Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. fjh.- og viðskn., hv. 1. þm. Norðurl. v., hefur jafnframt legið fyrir fjh.- og viðskn. þessarar deildar frv. sem við nokkrir þingmenn Sjálfstfl. fluttum, frv. til l. um Framkvæmdasjóð menningarmála. Þessi tvö frumvörp eru að því leyti sambærileg að gert er ráð fyrir að það sé sami tekjustofn sem verði nýttur í báðum frumvörpunum, þ.e. framlenging á eignarskattsaukanum sem hingað til hefur runnið til þjóðarbókhlöðu. Jafnframt er gert ráð fyrir því í báðum frumvörpunum að þessi tekjustofn verði nýttur til að fullgera þjóðarbókhlöðu og það verði forgangsverkefni.
    Það er enn fremur í báðum frumvörpum gert ráð fyrir að þessi tekjustofn verði síðan nýttur til að endurbæta ákveðnar byggingar á sviði menningarmála sem við vitum að þurfa mikilla endurbóta við og nefni ég þar sérstaklega Þjóðleikhús, Þjóðminjasafn og reyndar innréttingu á húsnæði Þjóðskjalasafns í gömlu mjólkurstöðinni.
    Þetta eru hin sameiginlegu atriði með þessum frumvörpum, en síðan eru nokkur atriði sem frumvörpunum ber ekki saman um og ég segi að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum að málið skuli hafa fengið þessa afgreiðslu í fjh.- og viðskn. því að það er gert ráð fyrir að þegar þeim verkefnum sleppir sem ég hef hér talið upp verði þessi tekjustofn fyrst og fremst notaður til áframhaldandi endurbóta og viðhalds á ýmsum menningarstofnunum og sérstaklega eru kirkjur nefndar til í því sambandi.
    Nú er hér um að ræða verulegan tekjustofn, þ.e. ef meiningin er að viðhalda þessum tekjustofni fyrst og fremst í þessu skyni. Ef ég man rétt gefur þessi tekjustofn um 240 millj. kr. í tekjur á þessu ári og er ljóst að ef þessir fjármunir eru allir nýttir í þessu skyni mun á tiltölulega skömmum tíma vera unnt að ljúka þessum meginverkefnum, þ.e. Þjóðarbókhlöðu og endurbótum þessara þriggja meginbygginga sem við erum sammála um að þurfi að vinna í.
    Ég sakna þess mjög að það er sérstaklega tekið fram í grg. með frv. að það sé ekki gert ráð fyrir að þessi tekjustofn verði notaður til nýbygginga á sviði menningarmála heldur fyrst og fremst til viðhalds og endurbóta á byggingum sem fyrir eru. Ég tel að það hefði verið mjög gott og nauðsynlegt að festa í lög að úr þeim sjóði sem þessi tekjustofn á að mynda mætti jafnframt veita til nýbygginga á sviði menningarmála. Það eru ýmis verkefni sem við okkur blasa á því sviði. Ég nefni t.d. tónlistarhús sem sérstaklega er tilgreint í lagafrv. okkar sjálfstæðismanna. Ég nefni viðbyggingu við Listasafn Íslands. Það er ljóst að Listasafn Íslands er ekki fullgert og það er nauðsynlegt til frambúðar að koma þar upp meira húsnæði og liggja fyrir teikningar að því að byggja við það hús upp að Laufásveginum. Og ég nefni líka Náttúrufræðistofnun eða náttúrugripasafn sem reyndar er ósk um eða hafa komið fram beiðnir um að byggja, reyndar bæði í Reykjavík og á Akureyri, og væri vafalaust hægt að hafa einhverja verkaskiptingu

á milli þessara stofnana sem starfa á þessum tveimur stöðum og byggja yfir þær í framtíðinni á báðum stöðum --- með ákveðinni verkaskiptingu þó eins og ég sagði.
    Þetta er útilokað með þessu frv. eins og það liggur nú fyrir eftir afgreiðslu fjh.- og viðskn. Það er útilokað að nýta þetta fjármagn til nýbygginga heldur fyrst og fremst til viðhalds og endurbóta.
    Nú er ljóst að það eru ýmis menningarverðmæti fólgin í gömlum byggingum víða um landið eins og gömlum kirkjum og öðru slíku, en með tilliti til þess hve þessi tekjustofn er ríflegur og ég tala ekki um ef miðað er við hvað veitt hefur verið í þessu skyni undanfarin ár af hv. Alþingi finnst mér afleitt að málið skuli fá þá afgreiðslu að nýbyggingar verði í framtíðinni útilokaðar úr þessum sjóði.
    Ég nefni einnig að í okkar frv. var gert ráð fyrir því að þessu yrði stjórnað á nokkuð annan hátt, þ.e. við höfðum gert ráð fyrir því, sjálfstæðismenn, í okkar frv. að þessi tekjustofn færi alfarið til þessara mála, honum yrðu færðar tekjurnar til tekna jafnóðum og þær innheimtast, en á því hefur verið mikill misbrestur eins og menn vita varðandi þjóðarbókhlöðusjóðinn vegna þess að fjmrn. hefur haft þessa peninga undir höndum og síðan ekki nema hluti af því komið inn í fjárlög sem framlög til Þjóðarbókhlöðu og afgangurinn runnið í ríkissjóð. Við gerðum ráð fyrir að það væri Alþingi sjálft sem úthlutaði úr þessum sjóði, þ.e. fjvn. gerði tillögur um það við afgreiðslu fjárlaga til hvaða verkefna þetta ætti að fara. En samkvæmt frv. nú er það ákveðin sjóðsstjórn sem skipuð er verulega frá framkvæmdarvaldshöfum, að vísu tveir menn frá fjvn., en að öðru leyti eru það framkvæmdarvaldshafarnir sem eiga að úthluta úr sjóðnum samkvæmt frv. eins og það liggur nú fyrir.
    Þetta vildi ég segja hér. Mér þykir afar leitt og varla mögulegt að ljúka þessari umræðu án þess að hæstv. menntmrh. sé viðstaddur. Hann er ekki á fundinum í dag, hefur fjarvistarleyfi. Þess vegna hefði ég talið rétt að fresta þessari umræðu þar til hæstv. menntmrh. geti verið viðstaddur, því að hann lagði þetta frv. fram, og freista þess hvort ekki er hægt að ná betra
samkomulagi í þessu máli. Eins og það liggur fyrir get ég ekki stutt þetta frv. og mundi a.m.k. sitja hjá við afgreiðslu þess.