Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Baráttan fyrir verndun lífríkis hafsins er hin nýja landhelgisbarátta okkar Íslendinga. Umbætur byrja heima, segja menn gjarnan, og það út af fyrir sig er ánægjulegt að í stjórnartíma þessarar ríkisstjórnar hefur e.t.v. meira verið aðhafst á þessu sviði en áður, enda var fullkomlega tími til kominn að auka starf okkar að þessum málum. En um leið og þær umbætur byrja heima er baráttan gegn mengunarháskanum alþjóðlegs eðlis vegna þess að hún nær yfir öll landamæri þannig að hinn alþjóðlegi þáttur í því máli er stór.
    Sem dæmi um aðgerðir á þessum sviðum nefni ég fyrst frv. til l. um umhverfismál þar sem gert er ráð fyrir því að stofna sérstakt umhverfismálaráðuneyti og samræma stjórn þessara mála á vegum innlendra aðila í einu ráðuneyti og gefa því aukinn forgang með þeim hætti.
    Í annan stað nefni ég frumvörp iðnrh. sem varða slíkar sérstakar aðgerðir eins og t.d. frv. sem hér liggur fyrir um að draga úr skaða af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Í annan stað er hægt að nefna frv. um meðferð brotamálma og skilagjald af ökutækjum sem sent hefur verið öllum hv. þm. Þá minni ég á mál sem ég reyndar gerði mér vonir um að geta mælt fyrir hér og hef beðið eftir því að geta það sl. hálfan mánuð, þ.e. þáltill. um staðfestingu Alþingis á samningsskuldbindingum okkar um aðgerðir til verndunar ósonlaginu.
    En það er fjölmargt annað sem gera þarf og gert hefur verið. Ég nefni sem dæmi að innan EFTA og EB hefur verið stofnuð sérstök nefnd sérfræðinga um umhverfismál. Fyrsti fundur hennar verður haldinn 11. maí nk. Ég rifja upp að á sl. hausti var haldin sérstök ráðstefna um samstarf EFTA- og EB-ríkja þar sem umhverfismál voru mjög á dagskrá, þar sem voru saman komnir allir jafnaðarmannaflokkar Evrópu, þar sem að íslensku frumkvæði var sérstakur kafli ítarlegur um aðgerðir, áskorun til ríkisstjórna um samræmdar aðgerðir gegn umhverfisspjöllum og fyrir jákvæðum aðgerðum til verndunar umhverfisins.
    Fleira mætti til nefna og þá sérstaklega á vettvangi norrænnar samvinnu, svo sem eins og hina tvíþættu norrænu áætlun um umhverfismál, annars vegar almenna áætlun um samstarf Norðurlanda á sviði umhverfismála og hins vegar sérstaka norræna áætlun um varnir gegn mengun sjávar. Óhjákvæmilega tengist þessum málum líka barátta okkar fyrir því að koma í veg fyrir umhverfisslys, svo sem eins og t.d. af völdum umferðar kjarnorkuknúinna kafbáta. Í því efni liggur ljóst fyrir að við vinnum nú að undirbúningi að tillögum sem við munum taka upp við bandalagsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins. Það er vettvangurinn til þess vegna þess að án aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu yrðum við ekki til kvaddir til að fjalla sérstaklega um afvopnunarmál.
    Loks er þess að geta að innan Atlantshafsbandalagsins er líka fram undan margháttuð starfsemi sem tengist umhverfismálum þar sem við munum leggja fram okkar tillögur. Þar nefni ég til

fund vísindanefndar Atlantshafsbandalagsins sem kemur saman í Hollandi þann 17. þ.m., þingmannafund NATO í Tyrklandi þar sem umhverfismál munu verða á dagskrá, leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins þar sem að okkar frumkvæði munu verða gerðar tillögur um að taka sérstaklega á umhverfisverndarmálum og loks ráðstefnu sem haldin verður í Osló á sumri komanda á vegum umhverfisverndarnefndar Atlantshafsbandalagsins þar sem við munum einnig fylgja eftir okkar málflutningi.
    Þessi dæmi, virðulegi forseti, nefni ég um það að við munum hvarvetna þar sem við höfum tækifæri til láta að okkur kveða að því er varðar tillögur um verndun umhverfisins.