Þjóðminjalög
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég kem hér aðeins til að fagna því að þetta frv. skuli vera komið næstum því alla leið í gegnum þingið. Undirbúningur þess hefur átt sér nokkurn aðdraganda og vann nefnd að samningu þess og lauk hún störfum sl. haust. Ég átti sæti í þeirri nefnd frá sl. hausti, en nefndin hafði reyndar starfað í eitt ár áður. Ég held að þær breytingar sem gerðar voru á frv. í Nd. varðandi styrkingu fornleifadeildar séu mjög til bóta og fagna því sérstaklega að samstaða hefur náðst um þær breytingar. Þau verðmæti sem við eigum úti um landið, fornleifar, eru dýrmætur arfur sem ekki má granda á nokkurn hátt. Við verðum að leggja allt okkar í að reyna að vernda menningu okkar og menjar. Ég fagna því, eins og ég sagði, að samstaða skuli hafa náðst um að styrkja þá deild eins og hér er lagt til og vil benda á alveg sérstaklega nauðsyn þess varðandi fornleifarnar því að rannsókn á fornleifum er aðeins gerð einu sinni. Það er mikilvægt að til fornleifarannsókna veljist aðeins þeir sem hafa til þess fullgilda menntun. Þá vil ég einnig benda á að á síðustu árum hefur það færst í vöxt að útlendingar sæki hingað til að fá leyfi til fornleifarannsókna. Það fornleifaráð eða fornleifanefnd sem lagt er til að standi að því að afgreiða slík leyfi og veita þau held ég að sé mjög til bóta því að við þurfum fyrst og fremst að vernda þessar minjar fyrir okkur sjálf.
    En ég ítreka og endurtek það að ég fagna því að frv. verður nú að lögum. Ég vil hins vegar reyndar líka minna á að Þjóðminjasafnið hefur búið við mikið fjársvelti í mörg ár og vona ég að fjárveitingavaldið standi betur þar að málum en hingað til hefur verið þannig að þessi lög verði í alvöru sú lyftistöng sem þeim er ætlað að vera fyrir verndun menningarminja okkar.