Rannsóknir í þágu atvinnuveganna
Mánudaginn 08. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Frv. þetta er mjög einfalt. Það fjallar um það að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sé heimilt að fengnu samþykki stjórnar stofnunarinnar og sjútvrh. að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum er séu hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsókna- og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.
    Hér er um að ræða sambærilega heimild við það sem Iðntæknistofnun fékk með lögum nr. 77/1986 og Háskóli Íslands með lögum nr. 8/1985. Þetta getur verið nauðsynlegt í mörgum tilvikum. M.a. vinnur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins nú að rannsóknum á sviði líftækniiðnaðar og um það hefur verið rætt að stofna sérstakt fyrirtæki til að þróa þau mál áfram, m.a. með aðild Háskóla Íslands og fleiri aðila.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.