Búfjárrækt
Mánudaginn 08. maí 1989

     Frsm. landbn. (Skúli Alexandersson):
    Herra forseti. Landbn. hefur fjallað um þetta frv. á nokkrum fundum. Ásamt landbn. Nd. mætti nefndin á aukafund búnaðarþings og fylgdist með umræðum um málið, reyndar áður en málið hafði verið tekið hér fyrir til 1. umr. Þá komu og búfjárræktar- og jarðræktarnefndir búnaðarþings á sameiginlegan fund með landbn. þingsins til viðræðna um frv.
    Nefndin hélt síðan fund með Magnúsi Sigurðssyni á Gilsbakka, formanni búfjárræktarnefndar búnaðarþings, og Bjarna Guðjónssyni í Nesi, formanni jarðræktarnefndar búnaðarþings, og Jónasi Jónssyni búnaðarmálastjóra. Á þeim fundi var farið mjög rækilega yfir frv.
    Að lokinni athugun og viðræðum við áðurgreinda aðila leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á þskj. 1084. Að meginhluta og efnislega byggja þær á breytingum og tillögum frá búnaðarþingi.
    Með samþykkt þessa frv. standa eftir í gildandi búfjárræktarlögum fyrst og fremst ákvæði er taka til búfjárhalds. Þó eru enn í þeim lögum nokkur atriði sem falla undir búfjárrækt, m.a. um lausagöngu og þá fyrst og fremst í sambandi við lausagöngu graðpenings. Þau atriði verða hins vegar felld inn í væntanleg lög um búfjárrækt við endurskoðun gildandi búfjárræktarlaga og setningu nýrra laga um búfjárhald. Nefndin telur nauðsynlegt að endurskoðun á gildandi búfjárræktarlögum verði lokið sem fyrst.
    Ég þakka meðnefndarmönnum mínum í hv. landbn. fyrir mjög gott samstarf og góða vinnu við frágang þessa máls og frágang brtt. sem hér liggja fyrir eins og ég sagði á þskj. 1084.