Þjóðminjalög
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Frsm. menntmn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Á þskj. 1104 liggur fyrir nál. frá menntmn. um frv. til þjóðminjalaga. Hér er um að ræða mál sem samið var af nefnd sem þáv. menntmrh. Birgir Ísl. Gunnarsson skipaði á sínum tíma. Síðan urðu nokkrar mannabreytingar í nefndinni og þingmenn sem sæti áttu í nefndinni og sæti áttu í hv. Nd. lögðu þetta mál fram. Jafnframt var lagt fram í deildinni í vetur, flutt af öðrum þingmönnum, frv. til l. um fornminjar og var ljóst strax í upphafi að ágreiningur var um ýmis atriði og mismunandi skoðanir í þessum tveimur frumvörpum.
    Í hv. menntmn. Nd. hefur verið innt af höndum mikið starf við að samræma þessi sjónarmið og ræða við þá aðila sem þetta mál snertir og lögð í það mjög mikil vinna þannig að sú niðurstaða hefur fengist að allir sem málið mest varðar eru sáttir að ég best veit við þá niðurstöðu sem fengist hefur.
    Menntmn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um þetta mál og átt fund með þeim tveimur starfsmönnum þingsins, dr. Þorsteini Magnússyni og Helga Bernódussyni, sem störfuðu mest og lengst með neðrideildarnefndinni. Þar var farið yfir þetta mál og í nefndinni er samstaða um að leggja til að það verði samþykkt óbreytt, með einni undantekningu þó sem ég mun nú gera grein fyrir, en það væri að okkar mati nánast illbætanlegt slys ef þetta frv. dagaði uppi eftir þá vinnu sem búið er í það að leggja og eftir þá samstöðu sem búið er að skapa og ég áður vék að.
    Einhvers staðar á langri leið frv. hefur slæðst inn í það villa, þ.e. í 36. gr. þar sem fjallað er um friðun bygginga og húsa. Eru nokkur ártöl í þeirri grein og þar sem talað er um kirkjur er talað um friðun kirkna þeirra sem byggðar hafa verið fyrir 1918. Þá er einnig í greininni talað um friðun húsa sem byggð hafi verið fyrir 1918. Í frv. upphaflega og sú hugmynd sem þar var sett á blað var að miða friðun húsa við aldamótaárið, þ.e. 1900, en ekki 1918. Tíminn frá aldamótum þar til 1918 er tímabil þar sem mikið er byggt, bæði hér í Reykjavík og víða annars staðar í kaupstöðum þess tíma, og mundi þetta ná til svo margra húsa að hætt er við að horft yrði kannski fram hjá þessu og þetta yrði marklaus bókstafur og mjög veruleg breyting frá því sem er og hefur verið að undanförnu. Þess vegna var í huga þeirra sem að málinu unnu alltaf miðað við árið 1900 þó að 1918 hafi svo slæðst inn í frv. og menn ekki tekið eftir því. Við leggjum til að þessu verði breytt. Í stað ártalsins 1918 að því er varðar venjuleg hús komi árið 1900. Það er gert í fullu samráði við ýmsa hagsmunaaðila í þessu sambandi og sömuleiðis hefur verið haft samráð um það við nefndarmenn í hv. menntmn. Nd. þannig að víst er að þetta veldur engri fyrirstöðu varðandi afgreiðslu málsins þar.
    Undir álit menntmn. á þskj. 1104 skrifa allir nefndarmenn og án nokkurs minnsta fyrirvara.