Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Mánudaginn 08. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það virðist vera orðin venja í þinginu ef maður forfallast sem er í miðri ræðu að það er algerlega gengið fram hjá honum síðan. Þetta kom fyrir í Sþ. Þá var ég veðurtepptur. Að þessu sinni þurfti ég að fara og vera við jarðarför, en ég hafði látið hæstv. forseta vita og hafði beðið um að umræður biðu, en ég vissi ekki betur en ég væri í miðri ræðu.
    Ég vil rétt aðeins taka það fram úr því að ég er staðinn upp að fundir voru boðaðir kl. hálfníu í morgun fyrst. Síðan er ráðgert að halda kvöldfund í kvöld út af því máli sem hér er til umræðu. En af einhverjum undarlegum ástæðum var þinghaldi hagað þannig í dag að deildarfundir byrjuðu ekki klukkan tvö eins og gert var ráð fyrir að sé á þriðjudögum. ( Forseti: Það er mánudagur í dag.) Já, það er mánudagur. Ég biðst afsökunar. Nú ruglaðist ég illa. Ég bið afsökunar á því. --- En aðalatriði míns máls er að ég óska eftir því að það verði ekki nefndarfundir í matarhléi og vil biðja hæstv. forseta að sjá til þess. Við höfum verið á fundum í dag og mér finnst eðlilegt að menn fái matarhlé þegar kvöldfundur er.