Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég tek undir orð þeirra sem hér hafa talað um nauðsyn þess út frá þessu samhengi að hér komist á umhverfisráðuneyti sem fari með þessi mál, en eins og nú háttar til í okkar stjórnkerfi heyra mengunarmál hafsins undir samgrn. og sú stofnun sem fer með framkvæmd þessara mála er Siglingamálastofnun, sér m.a. um framkvæmd laga um varnir gegn mengun sjávar.
    Á vegum samgrn. hefur verið talsvert unnið að þessu máli að undanförnu, m.a. að gefnu tilefni. Samstarfsnefnd helstu aðila á þessu sviði starfar undir forustu ráðuneytisins og hefur sú nefnd þegar gert tillögur um að taka skuli upp sem fyrst reglubundnar mælingar á mengun sjávar hér við land. Að öðru leyti er þess að vænta að sá starfshópur skili áliti í þessum mánuði.
    Í framhaldi af þessu hef ég tekið upp málið í ríkisstjórn og hef þegar lagt fram tillögur um aðgerðir sem ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir. Eru þar nokkur helstu áhersluatriði rakin sem að okkur snúa. Fyrst að hefja reglubundnar mælingar á mengunarefnum í sjó og sjávarlífverum í okkar hafsvæði. Í öðru lagi að taka upp reglur um dreifingu fóðurs og úrgangs frá fiskeldisstöðvum í sjó. Í þriðja lagi að auka söfnun úrgangsolíu frá skipum og aðilum í landi. Í fjórða lagi að bæta búnað ríkis og einstakra sveitarfélaga til að hreinsa olíu, lýsi og slíka mengun úr sjó. Í þessu sambandi má minna á norrænu mengunarvarnaáætlunina sem m.a. kemur inn á þessi atriði. Í fimmta lagi að vinna að því að uppræta losun sorps frá skipum í sjó. Í sjötta lagi að setja kröfur um hreinsibúnað á útblástur bifreiða til að hindra blýmengun sem að sjálfsögðu getur borist til hafsins. Í sjöunda lagi að vinna gegn förgun hættulegra efna á öskuhaugum sem af skiljanlegum ástæðum getur líka orðið að mengun í hafi. Og í áttunda lagi, og það er ekki síst mikilvægt, tel ég að það sé óhjákvæmilegt að nefna þá hluti sem stórfelldust mengunarhætta stafar af, en það er vígvæðing hafanna með tilheyrandi kjarnorkuvopnum og umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Það er enginn vafi á því að allar aðgerðir sem gætu orðið til að draga úr hættunni á geislamengun hafsins hljóta að teljast forgangsverkefni í íslenskum mengunarvarnamálum.
    Ég nefni þar að takmarka umferð kjarnorkuvopnaðra og kjarnorkuknúinna farartækja og banna komu þeirra inn fyrir 12 mílna land- og lofthelgi Íslands, að takmarka óþarfa viðdvöl slíkra farartækja í íslensku efnahags- og auðlindalögsögunni eftir því sem kostur er, að takmarka umferð farartækja sem flytja kjarnakleyf efni eða kjarnorkuúrgang um íslenska lögsögu og síðast en ekki síst vil ég nefna að við Íslendingar hljótum hvar sem við komum því við á alþjóðavettvangi að berjast fyrir okkar málstað í þessum efnum og ekki síst gegn þeirri nýju hættu sem okkur og öðrum þjóðum sem að hafinu liggja kann að stafa af þeirri tilhneigingu meginlandsþjóða að leysa mengunarmál sín á landi og í lofti á kostnað

mengunar í höfunum. Ég vil sérstaklega nefna áform Breta um að hætta framleiðslu á raforku með brennslu kola og olíu til að draga úr loftmengun, en taka þess í stað upp framleiðslu á rafmagni með kjarnorku en úrgangurinn á síðan að fara í hafið. Þarna er á ferðinni ný og háskaleg tilhneiging sem við hljótum að beita okkur að, ekki bara í ,,friðarbandalaginu`` og ,,umhverfisverndarklúbbnum`` sem hér var nefndur áðan heldur alls staðar á alþjóðavettvangi þar sem árangur getur af slíku hlotist.