Mengun hafanna í kringum Ísland
Mánudaginn 08. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Á síðustu árum hefur hringrás efna í höfunum, einkum kolefnasambanda, verið mjög til umræðu, svo og samspil þeirra við andrúmsloft, hafsbotn og líffræðileg ferli í hafinu. Í því sambandi hafa komið fram ýmsar áætlanir um rannsóknir er lúta að því að kanna slík tengsl og gera magnbundna úttekt á myndun og eyðingu lífmassans í hafinu. Hafa haffræðingar vonast til að á þennan hátt megi öðlast aukna þekkingu og skilning á þeirri atburðarás sem ræður veðurfarsbreytingum á jörðinni, m.a. vegna breytinga á samsetningu andrúmsloftsins sem svo aftur hafa áhrif á hitafar í sjó og lofti, hafís, hafstrauma, gróðursvæði og loks útbreiðslu dýrastofna í hafinu. Þessu víðtæka verkefni var gefið nafnið Global Ocean Flux Study og undirbúningsrannsóknir hófust á vegum nokkurra hafrannsóknastofnana í Bandaríkjunum fyrir fáeinum árum. Hugmyndir um sameiginlegt alþjóðlegt átak í þessu skyni komu fram árið 1987 og í september það ár var boðað til undirbúningsfundar á vegum alþjóðasamtakanna Scientific Committee for Oceanic Research til að fjalla um hugsanlega alþjóðlega samvinnu.
    Við Íslendingar tókum þátt í þessari ráðstefnu, en þar var einróma samþykkt að mæla með alþjóðlegri samvinnu um þetta verkefni, sem síðan hefur verið nefnt Joint Global Ocean Flux Study, og þátttaka stærstu ríkjanna var þá þegar ákveðin. Fulltrúar Íslands og Svíþjóðar sem voru á þessum fundi gerðu þó þann fyrirvara um þátttöku að fé fengist til þess af hálfu Norðurlandanna.
    Markmið þessara rannsókna hefur verið skilgreint þannig að ákvarða og skilja fyrir jörðina í heild þau ferli sem ráða langtíma- og skammtímabreytingum á streymi kolefnis og annarra lífræðilega mikilvægra efna um hafið og meta efnaskipti þeim tengd milli hafsins og andrúmslofts, hafsbotns og meginlanda. Hér er því um mjög umfangsmikið verkefni að ræða og kemur inn á það sem hér hefur verið nefnt.
    Hafrannsóknastofnun okkar hefur farið með þessar rannsóknir á undanförnum árum og að því er stefnt að auka þær mjög verulega. Þessar yfirgripsmiklu rannsóknir sem ég nefndi hér munu í fyrstu einkum beinast að Norður-Atlantshafi. Þar er gert ráð fyrir víðtækri notkun sjálfvirkra tækja til mælinga á ýmsum eiginleikum sjávar og til efnagreiningar, notkun setgildra til söfnunar á lífrænum efnum á mismunandi dýpi og öflun uppýsinga frá gervitunglum um blaðgrænu í hafinu og um frumframleiðni sjávarplantna.
    Fyrsti fasi þessara rannsókna hófst í mars á þessu ári og var hafist handa um að leggja ótal tækjum við ankeri á nokkrum stöðum í Norður-Atlantshafi á sniði eftir lengdarbaugum 20 gráður vestur--norður og að 60 gráðum norður. Fram til hausts 1989 verða skip frá mörgum þjóðum við þessar rannsóknir á svæðinu. Talið er fullvíst að rannsóknir þessar eigi eftir að leiða til þróunar á nýjum og endurbættum tækjabúnaði og nýjum aðferðum.
    Í ársbyrjun 1988 lögðu þeir David Dyrsen frá

Svíþjóð og Unnsteinn Stefánsson frá Íslandi fram tillögur til ráðherranefndar Norðurlandaráðs um norræna þátttöku og samvinnu í þessum rannsóknum. Bak við þessa tillögu var sú skoðun að norrænar þjóðir gætu lagt mikilvægt af mörkum í þessar sameiginlegu rannsóknir sem eiga að ná yfir alla jörðina.
    Nú er fyrirhugað að það muni eiga sér stað á næsta hausti sænsk-íslenskur leiðangur á Bjarna Sæmundssyni, 15 daga leiðangur, sem mun leggja út tæki bæði hér sunnan við Ísland í framhaldi af því sem lagt hefur verið út hér sunnar á Atlantshafinu og eins á svæðinu milli Íslands og Grænlands.
    Ég tel að hér sé um mikilvægt mál að ræða. Það vantar að vísu fé til þessara rannsókna, en ég leyfi mér að vona að ekki muni skorta fé til þess að við getum tekið þátt í þessum sameiginlegu rannsóknum því að með því að leggja út þessi tæki verður okkur gert kleift að fylgjast mun betur með því sem er að gerast í höfunum og vonandi leiða í ljós að mengun sé ekki eins alvarleg í höfunum í kringum Ísland og víða annars staðar.