Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Benedikt Bogason:
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að hv. alþm. skuli hafa svo gífurlegan áhuga á húsnæðismálum umbjóðenda sinna að þeir skuli leggja á sig allt að þriggja tíma ræður, að vísu kaflaskipti á milli daga, til að tjá sig um þetta frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. lög nr. 109/1988. Hitt er ekki að sama skapi ánægjulegt hversu ósammála menn eru, ekki aðeins hv. alþm. heldur flestir sem um þetta hafa fjallað opinberlega, sérfræðingar, ráðgjafar, verkalýðsforingjar, atvinnurekendur, bankamenn, hagfræðingar, fasteignasalar og svo má lengi telja. Félmn. deildarinnar klofnaði í fjóra minni hluta. Meiri hluti er ekki fyrir hendi.
    Fyrsti minni hl., sjálfstæðisþingmennirnir Geir H. Haarde og Eggert Haukdal telja mikla óvissu ríkja um áhrif frv., vilja kanna málið betur og leggja því til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari athugunar og úrvinnslu.
    Það vill einnig 3. minni hl., hv. alþm., fyrrv. hæstv. félmrh., Alexander Stefánsson, en fella það ella.
    Annar minni hl., hv. alþm. Jón Sæmundur Sigurjónsson, Guðrún Helgadóttir og Jón Kristjánsson vilja samþykkja það með nokkrum orðalagsbreytingum, betra máli, betri íslensku og tveimur efnisbreytingum sem eru að heildarfjárhæðir séu háðar samþykki félmrh. og gildistakan verði 15. nóv. 1989 í stað 1. sept.
    Fjórði minni hl., hv. þm. Kvennalistans Kristín Einarsdóttir vill samþykkja frv. gegn ákveðnum skilyrðum um aukningu á framkvæmdafé í félagslega hluta íbúðakerfisins og að vextir af eldri lánum hækki ekki. Að þessu munu aðstandendur frv. hafa gengið, a.m.k. að verulegu leyti.
    Um núverandi kerfi sem tók gildi samkvæmt lögum 1. sept. 1986 og víðtæk samstaða tókst um er það að segja að það fullnægir engan veginn þeim væntingum sem menn höfðu um það í upphafi. Umsóknafjöldi fór langt fram úr því sem áætlað var og þótt nú á síðustu mánuðum hafi dregið verulega úr nýjum umsóknum virðist þetta kerfi ætla að leita sér jafnvægis með tveggja til þriggja ára bið eftir láni. Það gengur auðvitað ekki hér á Vesturlöndum.
    Auk þess að ganga til þess að ráðstafa 55% af þeirri tíund sem atvinnurekendur og launþegar leggja til hliðar í þvingaðan sparnað lífeyrissjóðanna, að taka þá peninga alla inn í húsnæðiskerfið, þýddi einfaldlega að hinn frjálsi fjármagnsmarkaður þrengdist svo gífurlega í einu vetfangi á uppgangstíma í þjóðfélaginu að raunvextir hækkuðu úr 5--6% upp í 8--10% á skömmum tíma. Það voru að vísu fleiri ástæður en þetta vó örugglega mjög þungt í þeim efnum. Þetta leiddi m.a. til þess að greiða varð niður af almannafé vexti húsnæðislánanna þannig að talsverður hluti þeirra sem sótt hafa um lán --- það munu um 18.000 umsóknir hafa borist frá því í september 1986 þangað til í febrúar á þessu ári --- var fremur að sækja um niðurgreidd lán en að leysa brýna

húsnæðisþörf. Og ef ekkert er að gert endar þetta auðvitað með ósköpum. Það þarf ekki meira mál um það.
    Það má því segja að allir séu sammála um að breytinga sé þörf en þetta frv. er því miður meingallað enda er svo að sjá að það sé samið að hluta til af gömlu matarskattsnefndinni, stórslysanefndinni í ráðuneytinu. Þótt um mjög hæfa menn sé að ræða að mörgu leyti virðist eitthvað skorta á jarðsamband við íslenska jörð, því miður.
