Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Ég skil vel að hv. 1. þm. Vestf. hafi nauðugur gengið til þessa leiks eins og hann hefur skýrt fyrir okkur þingmönnum því að eftir að þetta frumvarp var lagt fram sem við fluttum, sjálfstæðismennirnir, í nóvember hafa eignarskattar verið hækkaðir fram úr öllu hófi. Við sjálfstæðismenn höfum ekkert breytt um skoðun á því að þeir eignarskattar sem lagðir voru á sérstaklega með nýrri löggjöf í desember eru langt umfram það sem hægt er að una við og hægt er að sætta sig við. Við vildum hins vegar ekki þrátt fyrir það draga til baka eða hætta við frumvarp okkar því að við viljum ekki að þessi gífurlega eignarskattsaukning núv. hæstv. ríkisstjórnar verði til þess að ryðja burtu þessum sérmarkaða tekjustofni til menningarmála. Við vitum að það hefur verið undir högg að sækja á hv. Alþingi að fá fjármagn í slík verkefni og þess vegna vildum við að þessum eignarskattsauka yrði haldið í þessu skyni vegna þess að hann hafði ekki í för með sér neina hækkun á þeim sköttum sem fyrir voru. Þetta er skattur sem hefur verið lagður á í nokkur ár.
    Það breytir hins vegar ekki því eins og ég sagði að eignarskattsálagningin nú er komin úr öllu hófi. Það verður auðvitað fyrsta verkefni þeirra sem taka við af þessari ríkisstjórn, ef við sjálfstæðismenn eigum þar hlut að máli, að lækka þessa gífurlega háu og ósanngjörnu eignarskatta, enda er hæstv. ríkisstjórn þegar byrjuð á því. Hún er nú að leggja fram, það er til umræðu í Ed. núna, frumvarp í sambandi við efnahagsaðgerðir í framhaldi af kjarasamningum um að stíga skrefið til baka aftur og lækka m.a. sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þannig mun auðvitað fara að þessar gríðarlegu skattahækkanir sem ríkisstjórnin lagði til verða teknar til baka hver af annarri. En við vildum engu að síður halda þessum sérstaka eignarskattsauka sérmerktum í þessu skyni.
    Þetta þótti mér rétt að taka fram.
    Varðandi málsmeðferð get ég fallist á að við ljúkum 2. umr. nú, enda verði þá 3. umr. ekki haldin fyrr en á morgun þannig að mér gefist tækifæri til þess að ræða við menntmrh. Ella mundi ég væntanlega leggja fram sérstaka brtt. við þetta frumvarp eins og það liggur nú fyrir.