Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Frsm. 4. minni hl. félmn. (Kristín Einarsdóttir):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 4. minni hl. félmn. sem er á þskj. 1037.
    Fljótlega eftir að breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins tók gildi 1. sept. 1986 kom í ljós að áhrif breytinganna voru stórlega vanmetin af þeim sem lögðu fram frv.
    Breytingin olli hækkun íbúðaverðs, hækkun vaxta á lánamarkaði og mikilli þenslu. Biðtími eftir lánum er orðinn mjög langur og skortur á leiguhúsnæði og félagslegu húsnæði mjög tilfinnanlegur.
    Það er því fyllilega tímabært að taka húsnæðislánakerfið til gagngerrar endurskoðunar, ekki eingöngu almenna hlutann heldur kerfið í heild og marka framtíðarstefnu í þessum málum.
    Ég tel húsbréfakerfið geta orðið á ýmsan hátt til bóta. Skipti á íbúðum verða einfaldari. Stærri hluti láns verður á einni hendi. Seljendur búa við meira öryggi um verðmæti, tryggingu og söluhæfi þeirra bréfa sem þeir fá í hendur við íbúðasölu.
    Hins vegar er ekki hægt að búast við að þetta kerfi leysi þann mikla húsnæðisvanda sem nú er til staðar. Ekki fá staðist fullyrðingar um að með upptöku húsbréfakerfis geti allir sem á þurfa að halda fengið lán, með stuttum fyrirvara, fyrir hærri hluta af verði fasteignar og jafnframt að afborganir verði minni en í núverandi kerfi. Og um leið verði um minni útgjöld fyrir ríkissjóð að ræða. Hvaðan eiga peningarnir að koma? Mér finnst þetta hálfgert hókus pókus. Kerfið getur verið ágætt, en það leysir ekki allan vanda eins og haldið hefur verið fram, m.a. í þessum rauða bæklingi sem vitnað var til hérna áðan og stenst auðvitað engan veginn. Sagt er að með samþykkt frv. sé stuðlað að víðtækari og meiri innri fjármögnun húsnæðiskerfisins en verið hefur. Ekki verður þó séð að það gerist nema að mjög takmörkuðu leyti. Þannig hefur verið áætlað að þessi aukning muni aðeins nema um 1000--2000 millj. kr. á ári, en tölur upp í 3000 millj. kr. hafa verið nefndar. Þegar húsbréfakerfið verður tekið upp er gert ráð fyrir að lán til hvers umsækjanda muni verða að hámarki 5,5 millj. kr. Ef gert er ráð fyrir að þessi hækkun hámarkslána verði til þess að meðallán verði 4,5 millj. kr. verður um 2 millj. kr. hækkun á meðalláni að ræða. Ef 1000 lánsumsækjendur af þeim sem nú eru í biðröðinni, sem sögð er vera upp á 10 þúsund manns, sækja um lán í húsbréfakerfinu þarf 2000 millj. kr. til að hækka lán til hvers þeirra um 2 millj. kr. þannig að útkoman hlýtur að vera að færri lán verða afgreidd. Ég get ómögulega séð hvernig í ósköpunum þessar fullyrðingar sem hér hafa verið uppi hafðar fá staðist. Peningarnar verða ekki búnir til úr engu.
    Jafnframt þessum breytingum hefur ríkisstjórnin boðað að vextir muni hækka á lánum Byggingarsjóðs ríkisins sem mun hafa í för með sér aukna greiðslubyrði fyrir fjölda lántakenda. Þessi aukna greiðslubyrði kemur að sjálfsögðu á þau lán sem koma frá Byggingarsjóði ríkisins en Kvennalistinn lagði áherslu á það og finnst það skipta mjög miklu máli að vextir hækki ekki á þeim lánum sem nú þegar

er búið að taka.
