Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 08. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Ég skal, virðulegur forseti, ekki verða langorður um þetta mál. Hér er á ferðinni skýrsla sem um var beðið fyrir mörgum mánuðum og reyndar hefur legið fyrir þinginu en ekki tekist að ræða fyllilega fyrr en nú. Það er full ástæða til að ræða fjölmörg atriði sem upp hafa komið í umræðunni, en það gefst tóm til þess þegar til Nd. kemur svokallaður bandormur sem nú er til meðferðar í Ed. og er afleiðing kjarasamninga sem nýlega voru gerðir.
    Mér finnst athygli vert, sem fram hefur komið í þessari umræðu, að hæstv. sjútvrh., sá sem talaði fyrir nokkrum dögum og sagði að fiskvinnslan og sjávarútvegurinn hefðu ekkert þol til þess að greiða meira í laun en gert var fyrir kjarasamninga, stendur upp nú og bendir á að í bréfi hæstv. forsrh. til VMSÍ og VSÍ sé tekið fram að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að samkeppnisstaða útflutningsgreina verði viðunandi á samningstímanum og bætir við: Það verður ekki viðunandi ef um tap er að ræða.
    Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því að ef og þegar kjarasamningarnir sem gerðir hafa verið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar koma til framkvæmda, því að auðvitað hlutu aðilar á almenna vinnumarkaðinum að semja í hátt við þann samning sem gerður var á milli ríkisvaldsins og opinberra starfsmanna, þá mun taprekstur aukast nema verðhækkanir komi til skjalanna. Hæstv. ráðherra bað menn um að binda ekki miklar vonir við slíkar verðhækkanir, en það er þvert á það sem hæstv. forsrh. hefur sýknt og heilagt gert í sínum málflutningi. Mér fannst athygli vert að þetta skyldi koma fram hjá hæstv. ráðherra og skil hann svo að hann telji að hreyfa verði til verð íslenska gjaldmiðilsins miðað við þær staðreyndir sem fyrir liggja. Það verður ekki skilið nema á einn veg og ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að sýna þá hreinskilni í þessum umræðum.
    Það er annað atriði, virðulegur forseti, sem varð til þess að ég hlaut að koma upp og það var það sem sagt var um fjármagnskostnaðinn, en aftur og aftur er því haldið fram með réttu að fjármagnskostnaður sé hár hér á landi án þess að menn segi nákvæmlega hvað þeir eiga við. Ef maður spyr viðkomandi aðila hvað sé fjármagnskostnaður fær maður oftast svörin: Það eru vextir og hæð á vöxtum og vissulega eru vextir háir hér á landi, en í mjög mörgum tilvikum er hægt að lækka vexti með opinberum aðgerðum þannig að stjórnvöld geta haft veruleg áhrif á vaxtahæðina á hverjum tíma. En málið er ekki svona einfalt því að fjármagnskostnaður er ekki bara vextir. Verðbætur eru auðvitað ekki fjármagnskostnaður. Verðbætur eru aðeins verðbólgumæling, viðurkenning á því að bæta þurfi mönnum það upp sem verðbólgunni nemur. En fjármagnskostnaðurinn hjá fyrirtækjum er ekki eingöngu vextir heldur líka hve mikið þarf að borga í vexti og þá hefur það grundvallarþýðingu hve mikið fyrirtæki þurfa að taka að láni. Fyrirtæki sem er vel rekið, þar sem eigið fé er mikið og þarf ekki á lánum að halda, er algerlega ónæmt fyrir því hvort vextirnir eru 10% eða 20% ofan á verðbólgu. Þessu verða

menn að átta sig á og þetta finnst mér eins og margir hv. þm. skilji ekki því að þeir koma upp og segja að fjármagnskostnaðurinn sé svo mikill að hann sé að drepa fyrirtækin nema menn segi til viðbótar hvernig fjármagnskostnaðurinn er til kominn. Hann er m.a. til kominn vegna þess að fyrirtækin hafa verið neydd til að tapa. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki viðurkennt að það þurfi að breyta rekstrarskilyrðunum og einustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru þær að breyta skuldum í nýjar skuldir. Það lækkar auðvitað árlegan fjármagnskostnað, en það er vonlaust að beita eingöngu þessum aðferðum nema rekstrarskilyrðin séu bætt jafnframt. (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki frammíkallið. ( GuðnÁ: Um hvað snýst skýrslan?) Ég vona að einhver geti hjálpað hv. þm. að finna það út, en ég tek þátt í umræðum til að fjalla um það sem hefur komið fram í þeim. Ég hélt að hv. þm. væri læs, en nú kemur í ljós að hv. þm. er hvorki læs né hefur fulla heyrn ef hann hefur ekki fylgst með í þessum umræðum. ( ÓÞÞ: 1998 eða 1989.) Þarna hefur hv. þm. fengið mikla hjálp frá flokksbróður sínum og vonast ég til þess að sú hjálp dugi hounum í þessu máli. ( ÓÞÞ: Það kemur í ljós að hv. ræðumaður veit ekki hvert af þremur ártölunum passar.) Ég held að hv. frammíkallandi hafi ekki hugmynd um hvað hann er að segja. Það kemur í ljós að hann getur ekki einu sinni lesið rétt úr tölustöfum.
    Virðulegur forseti. Ég var að lýsa þessu vegna þess að mér finnst hæstv. ríkisstjórn ekki hafa skilning á þessu máli né sumir þingmenn. Og eitt af því sem ég held að við gætum gert er að finna aðferðir til að auka eiginfjárhlutfallið í fyrirtækjunum og tillögur þess efnis liggja fyrir þessu þingi. Af því að ég veit að tíminn er skammur og ég hef ekki mikinn tíma hvet ég hæstv. ráðherra til að kanna það í sínum herbúðum, ekki síst af því að ég ber mikið traust til hans og held kannski að þessa dagana sé eitthvað hægt að gera af viti í landinu af sérstökum ástæðum sem ég hirði ekki um að nefna hér, en daginn í dag og næstu 2--3 daga sé hugsanlega eitthvað hægt að gera af viti í þessum málum því að þessa stundina eru við stjórn menn sem hafa þó a.m.k. þekkingu á þessum málefnum þjóðarinnar, að kanna hvort ekki sé hægt nú að nota tækifærið til að breyta til að mynda skattalöggjöf og löggjöf sem varðar hlutafé og fleira í slíkum málum til að koma til móts við fyrirtæki sem þurfa
á auknu eiginfjármagni að halda. Eins veit ég að hæstv. ráðherra, fyrrv. formaður bankaráðs Seðlabankans, hefur líka skilning á því hvernig laga má rekstrargrundvöll fyrirtækjanna. Ég hvet þess vegna hæstv. ráðherra nú þegar hann hefur tækifæri til, miklu betra en ella, að láta nú sína skynsemi ráða en fara ekki að ráðum annarra manna sem ekki hafa vit á þessum málum í sama mæli og hæstv. ráðherra.