Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 08. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég sé að hæstv. forsrh. er ekki staddur hér. Það er frekar óþægilegt að ræða þessi mál og hafa hann ekki viðstaddan. ( Forseti: Má ég upplýsa hv. þm. um að hæstv. sjútvrh. er forsrh. vegna fjarveru Steingríms Hermannssonar.)
    Í sambandi við stöðu sjávarútvegsmála um þessar mundir liggur við að manni fari að verða orða fátt. Það er búið að ræða þau mál nokkrum sinnum hér í vetur og það virðist vera einhvern veginn að þetta mál sé orðið hálfpatt. Sífellt hallar undan fæti. Sama virðist vera þó að vilji allra sé til þess að koma á heilbrigðum rekstri í undirstöðuframleiðslufyrirtækjum landsmanna í útflutnings- og samkeppnisiðnaði. Það kemur allt fyrir ekki, það hallar sífellt meira undan fæti.
    Hér á hæstv. Alþingi kom fram fyrir stuttu í svokölluðum eldhúsdagsumræðum að hæstv. ráðherrar töluðu aðallega um að það væru ekki á stefnuskránni einhverjar gengiskollsteypur. Það væri gaman að fá nánari skilgreiningu á þessu orði ,,gengiskollsteypa``. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé til í orðabókum. En ég hef skilið það þannig alla tíð að það væri hlutverk stjórnvalda samkvæmt lögum um Seðlabankann og gengisskráningu að viðhalda jafnvægisástandi í utanríkisverslun, það væri fyrsta, annað, þriðja og fjórða skilyrðið í sambandi við gengisskráningu. Skrýtið er það ef menn tala síðan um að það séu ekki á stefnuskránni einhverjar gengiskollsteypur.
    En í sambandi við þetta dettur mér í hug að það kemur fram í Íslandssögunni að Skúli fógeti hafi starfað hjá dönskum einokunarkaupmanni í búð á Húsavík og kaupmaðurinn hrópaði jafnan til hans ,,Mældu rétt, strákur!`` og þá átti kaupmaður við að það skyldi hallað á kaupendur. Mér dettur í hug hvort fyrirmæli framkvæmdarvaldsins til Seðlabankans séu eitthvað í þessum dúr, ,,Mældu rétt, strákur!``
    Gengisskráning er afgangsstærð þegar kemur að því að gera upp viðskiptahalla þjóðarbúsins eins og ég hef litið á það og er óskiljanlegt og raunverulega hálfgerð hrollvekja að eigur undirstöðuframleiðslufyrirtækja sem standa undir verðmætasköpun í þessu þjóðfélagi skuli vera gerðar upptækar í gegnum ranga gengisskráningu.
    Viðskiptahallinn var jákvæður, það var ekki viðskiptahalli, heldur afgangur í viðskiptum við útlönd 1986 upp á 554 millj. Þá var líka allt í lagi í atvinnulífinu og gekk til betri áttar. Síðan var 7 milljarða viðskiptahalli, rúmlega, 1987 og 9,5 árið 1988 og það er áætlað að viðskiptahallinn í ár verði 9 milljarðar.
    Þegar menn tala síðan um gengiskollsteypur eiga menn væntanlega við það að þeir ætli ekki að viðhalda jafnvægisástandi í utanríkisviðskiptum. Ég verð að segja eins og er í sambandi við þessi mál að manni er að verða það alveg hreint óskiljanlegt hvert er verið að stefna, gjörsamlega óskiljanlegt. Raunverulega er ekki hægt að ætla nokkrum manni að hafa hugmynd um hvert þeir eru að fara.
