Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hve alvarlegt er það mál sem hv. 3. þm. Norðurl. e. Árni Gunnarsson hefur nú vakið athygli á með því að kveðja sér hljóðs utan dagskrár og þakka ég honum fyrir að hafa gert það hér. Vissulega hafa margir haft áhyggjur af mengun sjávar og þeim fjölgar sem betur fer ört sem gera sér grein fyrir að sjórinn tekur ekki við mengun og eyðir henni eins og allt of margir hafa haldið og trúað til þessa og kannast flestir við að ,,lengi tekur sjórinn við`` sem hefur löngum verið haft á orði.
    Rannsóknir á mengun sjávar hafa verið mjög takmarkaðar hér við land fram til þessa og er grundvallaratriðið að við gerum átak í þessum málum nú þegar. Þótt rannsóknir hafi verið af skornum skammti er þó ljóst að andvaraleysið hefur verið of mikið í þessum málum.
    Díoxíðmengun, sem hér hefur aðeins verið drepið á, getur m.a. stafað af bræðslu plastefna og vil ég benda á í því sambandi að víða á landinu er sorpeyðingu mjög ábótavant. Má minna á ástandið í Hnífsdal í þessu sambandi þar sem sorpbrennslan þar er rekin án starfsleyfis og stafar af henni mjög mikil mengun.
    Kvikasilfursmengun er einnig áhyggjuefni og hafa heyrst hrikalegar tölur um þess konar mengun í fiskum hér við land, sérstaklega þeim sem verða gamlir eins og t.d. lúða. Tölur um kvikasilfur í gömlum lúðum eru ógnvekjandi.
    Mengun hér við land er vissulega töluverð, en við vitum ekki nægilega mikið um hversu alvarlegt ástandið er orðið. Hreinn sjór og ómengaður fiskur hefur verið talinn okkar aðalsmerki og er mikilvægt að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að það geti verið staðreynd.
    Ég vil í þessu sambandi benda á að nú eru rannsóknarmenn sem sjá um mengunarmælingar m.a. í hafinu í verkfalli til að krefjast hærri launa fyrir störf sín. Vegna þessarar deilu eru mörg rannsóknarverkefni í hættu. Mikilvægi rannsókna í huga stjórnvalda birtist m.a. í því hve lítils virði þeir telja þessi störf vera þegar á að ákveða hvaða laun skulu greidd fyrir þau. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er mikil í þessu máli.
    Sá ruglingur sem á sér stað vegna þess hve mörg ráðuneyti fara með mengunarmál mundi leysast ef sérstakt ráðuneyti umhverfismála sæi um mengunarmálin bæði í sjó og á landi því að auðvitað tengist þetta allt saman. Ég skora á ríkisstjórnina að taka þessi mál föstum tökum nú þegar.