    Borgfl. hefur látið húsnæðismálin mjög til sín taka sem og önnur velferðarmál fólksins í landinu því þegar eftir kosningar 1987 var hafist handa um að gera ítarlega athugun á stöðu og möguleikum til lausnar í húsnæðismálum okkar þar sem mjög var stuðst við reynslu nágrannaþjóða okkar sem um áratuga skeið hafa haft gott vald á þeim málum, fólk getað fengið lán með stuttum fyrirvara í samræmi við þarfir og getu.
    Þingmenn Borgfl., þeir Júlíus Sólnes og Guðmundur Ágústsson, fluttu á síðasta þingi frv. um húsnæðislánastofnanir eða húsbanka ásamt breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun. Það fékk auðvitað enga afgreiðslu frekar en flest þingmannafrv. hér á hinu háa Alþingi. Því var það endurflutt á yfirstandandi þingi. Og með leyfi hæstv. forseta ætla ég mér að lesa glefsur úr framsögu hv. þm. Júlíusar Sólnes frá 7. mars sl. þar sem fram kemur hvað felst í þessu frv. og ég tel að sé mjög gott að hafa í huga þegar einmitt er verið að ræða kosti og galla þessa frv. sem hér er til umræðu:
    ,,,,Flm. leggja því til að tekið verði upp tvöfalt húsnæðislánakerfi. Í fyrsta lagi sjái ríkið aðeins um lánveitingar til bygginga með félagsleg markmið og til þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Í þessu skyni verði Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna sameinaðir. Eru flm. að undirbúa frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins í þessu skyni. Þar segir um hlutverk hins sameinaða byggingarsjóðs ríkisins:
    ,,Úr Byggingarsjóði ríkisins er heimilt að veita lán til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði, til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á notuðu húsnæði, til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði og til orkusparandi breytinga á húsnæði sem hér segir:
    1. Íbúðir fyrir lágtekjufólk (verkamannabústaðir).
    2. Íbúðir fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð.
    3. Verndaðar íbúðir fyrir öryrkja.
    4. Verndaðar íbúðir fyrir aldraða.
    5. Leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka.
    Úr Byggingarsjóði ríkisins er enn fremur heimilt að veita lán til byggingar eða kaupa á húsnæði fyrir félagslegar stofnanir á vegum opinberra aðila og félagasamtaka svo sem dagvistarstofnanir fyrir börn og aldraða, hjúkrunarheimili og dvalarheimili.``
    Þetta leiðir af sér að hlutverk Húsnæðisstofnunar ríkisins verður aðallega að annast lánveitingar,

hugsanlega með niðurgreiddum vöxtum eða sérstökum skattaívilnunum, til 1) íbúða fyrir lágtekjufólk (verkamannabústaða), 2) þeirra sem eru að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð, 3) til byggingar leiguíbúða í samvinnu við sveitarfélög, félagasamtök og hagsmunasamtök launþega, 4) til byggingar verndaðra íbúða fyrir aldraða og öryrkja, 5) til að takast á við sérstök verkefni félagslegs, tæknilegs og fjárhagslegs eðlis.
