Samningsbundnir gerðardómar
Mánudaginn 08. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um samningsbundna gerðardóma, en frv. þetta er samið á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins af þeim Stefáni Má Stefánssyni prófessor og Valtý Sigurðssyni borgarfógeta. Við samningu þessa frv. var haft náið samráð við réttarfarsnefnd sem starfar á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
    Þetta frv. er fram komið af brýnni þörf, þ.e. það er mjög mikilvægt að hægt sé að leggja sakarefni í gerð. Með því er hægt að hraða málsmeðferð og með því eru líka minni líkur á því að deilur aðila komist í hámæli og aðilar geta þá að miklu leyti ráðið hverjir eru gerðarmenn.
    Það færist mjög í vöxt, ekki síst vegna alþjóðlegra viðskipta og fjölþjóðaverkefna, að gerðarmeðferð sé viðhöfð um ágreiningsefni þar sem samningsaðilar í alþjóðlegum viðskiptum telja þá leið í mörgum tilvikum greiðfærari og álitlegri en að leita til dómstóla í viðkomandi ríki. Þetta á að sjálfsögðu jafnframt við um viðskipti milli aðila innan lands. Með þessu frv. er reynt að skapa meira öryggi á þessum vettvangi.
    Ég ætla ekki að þreyta deildarmenn með því að fara nánar yfir frv. Það var samþykkt óbreytt og samstaða um það í hv. Nd. og vænti ég þess að um það geti jafnframt ríkt góð samstaða hér í Ed.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.