Kosningar til Alþingis
Mánudaginn 08. maí 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Herra forseti. Það frv. sem hér liggur frammi er um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis nr. 80/1987 og var flutt af hv. þingkonum Kvennalistans í Nd., Kristínu Halldórsdóttur, Málmfríði Sigurðardóttur, Þórhildi Þorleifsdóttur og Kristínu Einarsdóttur.
    Frv. fjallar eins og ég gat um áðan um breytingu á lögum um kosningar og varðar Íslendinga sem eru búsettir erlendis. Samkvæmt núgildandi kosningalögum missa íslenskir ríkisborgarar er dveljast erlendis kosningarrétt sinn ef lengra líður en fjögur ár frá því að þeir áttu lögheimili hér á landi. Mörgum finnst þetta ákvæði kosningalaganna setja Íslendingum sem af einhverjum ástæðum dveljast erlendis um árabil of þröngar skorður og vilja lengja þetta viðmiðunartímabil eða jafnvel fella þessa takmörkun alveg niður. Í frv. þessu er gerð tillaga um hið síðarnefnda, en jafnframt að þeir sem ekki hafa átt lögheimili hér á landi á sl. átta árum talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag þurfi að sækja sérstaklega um að vera teknir á kjörskrá.
    Kosningalögin hafa um nokkuð langt skeið verið til umfjöllunar í stjórnarskrárnefnd og enn þá sér ekki fyrir endann á því starfi. Það er hins vegar brýnt að breyta því ákvæði kosningalaganna sem frv. þetta tekur til svo það verði orðið að lögum fyrir næstu kosningar.
    Hv. 1. flm., Kristín Halldórsdóttir, bar fram fsp. um þetta mál til dómsmrh. 3. mars 1988 eins og fram kemur í fskj. með frv., en þar kom fram áhugi margra þingmanna og þáv. dómsmrh. til að gera þær breytingar á kosningalögunum sem tryggðu betur rétt Íslendinga búsettra erlendis til að greiða atkvæði við alþingiskosningar.
    Frv. þetta er lagt fram til að breyta þessu eins og ég hef áður komið að. Það var einróma samþykkt í allshn. Nd. og vænti ég þess að því verði jafnvel tekið í þessari hv. deild og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til allshn. og 2. umr.