Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Það lítur út fyrir það að menn láti ýmislegt yfir sig ganga á þessum vordögum hér í sölum Alþingis. Við erum hér að ræða um mál sem á að fara í milliþinganefnd og á að skoða á næstu mánuðum. Á sama tíma fáum við þau tíðindi að slitnað hafi upp úr samningum við þá menn sem hafa háskólapróf og sýnilegt að það verður lítil prófun nema Alþingi Íslendinga taki þar í taumana. Það hefði verið nær að nota þessa nótt til að ræða þau mál heldur en það mál sem hér er og þarflaust er að ræða.
    Mér datt í hug gamall húsgangur sem mér fannst vera sambærilegur við þann málflutning sem hér er hafður í frammi og þann moðreyk sem er í kringum þetta mál:
Fiskurinn hefur fögur hljóð,
finnst hann oft á heiðum.
Ærnar renna eina slóð
eftir sjónum breiðum.
    Þann 23. apríl sl. ræddi hæstv. félmrh. við þann sem hér stendur um að koma og ræða um þetta frv. sem við erum að ræða hér um. Ég hafði mikið gagn af þessum fundi en það einkennilega er þrátt fyrir mjög góða ræðu, sem ég get tekið undir, sem hv. 1. þm. Vesturl. flutti hér áðan, að það var hæstv. félmrh. sem sannfærði mig um að það væri þarflaust að flytja þetta mál. En áður en ég kem að því þá vil ég vegna seinni tíma lesa hér bréf sem ég skrifaði hæstv. ráðherra 25. apríl sl. Bréfið er þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að ósk þinni komu til fundar í félmrn. í gær Gunnar Hilmarsson, Tómas Gunnarsson, Trausti Þorláksson og undirritaður úr Samtökum jafnréttis og félagshyggju til að ræða húsbréfafrv. Í lok þessa fundar óskaði ráðherra að fá skriflega umsögn um frv. og þar kæmi fram hvaða breytingar þyrftu að verða á því til þess að samtök okkar sæju sér fært að styðja það.
    Við teljum að það sé ekki ráðlegt að lögfesta þetta frv. á þessu þingi nema gerðar verði á því verulegar breytingar þar sem mikil óvissa ríkir í verðbólgu- og vaxtamálum og ekki er ljóst á hvaða grunni endurgreiðslan á vöxtum verður byggð. Skilyrði fyrir stuðningi okkar við þetta mál er að gerðar verði eftirtaldar breytingar á frv.:
    1. Bréfin verði aðeins fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa í annað sinn og eru ekki í forgangshópum.
    2. Þeir sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn eða eru í forgangshópum búi við óbreytt lög og með óbreyttum vaxtagreiðslum.
    3. Þeir sem búa í þeim byggðarlögum þar sem söluverð íbúða er lægst gangi fyrir öllum öðrum umsækjendum og sú röðun haldist allt að því marki að söluverðið sé um 70% af verði á sambærilegum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.
    4. Samtökin taka undir með félmrh. hvað varðar ýmsa alvarlega ókosti núverandi skipunar í húsnæðismálum og telja brýnt að húsnæðismálin öll verði tekin til gagngerðrar athugunar.
    Erum reiðubúnir til þess að koma til fundar við

ráðherra til að ræða þetta frekar.``
    Undir þetta ritar, f.h. Samtaka jafnréttis og félagshyggju, Stefán Valgeirsson.
    Ráðherra sagði mér frá því að hún hefði látið einhverja sérfræðinga athuga þessi mál, en síðan heyrði ég ekkert í ráðherra og hef ekki heyrt.
    Hvers vegna eru þessi skilyrði sett? Hvað er það sem þessi þjóð þarf í dag? Er það það að hér sé látlaust byggt á höfuðborgarsvæðinu eins og mun verða ef þetta verður að lögum? Er það ekki það að byggt sé yfir fólk á framleiðslustöðunum? Veit hæstv. félmrh. og aðrir þingmenn ekki að um 80% sjávaraflans berast á land úti á landsbyggðinni og ekki nema 20% hér á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum? Hefur hæstv. ráðherra ekki orðið vör við það að menn úti á landsbyggðinni eru að biðja um lóðir og lán til þess að byggja hér? Hvers vegna? Vegna þess að þeir sjá að þeir geta ekki selt ef svo illa fer að þeir geta ekki staðið undir afborgunum og vöxtum. Og svo kemur hér frv., sem hæstv. ríkisstjórn ber auðvitað ábyrgð á, sem verður til þess að hækka vexti. Er einhver hér inni sem heldur að fólk úti á landsbyggðinni fari að taka húsbréf með markaðsvöxtum? Heldur einhver það?