    Samkvæmt þeim upplýsingum, sem flm. hafa fengið, munu þeir sem þannig ættu rétt á húsnæðislánum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins vera tæplega 40% af þeim sem sækjast eftir lánum til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði hverju sinni. Ljóst er að mun auðveldara verður fyrir Húsnæðisstofnun að sinna þörfum þessa takmarkaða hóps.``
    Þetta er kannski aðalkjarninn í þessum tillögum okkar, að gera ríkinu auðveldara að sinna þessu meginhlutverki sínu sem er að sjá um hinn félagslega þátt íbúðakerfisins en að láta almenna kerfið öðrum eftir. Það má rifja það upp að fyrir allmörgum árum sáu lífeyrissjóðirnir um lán til þeirra sem voru að byggja eða kaupa sér íbúðir og þá var um það að ræða að menn gátu bæði sótt til Húsnæðisstofnunar um húsnæðismálalán, sem þá voru svo kölluð, og síðan fengu menn yfirleitt lífeyrissjóðslán þar til viðbótar. En við teljum að með því að samþykkja þetta frv. sé skapaður lagarammi til þess að hægt sé að koma á fót sérstökum húsnæðislánastofnunum, en við hugsum okkur þær þannig að fyrst og fremst lífeyrissjóðirnir, tryggingafélög og bankar geti sameinast um það að koma upp slíkum stofnunum sem taki að sér að sjá um og veita húsnæðislán til allra þeirra sem standa traustum fótum í kerfinu, þ.e. þeir sem þurfa ekki á félagslegri aðstoð að halda og eiga auðvelt með að standa undir lánum með markaðsvöxtum t.d.
    Eins og húsnæðiskerfið er nú rekið þá eiga allir sem greiða í lífeyrissjóði rétt á húsnæðislánum og það hefur auðvitað orðið til þess að þrýstingur á kerfið er geysilegur, það hafa myndast langar biðraðir og þjóðin er komin á algert fjárfestingarfyllerí í húsnæðismálum. Þannig er fyrirhugað að verja 14 milljörðum kr. í húsnæðislán á árinu 1989. Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar hyggjast aðspurðir, 2 / 3 hlutar allra íbúa höfuðborgarsvæðisins, byggja yfir sig á næstu árum. Það sér hver heilvita maður að það er ekki heil brú í þessu kerfi. ...
    Húsbréfin eru þannig hugsuð af hálfu þeirra sem hafa skipulagt á sínum tíma húsnæðislánastofnanir að fyrir það fyrsta verði að ríkja mikið gagnkvæmt traust milli þeirra sem gefa út húsbréf og þeirra sem kaupa þau. Og það verður ekki gert með öðrum hætti en þeim að húsnæðislánastofnanir, sem fá heimild til þess að gefa út húsbréf til sölu á almennum markaði, verða að vera settar undir mjög ströng lagaákvæði þannig að það verði mjög strangt eftirlit og aðhald með starfsemi þeirra. Þær verða að fá nánast svipaða stöðu og bankar í peningakerfinu þannig að almenningur geti

treyst þessum stofnunum á sama hátt og almenningur treystir sterkustu bönkum landsins. Þarna gegnir eftirlitshlutverk félmrh. miklu hlutverki og vegur þungt í lagasetningunni til þess einmitt að treysta þetta öryggi sem verður að vera á bak við útgáfu húsbréfanna.
    Annað meginatriði sem gildir um útgáfu húsbréfanna er það að stofnunin sem gefur út húsbréfin verður alla tíð að hafa örugg veð á bak við húsbréfin og það gerist með þeim hætti einum saman að stofnunin verður sjálf að rannsaka veðhæfni þeirra íbúða og þeirra fasteigna sem hún ætlar að veita lán út á og það verður ávallt að ríkja jöfnuður á milli þeirra húsbréfa sem eru í umferð hverju sinni og þeirra veðskuldabréfa sem stofnunin hefur með höndum og undirrituð eru af lántakendum sem hafa fengið lán hjá stofnuninni. ...
    Við flm. bendum á það í grg. með þessu frv. að það er mikil þörf fyrir að endurskipuleggja sjálft lánsformið og líta betur á lánskjörin. Frá því að lánskjaravísitölulánin voru tekin upp hafa menn lokast inni í þeim farvegi og einblínt á hann og ekki séð neitt annað. Það er hins vegar hægt að hugsa sér húsnæðislánamál með allt öðru formi og á allt öðrum grundvelli og það a.m.k. er mjög einkennilegt að sjá hvert lagafrv. á fætur öðru sett fram hér af hálfu stjórnarflokkanna þar sem í nánast hverju einasta frv. er gert ráð fyrir lánskjaravísitölubindingu á ýmsum fjárhæðum sem koma fram í frv. þegar í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að afnema lánskjaravísitölu strax og efnahagsástandið í þjóðfélaginu sé orðið viðunandi.
