Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það þarf ekki að koma neinum á óvart þó að það komi fram við mælingar og athuganir að mengun er í sjónum við Ísland og hún endurspeglast í þeim lífverum sem í sjónum lifa og ekki síst í þeim sem standa ofarlega, eins og kallað er, í fæðukeðjunni, sjávarspendýrin þar í efsta þrepi. Ástand í þeirra líkama er skýr vísbending um mengun efna sem ekki brotna niður í náttúrunni.
    Hér þarf að bregðast við. Og hvað getum við gert? Jú, við getum leitast við að draga úr mengun sem kemur frá landi og í sjóinn og við þurfum að ýta á eftir á alþjóðavettvangi hvarvetna til að styrkja alþjóðlegar samþykktir og knýja fram alþjóðlegar samþykktir til að draga úr mengun sjávar, auðvitað því nær sem þessi mengun er okkur. En þetta er alheimsvandamál í eðli sínu og mengunin flyst með hafstraumunum frá Mexíkóflóa og Bandaríkjunum, en einnig frá Evrópu eins og komið hefur fram í sambandi við geislavirk efni.
    Á vettvangi Norðurlandaráðs hafa þessi mál verið mikið rædd og á aukaþingi Norðurlandaráðs í Helsingör í nóvember sl. var gerð sérstök samþykkt, var samþykkt áætlun um varnir gegn mengun sjávar. Það er raunar hv. 13. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir sem flutti það mál inn á vettvang Norðurlandaráðs sem leiddi til þessarar samþykktar. Síðan er ákvörðun um að þessi áætlun verði endurskoðuð fyrir næsta þing Norðurlandaráðs sem haldið verður hér á komandi vetri og það er verðugt verkefni einmitt fyrir okkur Íslendinga að taka á öllum þeim þáttum sem að okkur snúa og varða mengun sjávarins í tengslum við þá endurskoðun á þessari áætlun sem ljósin munu beinast að á næsta þingi Norðurlandaráðs.
    Síðan er það meðferð mála hér heima fyrir. Mér er kunnugt um að hæstv. samgrh. hefur haft í undirbúningi hertar aðgerðir í sambandi við mengun sjávar sem heyrir undir hans ráðuneyti. En það þarf að taka samhæft á þessu í stjórnsýslunni og þess vegna þurfum við að tryggja að koma þeim málum í skaplegt horf áður en Alþingi lýkur með samþykkt frv. um sérstakt umhverfisráðuneyti til að sjá um meðferð þessara mála.