Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 08. maí 1989

     Frsm. 4. minni hl. félmn. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Það hefur margt fróðlegt komið hér fram í umræðunni og eitt af því sem var kannski dálítið merkilegt var að heyra það að fyrirvararnir um þessi margfrægu og umtöluðu 10%, 10% þak á þessari útgáfu húsbréfa og 4,5% vaxtaþak Alþb., hafa raunverulega enga þýðingu. Það er ekkert að marka þá. En ég vil nú samt vekja athygli á því að það er ekki eingöngu Alþb. sem túlkaði þessa samþykkt ríkisstjórnarinnar á þann veg að um væri að ræða 4,5% hámark á lánum Byggingarsjóðs ríkisins því að hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar gerði nákvæmlega það sama með því að segja í nál. sínu sem er á þskj. 1033, með leyfi forseta:
    ,,Meiri hl. nefndarinnar lítur svo á að fenginni þessari yfirlýsingu að eftir gildistöku laganna verði vextir af Byggingarsjóðslánum ekki hærri en að hámarki 4,5%.`` Þetta er því ekki rétt túlkun eftir því sem fram kom í máli ráðherra núna áðan, þannig að þetta hljóta að vera nýjar upplýsingar.
    Þær brtt., sem hér var boðað að mundu verða lagðar fram, eða er búið að leggja fram reyndar fyrir nokkru, þó ekki formlega, varða þrjár fyrstu greinar frv. sem í raun eru ekki neitt tengdar húsbréfakerfinu. Sá þáttur sem ég hef reyndar lengst af hnotið um og gert athugasemdir við í félmn. og reyndar einnig fulltrúi Kvennalistans í nefndinni sem vann að undirbúningi þessa máls er að lán skuli verða takmörkuð sérstaklega til einstaklinga og eingöngu til þeirra. Aðrir hafa sama rétt. Við kvennalistakonur höfum talið þurfa að hafa ákvæði inni í húsnæðislögum eða lögum um aðstoð við húsbyggjendur og húsnæðiskaupendur um að tekið verði tillit til fjölskyldustærðar þannig að einhver munur væri á því hvort verið væri að veita lán til hjóna sem ættu kannski engin börn eða hjóna með mjög mörg börn. Það er ekki gert í þessum lögum. Þess vegna finnst mér mjög óeðilegt að þarna sé verið að takmarka eingöngu einn hóp. Það er verið að takmarka lán til einstaklinga, en hjón fá jafnhátt lán og einstæðir foreldrar og sambýlisfólk og fólk með mörg börn. Það er ekki tekið neitt tillit til þeirra að neinu öðru leyti.
    Ég styð því brtt. sem boðaðar voru áðan og tel að þar sem þær skipta ákaflega litlu máli fyrir Byggingarsjóðinn, eftir því sem fram kemur í áliti skrifstofustjóra Húsnæðisstofnunar, Hilmars Þórissonar. Hann segir að brtt. sem kemur fram í b-lið 1. gr. þar sem talað er um að þeir sem eiga aðrar eignir en íbúðarhúsnæði, jafngildar að verðmæti, hefði lítil áhrif því fullyrða megi að mjög fáir umsækjenda eigi eignir umfram þessi mörk og því sé óþarfi að breyta lögunum. Auk þess held ég, ef ég skil rétt miðað við þær breytingar sem við höfum gert áður á þessum lögum til takmörkunar, að ekki sé hægt að láta þessi ákvæði gilda nema um þá sem sækja um eftir gildistöku laganna. Þetta mun ekki ná til þeirra 10 þúsunda sem núna eru í biðröðinni og mun því ekki koma til takmörkunar fyrr en eftir kannski eitt, tvö, þrjú, fjögur ár, eftir atvikum. Ég álít því að það sé

óþarfi að vera að breyta lögunum til takmörkunar, sérstaklega þar sem ég er andvíg þeirri breytingu sem kemur fram í 2. gr. um einhleypingana sem munu hafa mest áhrif til takmörkunar, og mun styðja brtt. sem hafa verið boðaðar.