    Það kom fram í máli hv. 17. þm. Reykv. hér annaðhvort á föstudag eða laugardag að hann taldi þetta mjög misráðið og fannst það mikið óréttlæti að vextir á lánum til þeirra sem nú þegar væru búnir að fá lán mundu ekki hækka einnig ef vextir úr lánum Byggingarsjóðs ríkisins mundu hækka. Því er til að svara að auðvitað er aldrei hægt að fullnægja öllu réttlæti í þessum efnum, en það verður að muna eftir því að fólk er nú þegar búið að gera áætlanir miðað við þá vaxtabyrði sem það hefur nú, 3 1 / 2 % vexti, og það væri að koma aftan að fólki ef vextirnir væru hækkaðir afturvirkt. Þannig að auðvitað verður það meiri greiðslubyrði sem kemur á það fólk sem fær lán núna, en ég tel alveg ófært og Kvennalistinn taldi það ófært að vera að hækka vexti á þegar teknum lánum. Þess vegna er það lagt til í samkomulagi um húsnæðismál sem er punktur nr. 3 á fskj. með nál. á þskj. 1037.
    Samhliða þessu frv. er flutt annað frumvarp (349. mál) sem gerir ráð fyrir að í stað vaxtaniðurgreiðslna í núverandi kerfi komi vaxtabætur þar sem upphæð bóta er bæði háð tekjum og eignum. Miklu varðar að framkvæmd þess máls verði ótvírætt á þann veg að opinber stuðningur vegna húsnæðiskaupa sé í þágu hinna tekjulægri, en það var ein af forsendum þessara breytinga að aðstoð hins opinbera kæmi einmitt fyrst og fremst til þeirra sem hefðu lægri tekjur og ættu minni eignir. Að vísu er búið að rugla svolítið í þessu frv. þar sem nú hefur verið gert samkomulag um það að vextir á lánum Byggingarsjóðs ríkisins verði aldrei hærri en 4 1 / 2 % og þá er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig þessi tvö kerfi geta gengið hlið við hlið, annað með markaðsvöxtum og hitt með niðurgreiddum vöxtum. Hlýtur að liggja í augum uppi að fólk mun frekar vilja taka lán úr Byggingarsjóði ríkisins með lægri vöxtum þó það þurfi að bíða einhvern tíma. Þetta samkomulag virðist því á vissan hátt breyta einni meginforsendu fyrir upptöku húsbréfakerfis. Að vísu langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra í hverju þessi yfirlýsing felist. Það virðast vera tvær túlkanir á því sem fram kemur í nál. á þskj. 1033. Mér virðist ótvírætt hvað þarna er átt við, að vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins verði ekki hærri
en 4 1 / 2 %. Mér finnst ekki hægt að misskilja það.
    Margir þeirra sem nú eru á biðlista um lán hjá Byggingarsjóði ríkisins munu falla frá lánsumsókn þar sem einhverjir þeirra eru að sækjast eftir láni með niðurgreiddum vöxtum en ekki til íbúðarkaupa. Þetta er að vísu mjög háð því hverjir markaðsvextirnir verða og háð því hvernig þetta samkomulag verður túlkað sem þarna kemur fram. Óljóst er hversu stór þessi hópur muni verða en margar breytingar hafa verið gerðar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins til að reyna að útiloka þennan hóp. Og ég man ekki betur en að það hafi verið fljótlega eftir að núv. hæstv. félmrh. tók við starfi að flutt var frv. hér í þinginu þar sem reyna átti að útiloka þennan hóp en ég held að það hafi verið hálfmisheppnuð aðgerð. Annar hópur, líklega stærri, mun heltast úr lestinni

vegna þess að margir þeirra munu ekki geta staðið undir þeim vöxtum sem greiða þarf af lánum Byggingarsjóðsins ef vextir af lánum Byggingarsjóðsins mundu eingöngu hækka þannig að þetta fólk hefur ekki mikið val. Vaxtabyrðin mun aukast verulega og eingöngu 1% hækkun vaxta, eins og nú er gert ráð fyrir, mun hafa veruleg áhrif, hvað þá heldur ef vextirnir mundu hækka enn frekar. Það er því ljóst að hækkun vaxta á lánum Byggingarsjóðs ríkisins mun ein sér hafa veruleg áhrif óháð tilkomu húsbréfakerfisins. Og það er líka alveg ljóst að einn stærsti vandi Byggingarsjóðs ríkisins nú er sá mikli vaxtamunur sem nú er í kerfinu, þ.e. lán eru tekin hjá lífeyrissjóðunum með vöxtum upp á 6--7--8% og lánuð til baka á 3 1 / 2 % vöxtum. Og ef framlag ríkissjóðs er ekki nægilega mikið til að mæta þessum vaxtamun, þá er augljóst að það mun stefna í gjaldþrot sjóðanna eins og svo margoft hefur verið bent á áður.
