Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 08. maí 1989

     Valdimar Indriðason:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð í þessu máli núna þó að það hefði verið full þörf á, en ég get ekki látið hjá líða að fjalla örlítið um þann stóra vanda sem er ríkjandi og hefur verið ríkjandi í íslenskum sjávarútvegi. Það vill svo til að ég var á hv. Alþingi í fjögur ár og var þá í fríi frá þessum störfum. Sl. tvö ár eða tæplega það hef ég verið í þessum störfum áfram og þess vegna kem ég beint af því sviði þar sem þessi mál brenna hvað heitast á hverjum degi og tel mig þar nokkuð kunnugan.
    Ég skal taka fram strax að ég veit að hæstv. sjútvrh. gerir sér ljóst hvernig mál standa þó að það vefjist fyrir honum eins og flestum öðrum að finna lausnir þar á. En eitt vil ég ítreka hér í þingsal, að það eru ekki ýkjur hjá þeim mönnum sem stjórna sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi í dag að þar er ástandið slæmt. Ég gæti vafalaust fundið eitt og eitt fyrirtæki, eins og oft vill verða, sem ber höfuðið eitthvað hærra en hin, en ástandið er þannig að menn, og ég óttast það mjög, sem þessa atvinnugrein stunda eru að gefast upp smátt og smátt. Það er þetta sem ég óttast mest. Þannig eru stoðirnar dregnar undan því atvinnulífi sem hefur verið burðarásinn undir þessu þjóðfélagi.
    Ég ætla ekki að nefna úrlausnir hér vegna þess að ég er ekki með þær á takteinum. Þær verða að vera margvíslegar. En á meðan við gerum ekki annað en hækka útlagðan kostnað á þessum fyrirtækjum í stöðvuðum eða lækkandi markaði fyrir vöruna getur ekkert annað skeð en eigið fé brenni upp. Það er brunnið upp hjá langflestum fyrirtækjum. Þetta sjáum við best á þeim aðilum sem sóttu um aðstoð hjá þeim sjóðum sem stofnaðir voru hér í haust til að koma með skammtímalausn. Ég ætla ekki að gagnrýna þá ráðstöfun. Hún hefur komið mörgum til góða. En því miður: Þar er aðeins um gálgafrest að ræða. Þau lán sem þar eru eru afborgunarlaus fyrstu tvö árin. Hvað ætla menn að gera þá næstu tvö árin til að byggja upp eiginfjárhaginn þannig að það verði staðið í skilum? Ég sé ekki að það blasi við enn þá.
    Það er mjög spáð í það heyri ég núna af stjórnvöldum að við lifum í voninni um að erlendir markaðir muni hækka og lagast. Óskandi að svo verði. En lítil merki sjást þess enn þá að svo sé. En nú hafa komið viðbótarpakkar síðustu mánuðina og síðustu daga í sambandi við þennan rekstur. Það má nefna launin sem koma upp núna. Ég ætla ekki að gagnrýna að þau séu of há, en hvar skal taka fyrir þeim? Þá eru olíuverðshækkanir sem dunið hafa yfir og það eru fiskverðshækkanir. Allt kemur þetta inn. Það kemur ekkert meira fyrir vöruna. Það getur ekkert annað skeð en að eiginfjármagnið brennur áfram og það er þegar horfið hjá mörgum aðilum. Hvað er þá fram undan? Það er þetta sem ég vil undirstrika til þess að hv. þingheimur og stjórnvöld geri sér ljóst hvað vandinn er stór.
    Mér finnst hafa farið einkennilega lítið fyrir umræðu um þessi vandamál sjávarútvegsins á hv. Alþingi hér í vetur, það litla sem ég hef fylgst með

því. Ég hef ekki séð mikið um það. Við eigum ekki að taka þessi mál upp til þess að rífast um þau heldur sameinast um að finna lausn á þessum málum. Bráðabirgðalausnir duga ekki. Það verður að takast á við vandann og reyna að leysa hann, en við gerum það ekki í einu lagi heldur sé stefnt að einhverju ákveðnu markmiði í þessum efnum en ekki eitthvað gert frá degi til dags og allir lafhræddir um að það sé hver síðastur í þessum efnum. Þetta er undirstaðan, það þarf ekki að undirstrika það við hv. þingheim, undir búsetu í landinu. Í langflestum byggðarlögum landsins er það sjávarútvegurinn sem er eina undirstaðan í atvinnu og ef þetta rennur algerlega út í sandinn, hvað skeður þá? Þá er ekki gott að eiga við málin á eftir. Ég heiti á ráðamenn þjóðarinnar að takast alvarlega á við þetta og koma þessum málum í betri farveg en er í dag.