Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Mánudaginn 08. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég vildi aðeins svara einni beinni spurningu sem hv. 14. þm. Reykv. beindi til mín, þ.e. hvernig bæri að skilja 7. lið bréfs til Alþýðusambands Íslands þar sem stendur: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir framlengingu laga um eftirlaun til aldraðra``, en hér er um að ræða lög frá 1985 sem fjalla um það að tryggja þeim eftirlaun sem ekki fengu tryggðan eftirlaunarétt með lögunum frá 1971 um lífeyrissjóði.
    Hv. þm. var fyrst og fremst að spyrja um hvort með þessu hefði Alþýðusambandið fallist á það að greiðsla lífeyrissjóðanna til þessara mála yrði framlengd. Það hefur ekki á nokkurn hátt verið um það rætt. Hér er fyrst og fremst um að ræða að framlengja þessa skipan mála, en um það er fyrst og fremst fjallað í I. kafla laganna. En það hefur ekkert verið rætt við verkalýðshreyfinguna með hvaða hætti það verði gert.
    Hér er fyrst og fremst um að ræða að ríkisstjórnin lýsi því yfir að lögin verði framlengd, þ.e. lögin frá 1985 sem falla úr gildi í árslok 1989, held ég að sé rétt hjá mér, en þessi lög voru sett til að tryggja því fólki eftirlaunarétt sem ekki fékk réttindi samkvæmt lögunum um lífeyrissjóði frá 1971. Það hefur ekki verið um það fjallað milli ríkisstjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar með hvaða hætti þessi lög skuli fjármögnuð, þ.e. hvernig fé skuli fengið til þessara hluta. Eins og ljóst er kemur Atvinnuleysistryggingasjóður þar inn í og ríkissjóður ásamt lífeyrissjóðunum þannig að það hefur á engan hátt verið fjallað um hvort eða hvernig lífeyrissjóðirnir skuli greiða til þessara hluta.
    Ég var viðstaddur þann fund sem var haldinn á lokastigum þessa máls og efnislega var þetta ekki rætt á þeim fundi þannig að það bíður þá þess frv. sem þarna er rætt um og meðferðar á hv. Alþingi að taka ákvörðun um það. En ég vænti þess að allir séu sammála um það, sem til þessara mála þekkja, að nauðsynlegt sé að framlengja þessi lög eitthvað þó að sá tími komi að sjálfsögðu að þeirra verður ekki lengur þörf þar sem alltaf hefur verið gert ráð fyrir því að starfsemi lífeyrissjóðanna muni smátt og smátt gera þessi lög óþörf, en nauðsynlegt er að tryggja því fólki sem ekki greiddi nægilega til sjóðanna fyrr á árum einhvern eftirlaunarétt.
    Ég vænti þess að þessi svör séu fullnægjandi, en að öðru leyti getur hv. nefnd að sjálfsögðu leitað upplýsinga um þetta mál.