    Ekki er ljóst hvernig framlagi ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins verður háttað, hvort það mun alveg falla niður eða minnka smám saman. Ekki hefur verið gerð áætlun um fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins til frambúðar, hve miklu hækkun vaxta muni skila og hve mikið áætlað er að ríkissjóður þurfi að leggja fram til endurgreiðslu lána frá lífeyrissjóðunum.
    Frv. var sent fjölmörgum aðilum til umsagnar. Þær umsagnir sem bárust voru á ýmsan veg. Flestir tóku undir þá meginhugsun sem felst í hugmyndinni um húsbréf. Margir bentu á ýmsa óvissuþætti varðandi framkvæmd málsins og töldu að það þyrfti frekari athugunar við.
    Samkomulag hefur náðst um að fresta gildistöku frv. til 15. nóv. Fram að þeim tíma muni milliþinganefnd starfa við frekari undirbúning málsins og taka tillit til ábendinga og athugasemda. Ég geri þá ráð fyrir að það verði tekið tillit til þeirra fjölmörgu athugasemda og ábendinga sem komu fram við meðferð málsins í félmn. þar sem margir bentu á hvernig hægt væri að bæta það frv. sem fyrir liggur til þess að það muni þjóna tilgangi sínum. En óhjákvæmilegt þótti þó að afgreiða málið frá Alþingi til þess að nauðsynlegur undirbúningur gæti hafist.
    Í félmn. var m.a. rætt um stöðu húsbréfadeildar innan Húsnæðisstofnunar. B-liður 4. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Yfirstjórn húsbréfadeildar er í höndum húsnæðismálastjórnar en sérstakur forstöðumaður fer með daglega stjórn deildarinnar og hefur umsjón með fjárhag hennar.``
    Í ljósi þessa liðar þótti okkur nokkurt ósamræmi í orðalagi annarra greina. Sem dæmi má taka e-lið 4. gr., síðustu mgr., þar sem talað er um að húsbréfadeild skuli leita eftir samningum við viðskiptabanka og fjármálastofnanir. Það er mjög einkennilegt ef gert er ráð fyrir að húsbréfadeildin sjálf eigi að fara að leita eftir samningum við viðskiptabanka og fjármálastofnanir þar sem annars staðar í lögunum er gert ráð fyrir að Húsnæðisstofnun muni hafa með höndum þvílíka samninga. Í f-lið þessarar sömu greinar er talað um að húsbréfadeildinni

sé heimilt að áskilja sér vaxtaálag. Það hefði verið eðlilegra að þar hefði staðið ,,Húsnæðisstofnun``. Síðan er talað um það í m-lið að húsbréfadeildin geri tillögu til félmrh. um verðtryggingarskilmála, endurgreiðsluform, lánstíma, vexti og heildarfjárhæðir í hverjum flokki, en ekki að það verði stjórn Húsnæðisstofnunar sem er til samræmis við önnur ákvæði í lögunum.
    Hins vegar kemur fram í áliti 2. minni hl. að það sé skilningur nefndarinnar að b-liður 4. gr. taki af öll tvímæli um það að yfirstjórn húsbréfadeildar sé í höndum húsnæðismálastjórnar og allar ákvarðanir deildarinnar séu háðar samþykki þeirrar yfirstjórnar. Ég tel því að það sé rétt upp á samræmi að þessu yrði breytt til samræmis við önnur ákvæði laganna, án þess að ég sé með því að segja að ég telji þetta rétt form á því hverjir ákveða vexti, hverjir leggja til og við hvern lagt er til varðandi vaxtaákvarðanir.
