Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 06. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég byrja með því að þakka þær ágætu ræður sem hér hafa verið fluttar og ekki síst þakka hv. sjálfstæðismönnum fyrir yfirgripsmiklar ræður og fluttar augljóslega af mikilli þekkingu á þessum málum.
    Ég vil fyrst koma að því sem hv. sjálfstæðismenn spurðu um hvað eftir annað og reyndar einnig hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir, um gengið og hvað, eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði, það verður látið síga mikið eða lítið. Mér er nú spurn, ætlast hv. þm. til þess að ég lýsi hér yfir gengisfellingu úr þessum ræðustól? Ég tók ítarlega fram að staða sjávarútvegsins yrði metin frá degi til dags, getum við sagt. Ég nefndi þá ýmsu þætti sem falla inn í það mat eins og bæði ytri aðstæður og innri aðstæður og gengi hinna ýmsu gjaldmiðla o.s.frv. Þetta er gert. Ríkisstjórnin hefur lagt drög að því að þetta verði gert jafnvel enn ítarlegar en áður hefur verið og ég sagði jafnframt áðan að í þeirri verðbólgu sem við erum í nú, þá mun þessi ríkisstjórn ekki falla í þá gryfju sem önnur ríkisstjórn, a.m.k. ein hefur fallið í, að festa gengið. Það er bókstaflega ekki hægt. Ég get því ekkert sagt meira um það hvort gengið verður látið síga mikið eða lítið. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram að það er engin sú kollsteypa fram undan að ástæða sé fyrir nokkurn að flýta sér að kaupa bílinn eins og stundum hefur verið. Menn geta treyst því fullkomlega. Það er ekkert slíkt fram undan.
    Hv. þm. hafa nokkuð rætt um það ákvæði hér í sem gerir ráð fyrir að lengja bótaskyldu Atvinnuleysistryggingasjóðs og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson lýsti yfir eindregnum stuðningi við það, en sagði hins vegar að þessi breyting núna boði að hér sé viðvarandi atvinnuleysi. Mér þótti þetta dálítið einkennilegt. Hvenær hefði þá mátt breyta þessu eða gera þessa breytingu eins og hv. þm. er hlynntur? Staðreyndin er sú að á einstöku stöðum um landið hefur orðið lengra atvinnuleysi en bótaskylt er og vegna erfiðleika í nokkrum sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa byrjað fyrir alllöngu og eins og kemur fram í þessari grein er heimilt að ákveða þetta staðbundið. Hér er sem sagt verið að setja undir þennan leka eða þessa erfiðleika og mér er tjáð að eins og nú er ástatt þá væri þetta afar lítill útgjaldaauki fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð.
    Hv. þm. hafa rætt um vörugjaldið og reyndar hefur hæstv. viðskrh. svarað því. Það var mat ríkisstjórnarinnar og samkomulag um það við aðila vinnumarkaðarins að það yrði fellt niður á þessum degi, 1. sept., og þótt eflaust sé það rétt hjá hv. þingmönnum að gott hefði verið að fella það niður fyrr vona ég nú að menn geti sæst á þetta. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það hefur reynst meira íþyngjandi en menn gerðu ráð fyrir og þess vegna hefur ríkisstjórnin valið að breyta því eins og hér er lagt til.
    Hv. þm. Halldór Blöndal ræddi um ýmsa þætti þar sem tekið er fram um samstarf við launþega á ýmsum sviðum og ég svaraði því úr stól mínum að góð vísa

yrði ekki of oft kveðin. Það er staðreyndin að ýmislegt sem þar hefur verið lofað er hafið. T.d. hefur verðlagsstjóra verið falið fyrir alllöngu að undirbúa þetta samstarf við verkalýðshreyfinguna og eftir því sem ég best veit er ekki langt í það að það geti hafist.
    Hv. þm. Halldór Blöndal fullyrti að ég hefði sagt að fyrirtæki leiki sér að því að verða gjaldþrota. Ég bið afsökunar á því ef ég hef sagt þetta. Það eru þá herfilegustu mistök því að að sjálfsögðu leikur sér enginn að því. Ég hygg að ég hafi sagt að við gjaldþrot leiki ýmsir sér að því að stofna ný fyrirtæki, hafa þau jafnvel tilbúin að því er manni er sagt, og tek ég undir hvert orð sem hv. þm. Guðmundur Ágústsson sagði um þetta atriði. Þetta hefur verið til ítarlegrar athugunar, bæði í fjmrn. og dómsmrn. og það er ýmislegt unnt að gera án þess að breyta lögum. Fyrirtæki sem í sumum tilfellum hafa tekið yfir atvinnurekstur gjaldþrota fyrirtækis á nokkrum mínútum þurfa í raun ýmis leyfi sem hið opinbera veitir og vitanlega er hægt að hafa þar betra aðhald en verið hefur. Hins vegar er þetta ekki einfalt mál því að nýtt fyrirtæki eða hlutafélag er sjálfstæð persóna að lögum og vitanlega þarf að gæta þess að stofnun fyrirtækja geti gengið, ef ég má orða það svo, eðlilega fyrir sig jafnframt.
    Verkafólk við landbúnaðarstörf, spurt var við hvað þar væri átt. Þetta er ábending frá Alþýðusambandi Íslands sem vekur athygli á því að víða getur orðið um litla atvinnu að ræða hjá þessu fólki. Það hefur starfað við landbúnað þar sem ekki mun vera greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð og því sjóðurinn ekki skyldur til að greiða þar atvinnuleysisbætur. Þess vegna féllst ríkisstjórnin á að kanna það mál, en það skal viðurkennt að á þessari stundu er það ekki kannað og við vitum ekki hve víðtækt það vandamál er, og vitanlega verða þar ekki lagðar neinar skyldur á Atvinnuleysistryggingasjóð nema með fullu samkomulagi og lagaheimildum. Og ýmislegt af því sem hér er nefnt er þess eðlis að lofað er að kanna það og það verður gert í samráði við aðila vinnumarkaðarins.
    Hv. þm. Guðmundur Ágústsson hugðist beina þeirri spurningu til fjmrh. hvernig staða ríkissjóðs væri og ég get reyndar upplýst það því það hefur nýlega komið fram að staða ríkissjóðs á þremur fyrstu mánuðum ársins er
töluvert betri en gert var ráð fyrir, munar þar um 800 millj. kr. sem er fyrst og fremst vegna þess að mikill kraftur hefur verið settur í að innheimta t.d. söluskatt, hann skilar sér betur en áður, þannig að þau útgjöld sem hér er gert ráð fyrir rúmast í raun innan þessa bata. Nú skal ég ekki segja hvernig framhaldið verður á árinu, ég þori ekki að spá í það, en þetta er út af fyrir sig góðs viti.
    Ég veit það að um þetta mál mætti ræða langtum, langtum lengur og ýmsar óhjákvæmilegar spurningar komu fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal eins og hann gjarnan segir og ekki er ég að efa það. Ég veit að í hv. nefnd er gert ráð fyrir að tala við mikinn fjölda

aðila að þessu máli og þá mun málið, vona ég, upplýsast mjög vel.