En með þessum lagafrv. er hins vegar verið að binda lánskjaravísitöluna um aldur og ævi vegna þess að lagahreinsunin sem þyrfti að fara fram ef lánskjaravísitala yrði nokkurn tíma afnumin er svo viðamikil að ég sé ekki annað en það þyrfti heilt þing til þess eins að hreinsa lánskjaravísitölu út úr öllum mögulegum lögum sem hér hafa verið sett upp á síðkastið.
    Ég tel að það sé alveg ljóst að í félagslega kerfinu eigi að vera með niðurgreidda vexti. Í þeim hugmyndum sem komu fram í milliþinganefndinni sem ég gerði miklar athugasemdir við er hins vegar lagt til að það verði farið upp í markaðsvexti með öll húsnæðislán, hvort sem um er að ræða húsnæðislán á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins eða annarra, og síðan verði farið út í vaxtabætur. Þá á að fara eina ferðina enn að rannsaka hagi fólks, telja börnin og kanna tekjurnar og húsnæðið og síðan á að senda tékk einhvern tíma um mitt ár, einhverjar vaxtabætur vegna þeirra vaxta sem fólkið hafði greitt af húsnæðislánum. Fyrir höfum við barnabætur og við höfðum reyndar húsnæðisbætur og örorkubætur, ... Miklu nær væri að þegar þetta tvöfalda húsnæðiskerfi væri komið á legg þannig að félagslegi þátturinn væri hjá ríkinu þá væri hreinlega um að ræða niðurgreidda vexti. Það er langeðlilegast, þannig að fólk viti bara fyrir fram að hverju það gengur. En hjá hinum sem taka lán hjá almennum húsnæðislánastofnunum með fullum

markaðsvöxtum verði heimilaður vaxtafrádráttur frá skattskýrslu sem þannig komi ekki til skattlagningar.
    Það er aðeins eitt dæmi enn sem má nefna um húsbréfin, en það er í sambandi við hvernig í ósköpunum ætla menn að reikna vaxtabætur af húsbréfum þegar þau verða seld með afföllum t.d.? Hvernig á að meta afföllin sem verða á húsbréfunum og hvernig á að reikna það inn í vaxtabæturnar? ...
    Að lokum langar mig rétt til að koma inn á það sem vikið er að í grg. með frv. en það eru hugmyndir um lán með afkomutryggingu. Við komum þar inn á mjög athyglisverðar og nýstárlegar hugmyndir um það með hvaða hætti er hægt að koma í veg fyrir að lántakendur komist í greiðsluþrot vegna skyndilegrar rýrnunar tekna, t.d. vegna makamissis þegar um er að ræða að tveir afla teknanna, vegna langvarandi atvinnuleysis, vegna veikinda og svo margs annars sem getur komið fyrir þannig að tekjur heimilisins lækki. Lán með afkomutryggingu hafa tíðkast sérstaklega í Bandaríkjunum, en þá er í samvinnu við tryggingafélög sett afkomutrygging á lánið þannig að ef tekjur heimilisins lækka vegna sérstakra aðstæðna eins og ég var að nefna, veikinda eða af einhverjum öðrum orsökum, þá greiðir tryggingafélagið mismuninn á greiðslubyrðinni og greiðslugetu viðkomandi.``
    Þar með hef ég lokið að lesa hér glefsur um þetta frv.
    Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar að þetta var kannski dálítið langt en ég tel að þarna höfum við einmitt náð talsvert langt á þeirri leið sem ég held að við hljótum að fara hér á Íslandi og sem aðstandendur þessa frv. sem hér er til umræðu hafa kannski lesið lauslega yfir og eru að reyna að taka grunnhugmyndina frá, en misskilja það greinilega svo hrapallega að þeir ná ekki þessum mismun sem er á því hvort hinn almenni markaður sjái um að fullnægja lánum til þeirra sem eðlilega eiga að greiða venjulega markaðsvexti í þjóðfélaginu eða hinna sem þjóðfélagið vill og þarf að aðstoða til þess að styrkja þá sem þjóðfélagsþegna í þessu þjóðfélagi, hvort sem um er að ræða félagslega erfiðleika eða af því að verið er að byggja fyrstu íbúð. Það gilti þegar ég var að byggja og það gildir enn að það er langerfiðast að eignast fyrstu íbúðina þó lítil sé. Eftirleikurinn, að stækka við sig eða breyta, hefur alltaf verið miklu auðveldari ef farið er að með gát.
    En það er fróðlegt í stuttu máli að velta fyrir sér hver er aðalmunurinn á frv. hæstv. félmrh. og frv. því sem Borgfl. hefur lagt fram og hefur verið að berjast fyrir. Það er kannski meginmálið að í frv. félmrh. sem hér er til umræðu á hreinlega að ríkistryggja öll fasteignabréf, hvorki meira né minna, á þeim tíma sem stefnan hjá öllum stjórnmálaflokkum er sú að hverfa meira og meira frá ríkisforsjá, frá ríkistryggingu, frá ríkisábyrgð og þróa slíkt inn á dreifða ábyrgð markaðarins. Þá kemur það allt í einu eins og skrattinn úr sauðarleggnum að það á hreinlega að ríkistryggja öll fasteignabréf.
    Borgfl. vill að Húsnæðisstofnun eða einstakir

húsbankar í eigu lífeyrissjóða, banka eða tryggingafélaga gefi út og selji skuldabréf í seríum og láti það samsvara þeim lánum sem sótt er um þannig að það geti myndast jafnvægi á markaðnum. Þegar mikil eftirspurn er eftir bréfum, þá er hægt að byggja meira og draga þá saman seglin. Í samráði við Seðlabanka er hægt að hafa áhrif á þróunina. Þarna gæti líka Húsnæðisstofnun ríkisins með eftirliti félmrh. haft sín áhrif með tilliti til heildarstöðunnar á húsnæðismarkaðnum. Það er eitt atriði sem virðist ekki hafa komið fram hér í umræðunum, flest annað hefur nú komið fram í þessum löngu umræðum, og það er þessi þróun sem hefur orðið. Við höfum verið að byggja hér upp yfir okkur í 40--50 ár aðallega og í fyrra munu hafa verið um 87--88 þúsund íbúðir hér á landi, að meðaltali 120 fermetrar á stærð, þ.e. í dag eru um 40 fermetrar á hvern Íslending í íbúðarhúsnæði. Þá förum við að nálgast einmitt það stig sem náðist á 8. áratugnum í Svíþjóð, að það varð skyndilega mettun á markaðnum. Sænsk
byggingarfélög voru mjög þróuð. Þau héldu áfram að byggja, byggja og byggja og allt í einu stóðu þau andspænis því að það voru heilu hverfin sem stóðu auð vegna þess að þeir voru búnir að byggja of mikið.