    Ég hafði lagt fram tillögu á Alþingi sem ekki hefur fengist tekin á dagskrá enn þá, lagði hana fram í

vetur, og þar átti að skipa nefnd, ef tillagan mundi ná fram að ganga, til að ræða þrjár leiðir í sambandi við gengisskráningu. Það er í fyrsta lagi að gera Seðlabanka Íslands að sjálfstæðri stofnun, í öðru lagi að láta framboð og eftirspurn ráða verðgildi gjaldmiðilsins og í þriðja lagi að tengja gjaldmiðilinn við stærra myntsvæði. Ég vil taka fram að þetta eru ekki hugmyndir að neinum patentlausnum. Þetta eru fyrst og fremst hugmyndir til að leita að betri leiðum en þeim sem farnar eru í dag, að eigur framleiðslufyrirtækjanna í landinu séu gerðar upptækar í gegnum ranga gengisskráningu.
    Markmiðið með þessum tillöguflutningi hjá mér var að reyna að finna leið til að gera íslenska gjaldmiðilinn að alþjóðlega viðurkenndri mynt sem ég tel vera algjört grundvallaratriði ef alls konar spákaupmennsku á að stöðva hér á Íslandi.
    Í fyrsta lagi vil ég nefna að spákaupmennska grassérar hér vegna þess að raunverulega trúa ekki Íslendingar sjálfir á sinn gjaldmiðil. Það leiðir síðan af sér spákaupmennsku. Við vitum að erlendir aðilar hafa enga trú á myntinni. Í sambandi við framkvæmdir flýta sér allir að öllu. Það þekkja allir bölvað stressið alls staðar. Og það er ein tegund af spákaupmennsku.
    Verkalýðsforystan heimtar ríflegar kauphækkanir. Ég segi ríflegar kauphækkanir vegna þess að það er líka spákaupmennska vegna þess að menn vita að það er allt að hækka og verðlag hækkar sífellt eins og verðbólgumælingar bera vitni um.
    Síðan eru það þessar blessaðar offjárfestingar á öllum sviðum þjóðlífsins. Það er ein tegund af spákaupmennsku vegna þess að menn hafa ekki trú á myntkerfi landsins. Síðan veldur þetta allt saman gífurlegum vaxtahækkunum og verðbólgu og þenslu.
    Ég tel að við eigum að ræða þetta út frá því að reyna að finna leið til að gera íslensku krónuna að alþjóðlega viðurkenndri mynt. Af hverju skyldi þjóð
með stórkostlegar auðlindir eins og Ísland ekki geta átt alþjóðlega viðurkennda mynt? Það eru nákvæmlega engin rök fyrir því að við getum ekki haft sterka mynt. Þetta er bara spurning um nákvæmni í hagstjórn og hagstjórn af sömu gæðum og í flestum vestrænum ríkjum, frjálsum ríkjum.
    Ég held að það sé kjarni málsins í sambandi við framtíðarlausn á rekstrarvanda fiskvinnslufyrirtækja að þau fái alvörupeninga í skiptum fyrir alvörupeninga en ekki ónýta peninga í skiptum fyrir alvörupeninga.
    Hins vegar virðist vera voðalega þungt í sambandi við umræður um þetta að fá þetta rætt því að kerfið á Íslandi virðist ætla að leyfa sér að vaða í höfuðstóla þessara fyrirtækja. Og hver á að sitja fyrir fjármagni á fjármagnsmörkuðum? Á atvinnulífið sem skapar verðmætin að sitja fyrir fjármagninu? Á ríkissjóður að sitja fyrir fjármagninu? Á húsnæðismálakerfið að sitja fyrir fjármagninu? Í hvaða forgangsröð á þetta að vera? Á fyrst að eyða peningunum og síðan að skammta peninga í Húsnæðisstofnun? Síðan er ekki hægt að fá lán t.d. til fiskeldis til að framleiða verðmæti. Það er fullt af nýjum fiskeldisfyrirtækjum

í landinu sem áttu að leysa heilmikinn vanda. Þau fá ekki rekstrarfé. Síðan setja menn ráðherradóm að veði til að geta afgreitt marga milljarða í húsnæðislánakerfið sem er svo sem ósköp gott og blessað. En hvað með þá sem framleiða verðmætin?
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni.