Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að hér eiga menn að tala hreint og skýrt. Ég held það sé farsælast fyrir þjóðina og í byrjun langar mig til þess að segja það að ekki efast ég um að góður vilji er á ferðinni hjá hæstv. félmrh. með frv., en ég er hræddur um að frv. eins og það er þurfi frekari umfjöllun áður en það getur orðið að lögum.
    Það er gott markmið að lána fólki 70%, sérstaklega ungu fólki sem er að byggja í fyrsta sinn. Það verður hins vegar líka að vera hægt að gera á þann hátt að ekki sé verið að lána fólki snöru um hálsinn vegna þess að þenslan í efnahagslífinu má ekki verða slík í gegnum húsnæðiskerfið að viðkomandi húsbyggjendur dingli í einhverri snöru. Það er ekki verið að gera fólki gott með því að búa til svoleiðis kerfi. Þess vegna er öll varkárni í sambandi við þetta nauðsynleg. Til að byrja með langar mig til að vitna aðeins í núgildandi lög, með leyfi hæstv. forseta. Það er í 9. gr. laganna í sambandi við fjármögnun, um það hvernig Húsnæðisstofnun aflar sér fjár, m.a. með sölu skuldabréfa til lífeyrissjóða samkvæmt samningum Húsnæðisstofnunar við lífeyrissjóði, svo og með öðrum lántökum samkvæmt nánari ákvörðun í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hverju sinni. Fjárfestingar- og lánfjáráætlun er ekkert ákvörðunarplagg. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er fylgiskjal með fjárlagafrv. Ég skil ekki hvað svona texti á að þýða. Ég verð að fara fram á það við hæstv. forseta að þingmenn fái útskýringu á þessu. ,,Samkvæmt nánari ákvörðun í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun.`` Hvað þýðir það orðalag? Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er ekkert ákvörðunarplagg. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er fylgiskjal með fjárlagafrv. Ef hér er átt við lánsfjáráætlun hins vegar, lánsfjárlög, þá er þetta ekkert bara á lánsfjárlögum. Hér þarf því aðeins að skoða mál betur.
    Svo er í 1. gr. frv. sem hér liggur fyrir eftirfarandi texti, með leyfi forseta:
    ,,Lífeyrissjóðunum er heimilt að fullnægja samningsbundnum skuldabréfakaupum af Húsnæðisstofnun ríkisins að hluta með húsbréfum, sbr. IV. kafla laganna um húsbréfakaup. --- Í reglugerð skal í samráði við lífeyrissjóðina setja nánari ákvæði um skiptingu skuldabréfakaupanna til tveggja ára í senn.``
    Mér er spurn: Hvernig er hægt að fullnægja samningsbundnum skuldabréfakaupum af húsnæðismálastjórn að hluta með húsbréfum? Eiga lífeyrissjóðirnir að fara að kaupa skuldabréf og borga með húsbréfum? Ætlar Húsnæðisstofnun sjálf að fara að kaupa húsbréf aftur? Ég næ nú ekki upp í svona meiningar.
    En spurningin er þessi í sambandi við svona opinberar stofnanir eins og Húsnæðisstofnun, þær eru sjálfsagt ágætar til síns brúks, en eiga þær að ganga algjörlega sjálfala? Á ekki Alþingi að marka stefnuna hverju sinni í gegnum lánsfjárlög, hversu miklir fjármunir fari til húsnæðismála? Ég held að það hljóti að eiga að vera þannig. Mér er það alveg óskiljanlegt

ef lánastofnanir í húsnæðismálum eiga að fara að ganga sjálfala. Hvernig á þá að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar ef hver stofnunin á fætur annarri fer að ganga bara sjálfala? Þá er ekki lengur hægt að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar. Svona lagað getur varla gengið upp.
    Það er gert ráð fyrir að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í ár verði 17,3 milljarðar. Samkvæmt því eru 55% 9,5 milljarðar. Á næsta ári verði heildarráðstöfunarfé 19,9 milljarðar og ráðstöfunarfé, 55%, 10,9 milljarðar. Og 1991 er heildarráðstöfunarfé áætlað 23,6 milljarðar og 55% af því eru því 12,9 eða tæpir 13 milljarðar. Hvar er heildarstefnan í peningamálum við hliðina á þessum markmiðum um að Húsnæðisstofnun ráðstafi svona miklu fjármagni? Og hvaða áhrif hefur þessi ráðstöfun á verðbólguna og þensluna í landinu? Hvaða áhrif hefur þetta síðan á vexti almennt og atvinnulífið? Eins og á stendur á þeim bæ núna er mjög erfitt hjá atvinnulífinu. Það er ósköp fallegt að leggja fram svona frumvörp um að allir skuli búa í fínu og flottu og nóg sé til af peningum, en verður ekki að skoða þessi mál í heilu lagi? Ég held að það þurfi að gera.
    Og mér er spurn hvernig raunverulega sé hægt að semja svona frv. án þess að Seðlabanki Íslands sé hafður með í ráðum. Það kemur hér fram í nál. frá 2. minni hl. félmn. að borist hafi umsagnir frá 16 aðilum og þar á meðal frá Seðlabanka Íslands. Ég fór og leitaði að þessu og þetta er ekki til. Það er engin athugun frá Seðlabanka Íslands, engin umsögn um frv. frá Seðlabanka Íslands, enda kemur það fram í nál. 3. minni hl. Frv. fylgir engin greinargerð um áhrif húsbréfanna á fjármagnsmarkaðinn og upplýst var í nefndinni að Seðlabankinn hefur við undirbúning málsins aldrei verið beðinn um neina greinargerð um áhrif húsbréfakerfis á peningamagn og peningastjórn. Halda menn að þetta séu nú vinnubrögð?
    Í framhaldi af þessu ætla ég að leyfa mér að lesa hérna upp úr lögum um Seðlabankann, með leyfi forseta:
    ,,Hlutverk Seðlabankans er:
    1. að annast seðlaútgáfu og láta gefa út mynt og vinna að því, að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það, að verðlag
haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.``
    Og 4. liður þessara meginmarkmiða Seðlabankans er að ,,vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt, er varðar gjaldeyris- og peningamál``. Hvernig er hægt að semja svona frv. án þess að hafa talað við Seðlabankann?
    Og 4. gr. hljóðar svo:
    ,,Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstjórnina og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar.`` Varðar húsbréfafrv. ekki stefnu í efnahagsmálum? Mér sýnist hér vera á ferðinni meiri háttar mistök varðandi samningu frv. Það er alveg gjörsamlega útilokað að Alþingi Íslendinga geti tekið afstöðu til svona frv. þegar staðið hefur verið að

samningu frv. með þessum hætti.
    Það kemur hins vegar fram að á nefndarfund hafi komið tveir fulltrúar frá Seðlabankanum, á fund. Ég veit ekkert hvað hefur skeð þar, en það alla vega fullnægir ekki þessum ákvæðum laga, að meginhlutverk bankans sé að fylgjast með þessu og vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt sem varðar gjaldeyris- og peningamál, þar á meðal auðvitað húsbréfakerfi og Húsnæðisstofnun og stefnu í peningamálum almennt. Skyldi nú engan fara að undra þó að allt sé í klúðri í peningamálum í íslensku þjóðfélagi ef vinnubrögðin eru svona víða. Það eru auðvitað hagsmunir fólksins í landinu að fá lánað fjármagn til þess að geta byggt sér hús, en það eru ekki hagsmunir fólks að fá það gert með þeim hætti að það fái lánaða snöru í leiðinni og dingli síðan í öllu saman vegna allt of mikillar þenslu og vaxta. Það er aldeilis fráleitt. Óvönduð vinnubrögð í sambandi við svona mál þýða auðvitað það að fólkið fær, án þess að hafa hugmynd um það, snöru með láninu. Og þá á ég við það að þetta er verðtryggt og verðbólgan æðir áfram og fólk lendir í vanskilum eins og gerst hefur. Það eru ekki hagsmunir fólksins í landinu að verið sé með nein yfirboð í þessum efnum. Það er langt frá því.
    Svo finnst mér stór spurning í sambandi við ríkisábyrgðina á þessum húsbréfum eins og hugmyndir eru um það að hafa það: Getur Alþingi Íslendinga framselt leyfi handa opinberum stofnunum til að gefa út ríkisábyrgðir? Mér er spurn. Það hafa verið flutt frv. um ríkisábyrgðir í einstökum neyðartilvikum, t.d. á Arnarflugi eða Flugleiðum. En er hægt að gefa út bara eitthvert framsal handa opinberri stofnun sem á að gefa út ríkisábyrgð á húsbréf? Ég hefði nú gjarnan viljað fá að sjá einhvers konar skýrslu um þetta áður en ég hefði talið að Alþingi gæti tekið ákvörðun í svona máli, það sé alveg klárt að eitthvað þurfi að skoða þar betur.
    Svo er hér samkomulag við Kvennalistann þar sem kemur fram að það verði 600 millj. kr. raunaukning á framkvæmdafé til félagslega hluta íbúðakerfisins. Ég er nú hræddur um að ef blessaðar konurnar í Kvennalistanum halda að þetta sé samkomulag sem sé í gildi, þá hafi þær látið plata sig vegna þess að ég tel alveg fráleitt að framkvæmdarvaldið eða einhverjir menn geti samið við þær um hluti sem er raunverulega Alþingis að semja um. Alþingi ákveður það á næstu fjárlögum. Það getur enginn samið um það núna einhvers staðar úti í horni hvað mikið skuli vera gert á næstu fjárlögum, þannig að þetta er náttúrlega bara opið í báða enda, alla enda.
    Mér sýnist á þessu að Alþingi verði með einhverjum hætti að reyna að auka sjálfstæði sitt í vinnubrögðum og reyna að láta nefndir þingsins fara að starfa meira sjálfstætt og kaupa sér bara ráðgjöf hjá einkafyrirtækjum, ekki vera að dandalast alltaf með þessa kerfiskarla. Það má alla vega hafa það í bland til að byrja með.
    Svo eru það blessuð vaxtamálin. Hvaða áhrif hefur þetta kerfi á vaxtamálin? Hvaða áhrif hefur síaukið

fjármagn til húsnæðismála á vaxtamálin í landinu? Mér finnst skrýtið hvernig fjallað er um þessa hluti, alltaf eins og það sé einhver hólfaskipting í þjóðfélaginu. Auðvitað hefur þetta áhrif hvað á annað. Voðaleg þensla í byggingariðnaði hefur auðvitað áhrif annars staðar í þjóðfélaginu. Og það er einmitt hlutverk Seðlabankans samkvæmt 4. gr. að hafa náið samstarf við ríkisstjórnina og gera henni grein fyrir skoðunum sínum hverju sinni varðandi einstök atriði í efnahagsmálum og við framkvæmd efnahagsstefnu, og því er þetta þá ekki gert? Er þetta allt saman bara ein allsherjarkómedía eða hvað? Ég bara skil ekki svona vinnubrögð, alls ekki.
    Ég hef alltaf litið þannig á að það væri hlutverk stjórnvalda að viðhalda jafnvægisástandi þannig að vextir yrðu eðlilegir. Hvernig fara stjórnvöld að því? Þau halda að þau geti gert það með því að segja bara hókus, pókus, lága vexti. Það er alveg stórfurðulegt. Frjálsræði í vaxtamálum hefur verið rangtúlkað alveg hræðilega, sérstaklega af þeim sem standa að núverandi ríkisstjórn. Frjálsræði var komið á til þess að stjórnir gætu áttað sig á því hvenær eftirspurn í fjármagn verður of mikil þannig að þær gætu dregið úr eftirspurn í fjármagn og náð jafnvægi aftur. Í staðinn hafa menn bara hrópað frjálshyggja, frjálshyggja, í staðinn fyrir að reyna að stjórna eins og þeir eiga að gera. ( Gripið fram í: Hvað með síðustu stjórn?) Hvað með síðustu stjórn, kallaði einhver fram í. Það stóðu þrír aðilar að síðustu ríkisstjórn
og ég ætla ekkert að fara að svara fyrir hana. En það er hlutverk viðskrh., svo að spurningunni sé svarað, að sjá til þess að lögum um Seðlabankann sé framfylgt og í lögum um Seðlabankann, ef ég má vitna í þau aftur, með leyfi hæstv. forseta, stendur að hlutverk Seðlabankans númer eitt sé að vinna að því að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé nýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt. Þá er spurningunni svarað. Það er hlutverk Seðlabankans að halda uppi jafnvægi á peningamarkaðinum. Og Seðlabankinn heyrir undir viðskrn. Þá vænti ég þess að þessari spurningu sé svarað, hvað með síðustu ríkisstjórn? Og í 4. gr. laga um Seðlabankann stendur að ef Seðlabankinn sé í ágreiningi við ríkisstjórnina, þá sé Seðlabankanum rétt að lýsa þeim ágreiningi opinberlega. Það hefur ekki verið gert og þar af leiðandi hlýtur hann að vera sammála þeirri stefnu sem var rekin.
    Hér er hins vegar til skriflegt álit frá Þjóðhagsstofnun og þar stendur m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sá möguleiki er fyrir hendi að viðskiptavakar mundu þurfa að kaupa verulegan hluta húsbréfanna til þess að halda uppi markaðnum en slíkt mundi óneitanlega auka peningamyndun. Af þessum sökum gæti þurft að gera ráðstafanir á öðrum sviðum peningamála en tilkoma húsbréfamarkaðar kallar á miklar breytingar í peningastjórn.`` Þetta segir Þjóðhagsstofnun, á næstu hæð fyrir neðan Seðlabankann. En Seðlabankinn fékk aldrei að fjalla

um þetta. Af hverju var ekki Seðlabankinn spurður? Getur einhver svarað því? Það er bara lagabrot hjá hæstv. ríkisstjórn að spyrja ekki Seðlabankann og sýnir best sambandsleysið. Það er allt í spanskgrænu í framkvæmdarvaldinu milli Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar. Það þarf eitthvað að laga geymasambandið er ég hræddur um. Mér finnst að þingmenn eigi alveg hispurslaust að reyna að auka sjálfstæði Alþingis en ekki vera einhverjar tuskudúkkur hjá framkvæmdarvaldinu og rétta hér upp hönd eftir því sem einhverjum kerfiskörlum þóknast. Það kemur ekki til greina. Ég held að það sé kominn tími til að Alþingi fari að taka sig á og taka í hnakkadrambið á þessu kerfi sem er að vaxa hér gjörsamlega yfir höfuð á öllu og gengur orðið sjálfala á ýmsum sviðum. Það eru hagsmunir fólksins að lán séu til íbúðakaupa en það eru ekki hagsmunir fólksins að þetta sé gert með þeim hætti að það skaði almenning í landinu. Verðbólgan er gífurlegur skaðvaldur og stefna í efnahagsmálum verður að miða að því að verðbólgunni verði eytt. Það á ekki að vera neitt vandamál.
    Mér finnst þetta húsbréfafrv. vera svona enn ein rós í hnappheldu kerfisins sem klúður í peningamálum. Það vantar algjörlega faglegt mat Seðlabanka þjóðarinnar sem á að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt í peningamálum, um áhrifin, um þenslu, háa vexti og hugsanlega verðbólgu. Hvar er öll þessi gögn? Eiga þingmenn að taka hér ákvarðanir í svona máli? Ég verð því miður að segja það að þetta húsbréfakerfi er fallegir draumórar miðað við það sem hér liggur fyrir. Og einhvern tíma var nú sagt: ,,Góðar eru gjafir þínar en meira þykir mér verð vinátta þín og sona þinna.`` Ætli íbúðabyggjendum þyki ekki vænna um það að fá hæfilega mikið lánað þannig að það séu ekki ,,skandaliseringar`` þó að þeir þurfi að bíða pínulítið lengur en að fá svo mikil lán að verðbólgan æði af stað og fleiri, fleiri fjölskyldur lendi í snöru kerfisins.
    Ég verð því að leggja til, hæstv. forseti, að þetta verði allt saman skoðað upp á nýtt og ég legg til að frv. verði vísað aftur til föðurhúsanna, til hæstv. félmrh.