    Við vitum það að þörfin er talsvert mikil hér og það þarf sérstaklega að fylla í ýmis göt, t.d. úti um landið og í félagslega þættinum. Hér vantar algjörlega að stuðla að heilbrigðum leigumarkaði þannig að fólk sé ekki alveg háð því að demba sér beint út í húsbyggingar um leið og það kemur út á atvinnumarkaðinn, það eigi kost á að taka sér húsnæði á leigu um tíma meðan það er að búa sig undir að stíga skrefið til þess að eignast húsnæði og geti þá í rólegheitum undirbúið sig og reiknað sín mál fram í tímann. Og þá er náttúrlega um að gera að við séum komnir á það stig að það sé komið eitthvert jafnvægi í þessum málum, að ekki sé verið að breyta þessum lögum annað hvert ár eða á hverju ári. Fyrir venjulegt fólk tekur nokkur ár að eignast þó ekki sé nema litla íbúð, það tekur 5--6 ár minnst frá því að farið er að hugsa um þetta og þangað til afborganir eru komnar í jafnvægi, allt upp í 10 ár.
    Það er alltaf verið að tala um að mín kynslóð hafi fengið húsnæði sitt ókeypis af því að það voru neikvæðir vextir oft og tíðum þá. En það er ekki rétt. Við þurftum að puða. Þetta var talið svona á við meðalháskólanám, 6--7 ára puð að eignast fyrstu íbúð. Það var nú bara þannig. Menn voru í því og gerðu lítið annað á meðan og margir keyrðu sig illa um koll í því puði. En það er eins og okkur gangi illa að ná þessu jafnvægi. Aðalatriðið er náttúrlega að hafa jafnvægi, að við finnum út kerfi sem er dálítið stöðugt, ekki kannski fullkomið en það sé ekki alltaf verið að breyta þannig að menn geti gengið að hlutunum með nokkurri vissu, þ.e. að hið opinbera umhverfi breytist ekki í miðjum klíðum. Við sáum hvernig þetta var 1983. Fólk sem hafði byggt eða keypt sér íbúð, launafólk 1979--1980, og lenti svo í þessu misvægi 1983 þegar það var kannski í miðjum

klíðum að reyna að borga sig út úr lausaskuldunum, það lenti í því hreinlga að það fjaraði þannig undan því að það missti allt sem það átti og sat eftir með skuldir. Ég veit nokkur slík dæmi.
    Hæstv. forseti. Mér áskotnaðist í dag álitsgerð frá títtnefndum Jóhanni Rúnari Björgvinssyni þjóðhagfræðingi sem mun vinna hjá Þjóðhagsstofnun og hefur skrifað mjög skiljanlega og skynsamlega um þessi húsnæðismál og sérstaklega á eðlilegri íslensku sem auðvelt er að skilja, hefur ekki falið sig bak við neitt stofnanamál heldur talað skýrt út eins og sem betur fer sumir geta. Og með leyfi forseta ætla ég að lesa þessa álitsgerð sem mér finnst skipta verulegu máli í sambandi við það þegar verið er að meta þá áhættu sem gæti falist í því ef þetta frv. fer í gang 15. nóv. nk. eins og það liggur fyrir núna óbreytt.
    ,,Hver er munurinn á húsbréfum og spariskírteinum? Ef litið er á eiginleika þessara bréfa, þá er munurinn sáralítill. Þau eru bæði ríkistryggð og stöðluð. Húsbréfin eru að vísu til 25 ára en spariskírteinin til mun skemmri tíma. Þó er líklegt að húsbréfin verði almennari, verðgildi þeirra þekktara og markaður þeirra virkari. En það er ekki eiginleiki þessara bréfa sem gera þau frábrugðin heldur það hvernig þau eru notuð eða hvernig þau koma inn á markaðinn.
    Ríkissjóður selur sparifjáreigendum spariskírteini fyrir peninga sem hann síðan notar til greiðslu á útgjöldum sínum. Ef ríkissjóður seldi sparifjáreigendum húsbréf fyrir peninga sem hann síðan lánaði fasteignakaupendum væri munurinn á þessum bréfum enn þá sáralítill. En ríkissjóður hefur ekki í hyggju að selja húsbréf fyrir peninga heldur fyrir veðskuldabréf. Hér er um grundvallarmun að ræða.
