Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 06. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég fagna frv. en aðallega því að það skuli vera dregið úr skattheimtu. Þetta er í fyrsta sinn síðan ég kom inn á þing sem slíkt frv. hefur verið lagt fram. Öll hin frv. hafa verið til þess að íþyngja og ber því sérstaklega að fagna því að lagt er fram frv. í fyrsta skipti þar sem felldur er niður eða dregið er úr einhverjum álögðum sköttum. Hins vegar er það ömurleg staðreynd að ríkisvaldið þurfi að draga til baka skatta sem það hefur nýlega sett í þeim tilgangi að greiða fyrir þeim hóflegu samningum sem gerðir voru á vinnumarkaðinum.
    Með frv. er ríkisstjórnin að viðurkenna að skattheimtan sem lögleidd var um síðustu áramót og á árinu þar áður hafi verið mistök, einnig að atvinnulífið í landinu er nú á brauðfótum. Þetta er sú staða sem við blasir. Þeir kjarasamningar sem frv. er sprottið af eru hins vegar, eins og ég sagði áðan, mjög hóflegir og leggja þær skyldur á herðar ríkisvaldinu að hafa hér jafnvægisástand næstu mánuði, a.m.k. þangað til þeir kjarasamningar eru útrunnir. Það er sú krafa sem verkalýðshreyfingin gerði, og þetta frv. sem hér liggur fyrir er liður í því að sá kaupmáttur sem um var samið haldist.
    Eins og ég sagði fagna ég því að frv. skuli lagt fram og það hafi mátt vera til þess að kjarasamningar náðust, en það er einnig ljóst að staðan í þjóðfélaginu er mjög þröng og má kenna að vissu leyti efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar. Nú er fjmrh. farinn, en ég ætla að beina til hans einni spurningu, hvernig staða ríkissjóðs mundi vera eftir þessar skattalækkanir sem fram koma hér, hvernig tekjurnar eru og þá gjöldin líka.
    Þær breytingar sem frv. felur í sér um skattalækkanir eru efnislega samhljóða þeim breytingum sem við borgaraflokksmenn lögðum til þegar við áttum janúarviðræður við ríkisstjórnina þó að þar sé ekki gengið eins langt og við vildum og ég harma það að ekki skuli vera tekið beint á söluskatti á matvæli, en það hefur eflaust ekki samist um það og ríkisstjórnin ekki treyst sér til þess vegna stöðu ríkissjóðs.
    Það er hins vegar eitt atriði í þessum lögum sem er til hækkunar. Það er um jöfnunargjald. Það er hækkað úr 3% í 5% og harma ég það ekkert sérstaklega að staða innlendra fyrirtækja sé jöfnuð gagnvart erlendum.
    Ég ætla ekki að ræða þetta frv. efnislega og fara yfir einstakar greinar þess eins og fyrri ræðumenn hafa gert. Ég vil einungis lýsa því yfir að ég fagna því að skattheimta hafi verið minnkuð og því að ríkið skyldi hafa komið inn í kjarasamninga með þessum hætti.
    Mönnum hefur orðið tíðrætt um eitt atriði sem ég vildi gera að umtalsefni og sem hefur verið mikið vandamál í þessu þjóðfélagi. Það eru þau tíðu gjaldþrot sem verið hafa og hvernig fólk hefur komist upp með það, eigendur þessara fyrirtækja, að stofna fyrirtæki á fyrirtæki ofan þar sem nýja fyrirtækið yfirtekur þá rekstur fyrra fyrirtækisins, og hafa þannig

í mörgum tilvikum komist hjá að borga opinber gjöld, fyrirtækin stundum einungis stofnuð til þess að lifa í nokkra mánuði, og fara síðan í gjaldþrot og sleppa við að greiða söluskatt, toll og launaskatt og fleiri opinber gjöld. Ég held að það hafi verið mikil mistök hjá þessari ríkisstjórn að fara ekki betur ofan í þessa þætti á þessu þingi og taka á þeim málum út af því að þarna er miklu stærra vandamál en flestir ætla. Maður hefur séð þetta í gegnum tíðina og sérstaklega núna þegar þessi mikla gjaldþrotahrina hefur verið að sömu eigendur fyrirtækja eru að kaupa sín eigin fyrirtæki og stofna ný hlutafélög. Ég verð að segja það að ég er svolítið svekktur yfir því að það skyldi bara vera hér einhver yfirlýsing um það að þetta eigi að gerast, en ekki tekið á þessu á raunhæfan hátt.
    Það segir hér í bréfi til Alþýðusambandsins, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin vinnur nú að mótun almennra reglna um veitingu atvinnuleyfa til að girða fyrir misnotkun, t.d. stofnun gervifyrirtækja til að komast hjá eðlilegum skyldum gagnvart launafólki og opinberum gjöldum.`` Ég tel þessa yfirlýsingu sem þarna kemur fram mikilsverða og hún sýnir það að ríkisstjórnin hefur verulegar áhyggjur af þessum málum þar sem í sjálfu sér þyrfti ekki að gera neina sérstaka lagabreytingu sem slíka. Það ætti bara að fylgjast miklu betur með þessu og ekki leyfa fyrirtækjum að safna upp skuldum í fleiri mánuði og jafnvel eitt ár. Menn þekkja mörg dæmi þess að fyrirtæki hafi ekki borgað söluskatt í ár eða lengur, hvað þá launaskatt eða önnur opinber gjöld. Og núna bætist það við að menn skila ekki staðgreiðslufé, en eitthvað virðist hæstv. fjmrh. vera að herða tökin á því.
    Það sem mér sýnist vera öðru fremur til góðs í þessu frv., fyrir utan það að þarna er um almennar aðgerðir að ræða, er það að þarna er einhver viðleitni til að efla íslenskan iðnað og þá sérstaklega ákveðnar greinar eins og húsgagnaiðnað og annan iðnað sem mjög illa hefur verið komið fyrir á síðustu árum. Og ég vona svo sannarlega að ekki verði staðar numið hér heldur haldið áfram á þeirri braut.
    Fleira var það ekki sem ég vildi segja um þetta mál, en þetta verður eflaust tekið fyrir til gagngerðrar endurskoðunar í fjh.- og viðskn. og þar á ég sæti eins og stendur og mun líta á þetta mjög jákvæðum augum.