    Skiptar skoðanir eru meðal sérfræðinga um áhrif húsbréfakerfisins á íbúðaverð, fasteignamarkaðinn, lánamarkað og efnahagskerfið í heild. Stór hópur fólks ræður ekki við þau kjör sem nú bjóðast til húsnæðiskaupa. Hærri vextir munu gera þessum hópum enn erfiðara fyrir. Því er ljóst að þrýstingur á félagslega íbúðakerfið mun aukast verulega og er hann þó mikill fyrir. Kvennalistinn hefði því viljað efla og bæta félagslega húsnæðiskerfið áður en ráðist var í þær breytingar sem hér er verið að gera á almenna kerfinu. Enn
liggur engin áætlun fyrir í tengslum við þessa kerfisbreytingu um félagslega íbúðalánakerfið. Með samkomulagi Kvennalista við ríkisstjórnina tókst hins vegar að efla verulega félagslega þátt húsnæðiskerfisins, samanber það sem kemur fram á fylgiskjali.
    Ég vil ekki fallast á það sem hv. 17. þm. Reykv. sagði hér fyrr í umræðunni þar sem hann taldi að þarna væri um að ræða samkomulag um allt aðra og óskylda hluti. Það er alls ekki samkomulag um allt aðra hluti og ekki hægt að líkja þessu samkomulagi um úrbætur í félagslega íbúðalánakerfinu við það t.d. að við hefðum gert samkomulag um vegáætlun eða eitthvað þess háttar. Ég mótmæli því, því þarna er einmitt verið að líta á húsnæðismálin í heild, reyna að líta ekki á einn lítinn þátt án tillits til þess hvaða áhrif hann hefur á aðra þætti. Við teljum að með upptöku þessa kerfis aukist þrýstingurinn á félagslega íbúðalánakerfið og það þurfi að efla það verulega, og hefði reyndar þurft miklu fyrr. Í samkomulaginu er talað um að á þessu ári verði um að ræða 100 millj. kr. raunaukningu í félagslega íbúðalánakerfið en það er 100 millj. kr. aukning umfram það samkomulag sem gert var í tengslum við kjarasamninga þar sem talað var um að hefja byggingu á 200 íbúðum í félagslega íbúðakerfinu. Auðvitað munu bæði Alþýðusamband Íslands og við fylgjast með framvindu þessara mála, því að auðvitað er þarna um að ræða þessar 200 íbúðir auk þessara 100 millj. kr. sem við vildum setja í félagslega íbúðalánakerfið.
    Auk þessa teljum við mjög mikilvægt að félagslega

íbúðalánakerfið verði endurskoðað nú þegar. Það varð að samkomulagi að nefnd verði sett strax á laggirnar í það verkefni sem skili niðurstöðum fyrir 1. nóv. til að þá liggi fyrir eitthvað raunhæft í þessum málum þannig að það verði tekið á félagslega hluta íbúðalánakerfisins. Ég held því að það sé á engan hátt hægt að segja að þetta samkomulag sé úr tengslum við það sem við erum að samþykkja hér og verður þá að skýra það mikið betur fyrir mér ef það er hægt að segja að þetta sé ekki um húsnæðismál og tengist ekki þessu frv. Að vísu er það ekki tengt nákvæmlega einhverjum ákveðnum greinum frv. en svo sannarlega tengist það samþykkt þess.
    Eftir sem áður er heildarendurskoðunin auðvitað jafnnauðsynleg.
    Með tilliti til alls þessa hefur Kvennalistinn ákveðið að fallast á að greiða fyrir framgangi málsins hér á þinginu þó að við sannarlega gerum okkur grein fyrir því að margt þarf að athuga frekar áður en þetta frv. verður að lögum sem verður þá væntanlega ekki fyrr en 15. nóv. þannig að við höfum tíma til þess í haust strax í upphafi næsta þings að gera þær breytingar sem nauðsynlegar kunna að verða.