    Hugsunin er sú að handhafi húsbréfa geti síðan gert eitt af þrennu [sbr. húsbréfafrv. sem hér er til umræðu]:
    1. Átt bréfin sem hvern annan öruggan sparnað.
    2. Látið þau ganga upp í næstu íbúðakaup sín.
    3. Innleyst bréfin á markaði.
    Til þess að húsbréfin geti sinnt því hlutverki sem felst í lið 2, þá þarf í fyrsta lagi verðgildi þeirra að vera þekkt og er því gert ráð fyrir því að þau verði ætíð skráð opinberlega.
    Í öðru lagi verður að vera virkur markaður fyrir slík bréf svo seljendur fasteigna samþykki þau sem greiðsluform. Því er gert ráð fyrir að Seðlabankinn gegni veigamiklu hlutverki viðskiptavaka á þeim markaði til að auka virkni hans og grípi inn í ef verulegt misræmi skapast, svo sem ef afföllin aukast verulega.
    Hugsum okkur nú ef ríkissjóður léti spariskírteini sín koma með svipuðum hætti inn á markaðinn og húsbréfin, þ.e. í stað þess að ríkissjóður reyndi að selja spariskírteini á opnum markaði fyrir peninga, eins og hann gerir nú með misgóðum árangri, þá greiddi hann hluta af útgjöldum sínum, svo sem fjárfestingarútgjöldin, beint með spariskírteinum. Jafnframt auglýsti hann að viðtakandi gæti gert eitt af

þrennu: átt bréfin sem hvern annan öruggan sparnað, látið þau ganga upp í einhver viðskipti sín eða innleyst bréfin á markaði. Ríkssjóður tryggði síðan að ávallt væri virkur markaður fyrir
spariskírteinin, að verðgildi þeirra væri ætíð skráð opinberlega og að Seðlabankinn hefði hlutverk viðskiptavaka og kæmi í veg fyrir að verulegt misræmi skapaðist á markaðnum, svo sem óeðlileg afföll. Með þessu móti þyrfti ríkissjóður hvorki að yfirdraga Seðlabankann né taka erlend lán. En hver yrðu áhrifin:
    1. Ef handhafi bréfanna geymdi bréfin eins og hvern annan sparnað eða innleysti á markaði miðað við hóflegt framboð þar sem þau væru keypt sem sparnaðarform yrðu áhrifin svipuð og ef ríkissjóður hefði sjálfur selt þau á opnum markaði fyrir peninga. Áhrifin yrðu áþekk og við núverandi fyrirkomulag.
    2. Ef handhafi bréfanna léti þau hins vegar ganga upp í önnur viðskipti sín hefðu þau öðlast hlutverk peninga og kæmu því í stað hlutverks annarra peninga og yrðu því viðbót við peningamagnið. Áhrifin yrðu aukin verðbólga.
    3. Að síðustu á ríkissjóður í mun minni erfiðleikum með að losa sig við spariskírteini sín með þessum hætti. Miklar líkur eru á því að um offramboð spariskírteina verði að ræða því að engin ríkisstjórn getur staðist þá freistingu sem þetta fyrirkomulag býður upp á. Sömuleiðis hefur ríkissjóður litla hvatningu til að stilla útgáfu spariskírteinanna í hóf, m.a. vegna þess að með þessu móti dregur úr þörf fyrir óvinsæla skattheimtu og erlendar lántökur.
    Áhrifin verða í fyrsta lagi hærri vextir þar sem offramboð bréfanna veldur því að erfiðara verður fyrir handhafa þeirra að losna við þau nema með einhverjum afföllum. Þá þarf Seðlabankinn að grípa inn í starfsemi markaðarins með kaupum á bréfum ef verulegt misræmi skapast, en hann kaupir bréfin fyrir peninga. Líkur eru því á í öðru lagi að peningamagnið aukist og verðbólga magnist.
