Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. var búin að fjalla um þetta frumvarp á meðan ég var fjarverandi, en það kom til afgreiðslu svo ég skrifaði undir það nál. sem hv. formaður fjh.- og viðskn. greindi frá. Ég skal fúslega játa að ég var ekki að öllu leyti ánægður að skrifa undir nál. og sérstaklega vegna þess ákvæðis í frumvarpinu að framlengja sérstakan eignarskatt. Það er einhvern veginn þannig að ef þessi virðulega og ágæta stofnun, Alþingi, byrjar á einhverri skattlagningu sem á að vera til bráðabirgða er gjarnan hrifsuð öll höndin þó aðeins sé byrjað á því að teygja fram litlafingurinn. Það virðist ætla að endurtaka sig með þessu frumvarpi og í þessum efnum. Þetta er ég ekki ánægður með. Við erum að setja á skatta árum saman, jafnvel áratugum saman sem bera heitið ,,tímabundnir``. Það eru að mínum dómi hvimleiðir skattar og að mínum dómi er, þó að það hafi verið gengið inn á sérstakan eignarskatt vegna þjóðarbókhlöðunnar, þetta ekki framtíðin. Þó að hér eigi hlut að máli merkar stofnanir sem eru alls góðs maklegar er Alþingi að teygja armana í hærri og meiri eignarskatta. Við höfum lifað það á þessu þingi að þeir hafa verið hækkaðir verulega. Sá er munur á þrenns konar sköttum að að mínum dómi eru eyðsluskattarnir eðlilegastir, að skattar séu teknir af eyðslu, og get svo sætt mig við að fyrst um sinn séu teknir skattar af tekjum, en séu menn búnir að borga skatta til samfélagsins af tekjum sínum árum og áratugum saman og ef þeir hafa eitthvað eignast held ég að það séu takmörk fyrir því hvað hin virðulega löggjafarstofnun, Alþingi Íslendinga, eigi að ganga langt í því að hækka eignarskatta. Það er af þessari ástæðu sem ég var ekki mjög ánægður með að skrifa undir þetta nál. eins og formaður nefndarinnar veit um. Hins vegar eru verkefnin sem hv. 2. þm. Reykv. nefndi áðan verkefni sem ég tel öll að eigi fullan rétt á sér. En ósköp væri mér ljúfara að ganga bæði til samstarfs um þetta mál og hans mál með annars konar tekjuöflun en hér er um að ræða.