Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 08. maí 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki taka langan tíma í þessari umræðu, en kem hingað til að rifja upp að ég hafði þegar þessi skýrsla var tekin til umræðu fyrir allmörgum vikum lagt fram nokkrar spurningar til hæstv. forsrh. Hann er ekki hér við heldur staðgengill hans, hæstv. sjútvrh., sem auðvitað er málið afar skylt. En ég hlýt að vekja á því athygli hversu erfitt það er að slíta sundur svona umræðu þannig að fyrirspurnir sem lagðar eru fram í umræðunni og henni síðan frestað vilja falla í gleymsku og verður ekki svarað nema þær séu þá endurteknar.
    Sú skýrsla sem hér er á dagskrá var, eins og fram kom í fyrri hluta umræðunnar, auðvitað góðra gjalda verð og birtir margar upplýsingar um stöðu fiskvinnslunnar í landinu eins og hún var, þegar skýrslan var samin fyrir mörgum mánuðum. Þá var talið, ef ég man rétt, að fiskvinnslan í landinu væri rekin með halla sem væri að meðaltali um 3,1%. Síðan hafa margir hlutir gerst sem hafa áhrif á stöðu þessa grundvallaratvinnuvegar þjóðarinnar, þar á meðal samningar um nýtt fiskverð og að sumu leyti samningar um kaup og kjör að öðru leyti sem allt hefur áhrif á stöðu fiskvinnslunnar, auk annarra aðstæðna í efnahagskerfinu sem ástæða væri til að skýra.
    Ég kem því aðallega upp til að rifja upp þær meginspurningar sem ég lagði fyrir hæstv. forsrh. sem eru mjög eðlilegar og ástæða til þess að svara og beini því til staðgengils hans, hæstv. sjútvrh., en það er auðvitað í fyrsta lagi: Hvernig er staða fiskvinnslunnar nú? Og það má þá svara því hvernig hún er að meðaltali eins og skýrslan gerði á sínum tíma. Nú höfum við heyrt að forstöðumenn sambandsfrystihúsa segja fiskvinnsluna í heild gjaldþrota. Það eru vitaskuld alvarleg tíðindi ef þessi undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar er gjaldþrota í það heila tekið. Við höfum horft upp á það að hvert fyrirtækið af öðru er í hrikalegum erfiðleikum og sum hafa verið að fara fram af brúninni, önnur á leiðinni þangað, en það hefur ekki komið fram jafnafdráttarlaus yfirlýsing um stöðu þessara mála og sú, sem gefin var af forstöðumanni sjávarafurðadeildar SÍS, að frystingin í heild væri gjaldþrota. Hæstv. sjútvrh. svaraði því á þann veg í ræðu sem sjónvarpað var frá með nokkrum formála að hann sæi ekki önnur ráð en ganga út og hengja sig. Það er sannarlega alvarleg staða sem þessi mál eru þá í. Ég hlýt því að ítreka þá fyrirspurn sem ég beindi í fyrri hluta þessarar umræðu til hæstv. forsrh. og beina því til hæstv. sjútvrh. sem að sjálfsögðu er ekki síður inni í þessum málum: Hvernig er staða fiskvinnslunnar nú? Og verður að ganga eftir að því sé svarað.
    Enn fremur og í öðru lagi: Hver eru áform hæstv. ríkisstjórnar til að bæta þessa stöðu? Allir sjá að það verður að gerast ef þessi atvinnuvegur á ekki að hrynja og ef hann hrynur þá stenst ekki þetta þjóðfélag. Þó að margoft hafi verið spurt áður ítreka ég spurningar mínar: Hverjar eru fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar um aðgerðir í þessum efnum til að bæta

stöðu fiskvinnslunnar og koma henni á rekstrarhæfan grundvöll?
    Þetta voru þær meginspurningar sem ég lagði fyrir hæstv. forsrh. fyrir allmörgum vikum þegar þetta mál kom þá á dagskrá.
    Enn fremur, sem var nokkuð veigamikill kafli í mínu máli þá, fann ég að því mjög sterklega hvernig framkvæmd var ákveðin á svokallaðri niðurgreiðslu á raforku til fiskvinnslufyrirtækja. Ég beindi því til hæstv. forsrh., sem ég trúi að hafi ekki verið mikið inni í því máli, að það væri ástæða til að taka það mál upp því að framkvæmdin sem sett er upp samkvæmt reglum sem gerðar eru í iðnrn. er bæði flókin og ranglát. Ég skal ekki, hæstv. forseti, taka langan tíma til að rifja það upp hvers vegna það sé flókið og hvers vegna það sé ranglátt, aðeins segja það til þess að skýra þá skoðun mína að það sé ranglátt að takmarkanir á þessari niðurgreiðslu eru m.a. eftir stærð fiskvinnslufyrirtækja og eftir raforkunotkun þeirra þannig að þau þurfa að eyða tilteknu magni af raforku til að njóta niðurgreiðslunnar. Smærri fyrirtækin og þau sem leitast við að haga starfsemi sinni þannig að það sé ekki mikil raforkunotkun fá ekkert. Síðan byrja þau að fá eitthvað lítils háttar og fer svo smávaxandi með mjög flóknum hætti. Það skorti þó ekki að það væru leiðbeiningar til iðnrn. um hvernig þessu mætti koma fyrir þannig að sæmilega greitt væri aðgöngu í framkvæmd og með miklu réttlátari hætti en niðurstaðan varð. Þessu fann ég mjög sterklega að við hæstv. forsrh. og bað um að þetta mál væri tekið til skoðunar að nýju og á því er full þörf. Þessu beini ég enn til hæstv. sjútvrh. sem auðvitað er málið ekki síður skylt en hæstv. forsrh.
    Ég skal svo, hæstv. forseti, ekki lengja mál mitt þó að hér sé um mál að ræða sem væri ærið umtalsefni, ekki á einum fundi Alþingis heldur svo dögum skipti, því að hér er um að ræða hið alvarlegasta mál sem þessi þjóð á við að búa, að undirstöðuatvinnuvegir hennar eru lýstir gjaldþrota í það heila tekið eins og hér hefur verið sagt um fiskvinnsluna. Ef undirstöðuatvinnuvegirnir geta ekki starfað munu þeir vitaskuld hrynja og þá mun afkoma þessarar þjóðar hrynja á eftir. Þetta þarf ekki að brýna fyrir hæstv. sjútvrh., en ég beini þessu til hans sem ég áður beindi til hæstv. forsrh. og vænti svara.