberum gjöldum.``
    Hæstv. forsrh. talaði um það áðan að menn hefðu leikið sér að því að verða gjaldþrota, að kaupfélögin sem eru að lýsa sig gjaldþrota nú séu að leika sér að því að verða gjaldþrota. Það er náttúrlega undarleg hugmyndafræði og það er undarleg sál sem lætur sér slík ummæli um munn fara að menn séu að leika sér að því norður í Norður-Þingeyjarsýslu að biðja um greiðslustöðvun og að erfiðleikar kaupfélagsins þar séu gamanmál. Það er auðvitað ekki nóg að setja fram yfirlýsingu af þessu tagi. Ég hygg að það sé ekki síður nauðsynlegt að styrkja og efla fógetaembættin þannig að þau geti athugað betur en nú þau tildrög og þær ástæður sem valda gjaldþrotum og hvort um undanslátt af eignum og fjármunum sé að ræða. Ég vil t.d. varpa fram þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort hann sé sammála mér um það að ef

systurfyrirtæki tekur við rekstri þess fyrirtækis sem gjaldþrota verður þá sé nauðsynlegt að beita
strangara aðhaldi en nú til þess að systurfyrirtækið geti ekki hagnýtt sér þær upplýsingar sem það hefur fengið til þess að gæta hagsmuna sinna. Það eru margvísleg slík dæmi til. Við getum nefnt slík dæmi úr einkageiranum. Við getum t.d. líka minnt á það þegar eitt kaupfélag lendir í erfiðleikum eða verður gjaldþrota að þá er gjarnan hlaupið til og kaupfélagið í næstu sveit er beðið um að taka við rekstrinum. Auðvitað hljóta að vakna spurningar um það hvort slík samvinna á milli kaupfélaganna valdi því á stundum að kaupfélögin geti hagrætt sínum kröfum og takist í gegnum slíka samninga að ná til sín fjármunum þannig að aðrir lánardrottnar og aðrir viðskiptamenn viðkomandi kaupfélags bera skaða af. Auðvitað hlýtur maður að velta svona fyrir sér. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi ekki jafnframt í huga að efla eftirlit með því að systurfyrirtæki geti ekki með þessum hætti varið sína hagsmuni vegna kunnugleikans á meðan aðrir viðskiptavinir verða fyrir tilfinnanlegu tapi.
    Ég er auðvitað alveg sammála hæstv. forsrh. um að það eigi að girða fyrir stofnun gervifyrirtækja til að komast hjá eðlilegum skyldum gagnvart launafólki og öðrum opinberum gjöldum. En ég var svo mikið barn að ég hélt að það væri algerlega óheimilt samkvæmt gildandi lögum. Ég hélt að það væri skylda m.a. skattalögreglu, skattstofu og lögregluyfirvalda yfir höfuð að reyna að sjá til þess að rekstur í landinu væri heilbrigður, að hæstv. fjmrh. ætti að sjá til þess að fyrirtæki stæðu skil á opinberum gjöldum og ég hélt að verkalýðshreyfingin reyndi að fylgjast með því að staðið væri í bærilegum skilum við launafólk. Ég átta mig því ekki algerlega á því hvað þarna er verið að tala um. Mér finnst ríkisstjórnin vera að setja á pappír eitthvað sem er í eðli sínu fallegt en þó meiningarlaust og í framkvæmdinni þýði ekki nokkurn skapaðan hlut, eins og margt af því sem hér hefur fram komið.
    Ég vil líka láta í ljósi undrun mína á því að félmrn. verður falið að koma á samræmdu starfsmenntunarkerfi og falin uppbygging starfsmenntunar. Nú falla iðnskólarnir og verkmenntaskólarnir undir menntmrn. Þetta er kostnaðarsamara en þyrfti, þetta er tvíverknaður. Auðvitað er eðlilegt að starfsmenntuninni sé haldið uppi af því ráðuneyti sem hefur starfsmenntunina í sínum höndum og það er menntmrn. Þessi nýja sluffa fyrir hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur kann að fara henni vel en hún verður dýr fyrir skattborgarana og kallar auðvitað á aukin útgjöld, veldur margvíslegu óhagræði og er ekki annað en pjatt.
    Loks vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvað átt sé við með þessum orðum: ,,Jafnframt verði kannað með hvaða hætti megi tryggja verkafólki við landbúnaðarstörf rétt til atvinnuleysisbóta.`` Verkafólk sem er í stéttarfélögum, sem er skylda, á sjálfkrafa rétt á atvinnuleysisbótum, það er deginum ljósara. En það er erfitt að hugsa sér að þeir fái

atvinnuleysisbætur sem ekki hafa launuð störf með höndum því að þá missa þeir í raun ekki atvinnuna. Það er nauðsynlegt að fá gerða mjög skilmerkilega grein fyrir þessu.
    Ég tek svo undir það með hv. 14. þm. Reykv. að nær hefði verið að reyna að treysta undirstöður atvinnulífsins fremur en beita sér fyrir því að lengja bótatímbil atvinnuleysistrygginga. Norður á Ólafsfirði gerðist það að 180 dagarnir liðu án þess að ríkisstjórnin hrærði hönd eða fót til þess að reyna að koma einhverjum grundvelli undir atvinnulífið þar þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn hefði gefið margvísleg fyrirheit um það að allir þessir nýju sjóðir mundu koma því byggðarlagi til hjálpar. Síðast þegar ég vissi var í rauninni ekkert farið að vinna í þessum sjóðum að málefnum Hraðfrystihúss Ólafsfjarðar. Hæstv. forsrh. hefur stundum talað um það í ræðum sem gott fordæmi að verið væri að reyna að koma undir einn hatt þessum rekstri, tveimur frystihúsum og einum togara. Auðvitað er það gott ef slík sameining getur orðið en fólkið þarna ætlaðist til þess og bjóst við að Hlutabréfasjóðurinn mundi bregðast skjótt við. Það lágu allar upplýsingar fyrir. Það þurfti ekki að bíða eftir nokkrum sköpuðum hlut. Samt er nú þetta látið danka og dragast og veldur því margvíslegu óöryggi og óánægju. Það er ekki nóg að koma upp í ræðustól og tala svona fagurlega um þennan Hlutabréfasjóð og Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina, skammstafað FSV, fjölskyldusjóður Stefáns Valgeirssonar. Ég get talið þessa sjóði og svo kemur ekki rekstrargrundvöllurinn.
    Ég greip fram í fyrir hæstv. forsrh. áðan og spurði hann um hvað þessi setning þýddi: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að samkeppnisstaða útflutningsgreina verði viðunandi á samningstímabilinu.`` Hv. 14. þm. Reykv. gerði hér glögga grein fyrir stöðu útflutningsatvinnuveganna og ég hef engu við það að bæta. Mig langar hins vegar til að spyrja hæstv. forsrh. aftur um það hvað hann hugsi sér í þessu sambandi. ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að samstaða útflutningsgreina verði viðunandi á samningstímabilinu.`` Hvenær á samningstímabilinu? Hugsar hæstv. forsrh. sér það að frá deginum í dag að telja þar til samningstímabilinu ljúki, ef reksturinn á útflutningsgreinunum verður gerður upp sérstaklega á þessu tímabili, eigi útflutningsgrreinarnar að skila hagnaði? Það er auðvitað ekki viðunandi
rekstur nema útflutningsgreinarnar skili hagnaði. Hugsar hann sér að ef staða útflutningsgreinanna yrði tekin út í dag og svo þegar samningstímabilinu lýkur þá komi í ljós að staðan hafi verið viðunandi? Eða hugsar hæstv. forsrh. dæmið svo að staðan eigi að vera viðunandi t.d. í einn klukkutíma á samningstímabilinu? Hvernig hugsar hæstv. forsrh. sér þetta? Ég veit að hann meinar það að samningsstaðan eigi einhvern tíma á samningstímabilinu að vera viðunandi, en hann fæst ekki til að segja hvenær hún eigi að verða það og hann fæst ekki til að tala í alvöru um það hvernig hún eigi að verða það.

    Hæstv. sjútvrh. er hér í næsta herbergi. Þetta eru tveir vinsælustu stjórnmálamenn þjóðarinnar. Það man enginn svo langt aftur að annar hvor þeirra hafi ekki verið sjútvrh. og svona er nú komið fyrir sjávarútveginum. Einhvern tíma á samningstímabilinu á sjávarútvegurinn að hafa viðunandi stöðu. Og svo ef maður spyr er eiginlega ekki talað í alvöru um málið eins og það liggur fyrir heldur farið að velta vöngum og hampa því að einhvers staðar úti í heimi, einhvern tíma seinna kannski muni fiskverð fara hækkandi.
    Ég sé að hæstv. viðskrh. og iðnrh. er kominn í salinn og vil þakka honum fyrir það um leið og mig langar til að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann sé sammála því að 2. gr. frv. um niðurfellingu lántökugjaldsins skuli ekki taka gildi fyrr en 1. júlí 1989 og geti sætt sig við það sem viðskrh. og iðnrh. Mig langar líka til að spyrja hann að því hvort hann geti sætt sig við það sem iðnrh. að 4. gr., sem fjallar um niðurfellingu á nokkrum tollskrárnúmerum í sambandi við vörugjaldið, taki ekki gildi fyrr en 1. sept. Finnst hæstv. viðskrh. og iðnrh. þetta fullnægjandi? Það væri fróðlegt að hæstv. iðnrh. gerði grein fyrir því á eftir. Svo ætlaði ég bara að óska hæstv. iðnrh. til hamingju með það að honum skyldi hafa tekist í sambandi við skattlagningu fyrirtækja að fá hæstv. forsrh. til að skrifa þessa setningu: ,,Sérstaklega verður tekið mið af þeim breytingum sem verða innan Evrópubandalagsins.`` Það er nú mikill sigur fyrir hæstv. iðnrh. að fá þetta inn þarna.
    Hitt hlýtur að vera mikill ósigur fyrir hæstv. iðnrh. að það var upplýst hér í deildinni, með því að hæstv. fjmrh. hristi höfuðið, að þær lagfæringar á skattlagningu fyrirtækja sem hér er gefið fyrirheit um eigi ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári. Getur hæstv. viðskrh. og iðnrh. líka fellt sig við það? Hann stóð að því með okkur sjálfstæðismönnum fyrir einu ári að koma fram ýmsum skattalagabreytingum. Hæstv. iðnrh. hefur látið þau orð falla að til þess að hægt sé að hagræða í atvinnurekstrinum sé nauðsynlegt að fyrirtækin viti eftir hvaða reglum þau eigi að starfa t.d. í sambandi við skattamál. Það sé nauðsynlegt að fyrirtækin geti tekið mið af gildandi skattalögum á hverjum tíma því þau hljóta að koma inn í rekstraráætlun fyrirtækisins ef horft er til einhverrar framtíðar.
    Nú sagði hæstv. forsrh. rétt áðan, hæstv. iðnrh., að skattalög ættu ekki að vera afturvirk. Finnst hæstv. iðnrh. að þyngingin á skattlagningu fyrirtækjanna sem samþykkt var í desember hafi verið afturvirk? Hvað segir hann um það? Var sú þynging afturvirk? Ef hann er þeirrar skoðunar og getur sannfært forsrh. um að sú skattlagning hafi verið afturvirk liggur yfirlýsing hans fyrir um að hann vilji beita sér fyrir lagfæringu því hann getur ekki hugsað sér að skattlagning sé afturvirk. Það kom fram hjá honum áðan, meira að segja í frammíkalli. En iðnrh. vill ekki segja neitt. Það er kannski allt í lagi að hafa óréttláta skatta svona eitt og eitt ár á milli. Það getur vel verið að það sé rétt hjá ríkisstjórninni að á árinu 1990 verði að taka mið af þeim breytingum sem verði innan

Evrópubandalagsins en ekki á árinu 1989. Kannski á bara að gera það á jöfnu tölunum, 1990, 1992, 1994, en ekki 1987 og 1989. Það væri fróðlegt að fá einn fyrirlesturinn um það hvernig mér missést í þessu. Ég hélt að við vildum öll reyna að koma til móts við atvinnureksturinn og greiða fyrir því að hann gæti staðið undir sér. Ég held að það væri nær að við beittum jákvæðum aðferðum til þess frekar en þeim neikvæðu aðgerðum sem beitt hefur verið. ( Viðskrh.: Það er merkilegt að ræðumaður skyldi vera viss um að honum hafi misheyrst.) Ég sagði það ekki. Hins vegar kemur það fyrir, hæstv. iðnrh. að ég geri mér grein fyrir að mér hafi misheyrst. Það kemur fyrir. En sumir sjá mismunandi sýnir þó að þeir horfi á sama hlutinn á mismunandi dögum og dettur aldrei í hug að þeim hafi missést.