    Áður en ég held lengra þá vil ég lesa hér upp yfirlýsingu um húsnæðismál sem er frá Öryrkjabandalagi Íslands, Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra, Samtökunum Þroskahjálp, Samtökum aldraðra, Stúdentaráði Háskóla Íslands, Bandalagi íslenskra sérskólanema, Leigjendasamtökunum, Búseta, landssamtökum.
    ,,Yfirlýsing um húsnæðismál: Fréttamannafundur á vegum húsnæðishópsins, forsvarsmanna félagasamtaka, stéttarfélaga, sveitarfélaga, haldinn í félagsheimili Sjálfsbjargar þriðjudaginn 25. apríl 1989 klukkan 14.`` --- Sama daginn sem mín samtök skrifuðu hæstv. ráðherra bréfið.
    ,,Þann 10. mars 1988 héldu ofangreindir aðilar fund á þessum stað þar sem mótmælt var niðurskurði og seinagangi í húsnæðiskerfinu og þeirri vanrækslu sem félagslega húsnæðiskerfið bjó þá við. Nú rúmu ári síðar hefur engin
breyting orðið á nema síður sé. Ástandið í stuttu máli er þannig:
    1. Á árinu 1988 var gert ráð fyrir lánum úr Byggingarsjóði verkamanna að upphæð 2 milljarðar 338 millj. kr. Útlán urðu hins vegar 1 milljarður 869 millj. kr. eða 460 millj. kr. minni en gert var ráð fyrir, eða samdráttur um 20%. Fyrir þá upphæð hefði verið hægt að byggja 100 íbúðum meira. Áætluð lán úr Byggingarsjóði ríkisins voru 5 milljarðar 853 millj. kr. og útlán reyndust 5 milljarðar 858 millj. kr. eða aukning um 5 millj. kr. Áætlun og útlán stóðust því þar nánast á. Minnkunin er sem sagt öll í félagslega kerfinu.
    2. Ekki hafa enn verið afgreiddar umsóknir um lán til félagslegra íbúða af ýmsu tagi fyrir þetta ár, umsóknir sem lagðar voru inn fyrir 1. ágúst 1988 og venju samkvæmt hafa verið afgreiddar á haustmánuðum sama ár.

    3. Útlit er fyrir stórfelldan niðurskurð á fjármagni til félagslega húsnæðiskerfisins á þessu ári. Áætlun um fjármögnun hefur ekki enn verið gerð opinber þótt þriðjungur árs sé liðinn.
    4. Upplýst er að engin framkvæmdalán verða að óbreyttu veitt fyrr en í haust sem þýðir að framkvæmdir hefjast ekki fyrr en á árinu 1990 að einhverju marki.
    5. Íbúðarbyggingar á landsbyggðinni eru nánast lagðar af og mikill samdráttur og óvissa ríkir í byggingariðnaði en núverandi ríkisstjórn boðaði í stjórnarsáttmála að stórefla félagslegar íbúðarbyggingar utan Reykjavíkursvæðisins.
    6. Aldrei hafa legið fyrir fleiri óafgreiddar umsóknir um húsnæði en nú eða biðlistar verið lengri, hvort sem litið er til verkamannabústaða, sveitarfélaga, Búseta eða hjá samtökum öryrkja, námsmanna og aldraðra.
    7. Þrátt fyrir gefin loforð er enn ekki farið að endurskoða félagslega húsnæðiskerfið en stjórnvöld hafa marglýst því yfir sl. 5--6 ár að slík endurskoðun stæði fyrir dyrum.
    8. Ekki sér fyrir endann á erfiðleikum þess fólks sem fengið hefur greiðsluerfiðleikalán á undanförnum árum. Hjá mörgum virðist þetta vera vonlaus barátta.`` --- Og svo er haldið að leiðin út úr þessu sé að hækka vexti. Það muni leysa erfiðleika fólksins.
,,9. Endurteknar breytingar á húsnæðiskerfinu á undanförnum árum hafa leitt til vaxandi óstöðugleika og óvissu. Enn eru breytingar á döfinni með frv. um húsbréf en skiptar skoðanir eru um afleiðingar þess verði það að lögum.`` --- Hv. þm. hljóta að skilja hvað er sagt með þessari setningu. Það er ekki fögnuður.
    ,,Tillögur til úrbóta:
    1. Sjá þarf til þess að lánveitingar til félagslegra íbúðarbygginga verði ekki minni í ár en sem nemur áætlun ársins 1988 og nýbyggingar dragist ekki saman frá því sem orðið er. Því er sérstaklega beint til stjórna lífeyrissjóðanna að þriðjungur af framlagi sjóðanna til íbúðalánakerfisins renni til félagslegra íbúðabygginga.
    2. Þá þarf að gera áætlun til a.m.k. þriggja ára um tryggt fjármagn svo hægt sé að ljúka byggingu á 900--1000 íbúðum á ári í félagslega húsnæðiskerfinu og bæta um leið fyrir áratuga vanrækslu.
