Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 08. maí 1989

     Þórður Skúlason:
    Virðulegi forseti. Mig langar til að koma með örstutt innlegg í þessa umræðu þó að ég geri mér grein fyrir því að hér sé um framhaldsumræðu að ræða og ég hafi ekki átt þess kost að hlýða á þær umræður em hér hafa farið fram áður um þetta mál.
    En mig langar til að benda á örfá atriði í þessu sambandi, t.d. að á sl. ári barst meiri afli að landi í tonnum talið en áður eru dæmi um. Jafnframt var það þannig á sl. ári að þá hélst einnig áfram hátt verð á útflutningsafurðum og hafa breytingar frá metárunum 1986 og 1987 verið mjög óverulegar. Á sl. ári var olíuverð jafnframt í lágmarki. Viðskiptakjör þjóðarinnar voru þannig í heildina tekið hagstæð á síðasta ári, sérstaklega kannski hvað varðar þá undirstöðuatvinnugrein sem við erum að ræða hér um, sjávarútveginn. Samt sem áður liggur fyrir skýrsla, sem nú er til umræðu, um vanda sjávarútvegsins og það kemur fram í þessari skýrslu að hagur þessara greina er langt frá því að vera nógu góður.
    Auðvitað liggja til þess margar ástæður hvernig komið er í þessari grein og er ekki hægt að kenna neinu einu einstöku atriði um og er auðvitað misjafnt milli byggðarlaga hvernig sjávarútvegurinn stendur. En ég vil þó nefna eitt atriði sérstaklega sem ég held að eigi stóran þátt í því hvernig komið er fyrir þessari grein og mörgum öðrum atvinnurekstri í landinu. Það er hinn gífurlega hái fjármagnskostnaður sem er að sliga þennan atvinnuveg eins og marga aðra.
    Nú vitum við að það hefur verið eitt af markmiðum þessarar ríkisstjórnar að ná þessum fjármagnskostnaði niður og að því er unnið og það hefur náðst lítils háttar árangur í því efni, en langt frá því nógu mikill. Það er raunar þannig að í gegnum þennan háa fjármagnskostnað hefur gífurleg fjármagnstilfærsla átt sér stað í landinu frá þessum undirstöðuatvinnugreinum til sjóða og peningastofnana. Það lætur nærri að í sumum byggðarlögum séu það sjóðir og peningastofnanir sem hafi nú orðið eignarhald á nær öllum atvinnutækjum og fasteignum atvinnurekstrarins í gegnum skuldsetningu þessara fyrirtækja. Það er ekkert eigiðfé orðið eftir í fyrirtækjunum sjálfum. Það er afleiðing af þeirri vaxtastefnu sem við höfum búið við að undanförnu. En það er viss viðleitni til að færa þetta til betri vegar.
    Sömuleiðis hefur verið komið upp Atvinnutryggingarsjóði sem hefur þegar leyst vanda líklega helmings þeirra fyrirtækja sem til hans hafa leitað. En það eru eftir sem áður allmörg fyrirtæki víða um landið sem enn eru í miklum erfiðleikum og sjá ekki fram úr sínum vanda, eru að vísu að bíða eftir fyrirgreiðslu Hlutafjársjóðs sem er ætlað það hlutverk að snúa við þeirri fjármunatilfærslu sem hefur átt sér stað og færa fjármuni aftur til baka til fyrirtækjanna og er vel ef það tekst.
    Síðan langar mig aðeins til að nefna í þessu sambandi hvernig þessi vandi er flesta daga eða alloft a.m.k. á borðum sveitarstjórnanna vítt í kringum landið. Það gerist með þeim hætti að þessi fyrirtæki

verða gjaldþrota og sveitarfélögin verða þá fyrir skakkaföllum af þeim sökum. Það gerist með því að fyrirtækin hafa safnað upp skuldum hjá sveitarsjóðunum sem hafa leitt til þess að sveitarfélögin hafa ekki getað sinnt sínu þjónustuhlutverki eins vel og kröfur eru uppi um. Og það gerist með því að sveitarfélögin eru gjarnan knúin til að skuldbreyta skuldum þessara fyrirtækja við sveitarsjóðina og þau eru jafnvel einnig knúin til þess að fella skuldirnar niður og tapa þannig tekjum. Þannig get ég sagt t.d. frá því hér að mitt sveitarfélag á útistandandi núna hjá atvinnurekstrinum sem nemur um 40% af árstekjum sveitarsjóðs. Þar er að vísu ekki bara um sveitargjöld að ræða heldur ýmis þjónustugjöld önnur, eins og vatnsskatt og hafnargjöld og fleira þess háttar. En þetta er tala af þeirri stærðargráðu að er algerlega óviðunandi í einu sveitarfélagi.
    Síðan langar mig að lokum aðeins að ítreka að sá vandi sem þessi fyrirtæki eru í birtist okkur fyrst og fremst sem byggðavandi vegna þess að þessi vandi er nánast ekki annars staðar til staðar en úti á landsbyggðinni og í dreifbýlinu og ef það tækist að rétta við stöðu þessarar undirstöðuatvinnugreinar væri staða landsbyggðarinnar allt önnur en hún er.