    Ríkissjóður getur því í raun og veru með þessu fyrirkomulagi yfirdregið Seðlabankann að vild með óbeinum hætti. Af þessu má ráða að húsbréf sem seld eru á opnum markaði fyrir peninga sem síðan eru lánaðir til fasteignakaupenda eru önnur húsbréf en þau sem seld eru fyrir veðskuldabréf. Hér er um grundvallarmun að ræða í hagfræðilegu og efnahagslegu tilliti.``
    Þarna felst munurinn á þessum tveimur frv., annars vegar frv. okkar borgaraflokksmanna og hins vegar þessu frv. hér sem miðast við að það sé skipt á skuldabréfum. Og það er sá grundvallarmunur sem gerir gæfumuninn hvort hér er um mikla áhættu að ræða eða hvort hér er hægt að stýra með sæmilegri farsæld.
    Að lokum ætla ég, með leyfi forseta, að lesa lokaorðin í þessari álitsgerð frá Jóhanni Rúnari Björgvinssyni þjóðhagfræðingi:
    ,,Að lokum tel ég það skynsemdarmál í ljósi þeirrar umræðu og óvissu sem skapast hefur um áhrif húsbréfakerfis á efnahagslífið að vel menntuðum

erlendum hagfræðingum eða efnahagsstofnunum verði falið að leggja fræðilegt mat á efnahagsleg áhrif þessa frv. Hér er einungis um fræðilegt og tæknilegt álitamál að ræða þannig að kringumstæður skipta engu máli, þ.e. að ekki þarf að setja sig inn í íslenskar aðstæður. Slíkt mat ætti ekki að taka langan tíma. Þar sem hér er um að ræða mjög afdrifaríkt mál sem getur orðið afar kostnaðarsamt fyrir þjóðarbúið væri ekki óskynsamlegt að leita til þekktari fagmanna en annars. Eitt er víst að við státum ekki af mörgum afrekum í hagstjórnarlistinni.``
    Virðulegi forseti. Ekki má gleyma þeim sem borga eiga brúsann. Hætt er við að margir mundu freistast til að kaupa sér íbúð miðað við núverandi þokkalega stöðu en vera að axla byrðar til 25 ára, 40--50 þús. kr. á mánuði í afborganir og vexti af þessum húsbréfum sem mundi geta fylgt eðlilegum kaupum á 4--5 herbergja íbúð miðað við að eiga litla íbúð fyrir. Eitthvað gæti farið úrskeiðis hjá honum. Og hvað þá með hina efnahagslegu umgjörð í þjóðfélaginu? Erum við lausir við verðbólguna? Getur endurtekið sig slysið frá 1983--1985 þegar þetta mikla misvægi var milli launa og lánakostnaðar? Ég endurtek: Er það ekki allra manna mál, allra flokka mál, hvort sem við erum langt til vinstri eða langt til hægri, að við viljum hverfa frá ríkisafskiptum, við viljum hverfa frá ríkisábyrgð? Það eru allir sammála um það. Af hverju þá að vera allt í einu að stíga þetta stóra skref að ríkistryggja öll fasteignaviðskipti? Það er alveg óskiljanleg yfirsjón hjá þessum blessuðu ráðgjöfum, að hafa teygt sig svo í þessa átt án þess að huga að einhverri yfirsýn.
    Það er ekki sjáanlegt í dag að fram hafi komið þær röksemdir að samþykkt þessa frv. geti leitt til lausnar sem ekki er dæmd til að mistakast. Því er eðlilegt að gefa sér tíma í sumar til að endurskoða þessi mál frá grunni. Tillaga sú sem Borgfl. hefur lagt fram fengi þá væntanlega milli þinga þá ítarlegu skoðun, en ég og við borgaraflokksmenn erum einmitt þeirrar skoðunar að í þeim tillögum felist sú lausn sem við eigum að ganga til og getur veitt okkur jafnvægi og farsæld í þessum málum. Ég þakka fyrir.