    Það hefur verið markmið stjórnvalda síðan 1974 að þriðjungur alls nýs húsnæðis ætti að vera í félagslega kerfinu eða um 500--600 íbúðir á ári. En reyndin hefur verið sú að aðeins 13,5% eða um 230 nýjar íbúðir voru í því kerfi.
    3. Skapa þarf víðtæka samstöðu um þetta átak þar sem ríkisvald, sveitarfélög, samtök launafólks, húsnæðissamvinnufélög og önnur samtök, svo sem öryrkja, námsmanna og aldraðra, leggjast á eitt til þess að komast út úr þeim ógöngum sem húsnæðiskerfið er nú komið í.
    4. Endurskoðun félagslega húsnæðiskerfisins verði hraðað, lög samræmd og kerfið verði gert mun skilvirkara en nú er. Haft verði sem nánast samráð við húsnæðishópinn um þessa endurskoðun og tillögur

liggi fyrir í haust. Þá sé þess vandlega gætt að allar breytingar sem ganga yfir í almenna húsnæðislánakerfið bitni ekki á félagslega kerfinu.``
    Ég sagði áðan að það hefði verið hæstv. félmrh. sem sannfærði mig um það að það væri óþarft að breyta þessu kerfi. Ég var upplýstur um að það mundu fara 10% af fé lífeyrissjóðanna, sem sagt 10% í húsbréfin og 45% í hitt kerfið, og að þessi 10% gerðu 1,6 milljarða. Í þeirri grg. sem fylgir frv. frá sjálfum sérfræðingunum segir að það muni þurfa 8--9 milljarða í kerfið. En hvað þýðir það? Þessi 55% gera þessa tölu. Og það er nú hálfbroslegt þegar gert er mikið úr því hvað eigi að gera í félagslegu íbúðunum núna því að eftir þessu bréfi að dæma sem er frá þessum hópum sem ég var að tala um, þá segja þeir í því að það séu 938 millj. kr. sem þurfi að fara í þetta kerfi á næstu tveimur árum ef það eigi að vera sama krónutala og var áætlað á árinu 1988 eða 338 millj. meira en þessar 600 millj., hinar margfrægu, nema. Og þar er ekki verið að tala um raungildi því þessi tala, ef hún er rétt, í þessu skjali þá er það ekki raungildið því þó að þessi tala mundi verða þá væri raungildið það minna sem verðbólgunni nemur.
    Hv. þm. Geir H. Haarde lagði spurningu fyrir mig sl. laugardag og spurði
hvað ég áliti um vaxtaþróunina á næstunni. Ég er enginn spámaður en ég hef fyrir mér hér töflu frá Seðlabankanum um vexti 1. maí sl. Þeir eru í bankakerfinu, raunvextirnir, allt upp í 9,25%, auglýstir vextir, allt frá 7,25% upp í 9,25%. Ríkisbankarnir eru með lægstu vextina en einkabankarnir eru með 8,75%, 9, einn 8,25%, 9,25% og 8,75% og sparisjóðirnir með líka. Þetta er nú vaxtalækkunin.
    Ég skal ekkert spá því hvað verður með markaðsvexti en ætli þeir sem eiga peninga, þeir sem hafa yfirráð yfir peningum, ætli þeir taki nú ekki eitthvert mið af því sem er í þessu kerfi? Og það er auðvitað algjörlega útilokað að fara út í húsbréfin nema að vextirnir lækki.
    Þessi ríkisstjórn kennir sig við jafnrétti og félagshyggju. Halda menn að þetta sé skref til þess að jafna í þjóðfélaginu? Það er sagt að með því að stytta lánin úr 40 eða 42 árum í 25 og hækka vextina sé verið að gera mönnum léttara fyrir. Nei, ég held að þeir sem ætla að styðja þetta frv. þurfi að athuga sinn gang svolítið betur. Ég ætla aðeins að minnast hér á nokkur atriði úr frv. sjálfu til þess að sýna enn betur hvers konar frv. er hér á ferðinni. Í b-lið 1. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1.--5. mgr. er húsnæðismálastjórn heimilt að skerða eða synja um lán ef umsækjandi á fyrir fleiri en eina íbúð. Einnig er húsnæðismálastjórn heimilt, þrátt fyrir ákvæði 12., 13., 14. og 48. gr. laga þessara, að skerða lán og breyta kjörum á lánum umsækjenda sem eiga fullnægjandi íbúðarhúsnæði, skuldlaust eða skuldlítið og stærra en 180 fermetra brúttó, að frádregnum bílskúr.`` Og svo kemur: ,,Sama gildir um þann sem á aðrar eignir sem meta má jafngildar að verðmæti.`` Hvað þýðir þetta á mannamáli? Útgerðarmaðurinn sem

á trillu, smábát, sem er metinn dálítið þó hann sé óseljanlegur, það er hægt að neita þessum manni um lán, eftir þessari kokkabók. Eða bóndi sem á 300--400 ær sem eru óseljanlegar með öllu, á að skerða hjá honum? Eða bifvélavirki sem á verkstæði og vélar á stað þar sem er erfitt að losna við eignir? Eftir þessu frv. er hægt jafnvel að neita þessu fólki um lán ef menn taka það bókstaflega sem hér stendur. Og þetta fer í gegnum hæstv. félmn. Ég sé að formaðurinn er hér aftan við mig. Ja, þvílíkt! Það er engu líkara en hv. 1. þm. Vesturl. muni hafa haft alveg rétt fyrir sér þar eins og í mörgu öðru. Að það líti út fyrir það að meira að segja nefndin hafi ekki lesið þetta frv.
