Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Út af orðum síðasta ræðumanns sé ég ástæðu til að drepa á örfá atriði.
    Það er alveg rétt hjá honum að það er nokkur munur á þessum frumvörpum. Þó að fyrstu skref í frv. þeirra sjálfstæðismanna séu þau sömu og í stjfrv. heldur hv. 2. þm. Reykv. lengra áfram en stjfrv. gerir.
    Það blasir við og er alkunna að viðhald opinberra bygginga hefur verið vanrækt um langan tíma og er gífurlega mikil þörf á því ef þær eiga ekki beinlínis að eyðileggjast að vinda bráðan bug að því að gera við þær. Meiningarmunurinn er sá að við í fjh.- og viðskn., sem berum ábyrgð á þessu máli, gátum ekki fallist á eða okkur þótti ekki skynsamlegt og fannst það ekki tímabært að ávísa til nýbygginga strax. Það væri rétt að láta hafa forgang að forða merkilegum stórbyggingum frá eyðileggingu. En þegar brýnustu viðgerðarverkefnum er lokið er hægt að reisa nýjar byggingar. Þá þarf að vísu að gera lagabreytingu aftur í þá veru sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og félagar hans lögðu til, en okkur sýnist að það væri eðlilegt að gefa hinu nokkurn forgang, þ.e. að nota þessa peninga fyrstu árin eftir að þjóðarbókhlaða er risin til að gera við það sem brýnast væri af opinberum byggingum.
    Það er alkunna að það standa fyrir dyrum mjög dýrar viðgerðarframkvæmdir á Þjóðleikhúsi og ýmsum fleiri opinberum byggingum sem ekki er skynsamlegt að fresta og eðlilegt er að hafi nokkurn forgang. Ég er hins vegar alveg samþykkur því að ég held að við eigum að nota þennan tekjustofn þegar fram líða stundir til að reisa nýjar byggingar og kemur þá til tals að nota þær til að reisa eitthvað af þeim byggingum sem hér eru taldar upp.
    Varðandi sjóðsstjórnina breyttum við upphaflegu frv. þannig að við teljum að fjárveitingavaldið hafi allmikil ítök í stjórn sjóðsins, þ.e. formaður og varaformaður fjvn. koma til með að eiga þarna sæti og orð þeirra vega að sjálfsögðu mjög þungt varðandi ákvarðanir sjóðsstjórnarinnar.
    Mér þætti miklu verra ef forseti yrði við þeirri ósk, sem er svo sem skiljanleg hjá hv. 2. þm. Reykv., að fresta þessu máli. Ég vildi mjög gjarnan að þetta mál fengi greiðan gang í gegnum þingið og yrði ekki fyrir miklum töfum. Ég ætla að vona að ef sá frestur verður veittur sem hv. 2. þm. Reykv. fór fram á verði hann ekki mjög langur. Mér finnst þetta tiltölulega einfalt mál. Ég held að það beri ekki mjög mikið á milli og mér finnst að hv. sjálfstæðismenn, sem að þessum frumvarpsflutningi stóðu, megi vel við una að þarna er verið að setja lög mjög í þá átt sem þeir lögðu til þó það sé ekki nákvæmlega fylgt til enda því spori sem þeir mörkuðu.
    Svo er náttúrlega annar handleggur á þessu máli. Hann er sá hvaða siðferðisþrek við höfum, alþingismenn, til þess að láta þennan sérmerkta tekjustofn renna til þessa sjóðs. Á því hefur, eins og menn vita, orðið nokkur misbrestur. Þó að ákvarðaðir hafi verið tekjustofnar til hinna ýmsu þarfaverkefna hefur nú neyðin rekið okkur til þess að ganga í þá til

að lagfæra stöðu ríkissjóðs oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Mér finnst að það sé meginatriðið að ganga frá allra næstu árum, marka stefnuna til allra næstu ára og klára þau verkefni sem brýnust eru áður en við förum að merkja peninga til nýbygginga lengra út í framtíðinni.