Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að óska eftir utandagskrárumræðum um þetta mál. Ég vek athygli á því að hinn 18. mars 1987 var samþykkt hér á hinu háa Alþingi þál., en flm. þessarar þáltill. voru þrír þingmenn Sjálfstfl., Gunnar G. Schram, Pétur Sigurðsson og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jósson. Ályktunartillögunni var lítils háttar breytt, en var samþykkt svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að hvetja til þess að efnt verði til ráðstefnu hér á landi um varnir gegn mengun við Ísland og annars staðar í Norðaustur-Atlantshafi þar sem sérstaklega verði fjallað um þá hættu sem fiskstofnum og mannvist á þessu svæði er búin vegna mengunar frá geislavirkum efnum. Felur Alþingi ríkisstjórninni að vinna að framgangi málsins.``
    Í greinargerð með þáltill. þeirra þremenninga er síðan vitnað til skýrslu, einkum og sér í lagi um Dounreay í Skotlandi, og því lýst hver hætta sé á hafsvæðunum í kringum Ísland af efnum sem koma m.a. frá landstöðvum, en einnig vegna úrgangs sem losaður er á þessu svæði.
    Í þessu sambandi, virðulegur forseti, tel ég fyllstu ástæðu til að rifja upp að á sínum tíma beitti Matthías Bjarnason, þá siglingamálaráðherra, sér fyrir því á þingi í Cardiff, þar sem fjallað var um Parísarsáttmálann og þar sem þær þjóðir sem eru aðilar að sáttmálanum hittust, að íslenska sendinefndin flytti tillögu um reglur sem bönnuðu að landstöðvar losuðu geislavirkan úrgang á þetta hafsvæði, en um það snýst þetta mál ekki síst. Aðrir ráðherrar hafa fylgt þessu fordæmi, bæði á alþjóðlegum vettvangi og ekki síst innan vébanda Norðurlandaráðs, og skal ég ekki hafa mörg orð um það, en sá sem hér stendur til að mynda átti um þetta drjúgar viðræður við orkumálaráðherra Bretlands á sínum tíma, einkum vegna Dounreay.
    Ég vek athygli á því að ekkert hefur heyrst frá stjórnvöldum um undirbúning þeirrar ráðstefnu sem minnst er á í þál. Alþingis og ég vil hvetja hæstv. ríkisstjórn og þá væntanlega þá ráðherra sem um þetta mál fjalla. Á þeim tíma var forsrh. Steingrímur Hermannsson hæstv. forsrh. Hann varð síðar utanrrh. þannig að ef málið hefur farið þangað hlýtur það mál að hafa fylgt honum. Ég hef ekki getað fengið upplýsingar um það hvar á vegi þetta mál er statt, en ég hvet hæstv. ríkisstjórn eindregið til að fylgja eftir þál. hins háa Alþingis og vil að lokum þakka fyrir að það skuli vera vakin athygli á þessu máli í þessari umræðu.