    Ég ætla ekki að fara að halda hér langa ræðu. Það þjónar engum tilgangi. En ef menn lesa yfir þetta frv. og grg. þá hlýtur öllum að verða það ljóst sem eru læsir á annað borð og hafa einhvern skilning að það er verið að stíga skref í það að öll húsnæðislán á næstu árum verði með markaðsvöxtum. Það er stefnan. Þetta er bara skref. Og það undarlega hefur skeð að frjálshyggjuhópurinn í þinginu berst á móti frv. Hann berst á móti því. Hvers vegna? Vegna þess að þeim finnst skrefið allt of lítið. En hinir sem eru að reyna að telja fólki trú um að þeir séu á móti frjálshyggjunni, þeir, ja, ég vil segja, ætla að nauðga því hér í gegn. Ja, þvílíkt! Það er eiginlega eins og hv. þm. hafi misst áttaskyn.
    Ég hef einhvern tímann sagt, og líklega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að þó að þessi ríkisstjórn tæki ekki stór skref í réttlætisátt þá mundi ég þola það ef hún tæki skref til réttrar áttar. En ef minn skilningur er réttur þá er verið að stíga til gagnstæðrar áttar með þessu frv.
    Auðvitað var það meining okkar að gera tilraun til þess að gera breytingar á þessu frv. til þess að koma í veg fyrir slys. Ég kalla það slys ef Alþingi Íslendinga gerir ekki ráðstafanir til þess að það verði byggt fyrst og fremst úti á landi eins og heitið var. Ef íbúðir verða byggðar bara hér en þar ekki, þá heldur fólksstraumurinn áfram. Menn fjárfesta ekki hér nema ætla sér þá að flytja utan af landi. Og halda menn að þjóðin lifi á því að selja verðbréf, að mæla göturnar, að selja hver öðrum? Lifir hún á því? Nei. Hún lifir á framleiðslunni sem er úti á landi fyrst og fremst. Á landbúnaði. Ég hugsa að einhver brosi að því hér inni, a.m.k. gæti maður vænst þess eins og umræðan er, en það lifir á landbúnaði og á sjávarafla. Fyrst og fremst á þessu tvennu. Ég er hræddur um að það verði þröngt fyrir dyrum hjá ýmsum ef fólksstraumurinn heldur áfram. Hver á að fæða borgríkið ef landsbyggðin fer að verulegu leyti í eyði?
    Ég ætlaði mér að fara út í margt fleira. Ég sé ekki ástæðu samt til þess að gera það eftir þær miklu ræður sem hér hafa verið fluttar. Ég vil forðast endurtekningar. En það kann að vera ef reyna á að þræla þessu í gegn á móti vilja flestra þeirra sem til þekkja, fjölda af þingmönnum sem hafa þó líklega gengið undir það jarðarmen að koma þessu í gegn. Samt skal það í gegn. En ég öfunda þá ekki, hvorki hæstv. félmrh. eða aðra, að standa að því að þröngva

þessu hér í gegn. Og ég segi þetta vegna þess að mér finnst að ég sjái afleiðingarnar. Ég sá það á hæstv. ráðherra áðan þegar ég talaði um fjármagnið að hún brosti. En hvað er 55% ef 10% gefa 1,6 milljarða? Hvað er það?
    Mér er sagt af sumum sem stjórna lífeyrissjóðum að það hafi ekki verið reynt að semja um að fá meiri peninga en 55% og með samkomulagi muni það vera hægt.
En það þarf auðvitað ekki að tala við þá sem þekkja þessi mál hvort sem er í húsnæðismálastjórn eða annars staðar eða í stjórn lífeyrissjóðanna, það þarf ekki að tala við þá. Það þarf bara að fara eftir einhverju sem einhverjir við skrifborð hafa sett saman og eru með titilinn sérfræðingur. Það er nóg. Það er alveg nóg.
    Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu, en það kann að vera að ég bæti við þetta við 3. umr.