Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég tel að frv. sem hér liggur fyrir hafi komið á mjög góðum tíma og það hafi verið rétt að hreyfa þessum málum, fá um þetta umræðu á hinu háa Alþingi, því það hefur verið allt of hljótt í þjóðfélaginu um stjórnun fiskveiða frá því að við áttum langar og strangar vökunætur fyrir hálfu öðru ári þegar við samþykktum kvótalögin um áramótin 1987--1988. ( KP: Hvað segir hv. þm., ,,við samþykktum``?) Það var a.m.k. samþykkt frá hv. deild ef ég man rétt. Ég skal rifja það upp að ég greiddi atkvæði gegn kvótafrv., rétt er það hv. þm., ásamt fleirum.
    En það er í hæsta máta tímabært að hreyfa þessu máli á nýjan leik og ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað því að kvótakerfið er að mínu viti meingallað. Það sem er mjög áberandi er að kvótakerfið hefur ekkert reynst betur en t.d. gamla skrapdagakerfið sem var við lýði áður en við tókum upp nýja stjórn fiskveiða um áramótin 1983--1984.
    Aðalástæðan fyrir því að taka upp kvótakerfi í sambandi við stjórnun fiskveiða var sú trú manna að með þeim hætti mundi ganga betur að halda niðri fjölda fiskiskipa og takmarka sóknargetuna og ekki síst var það trú manna, sem stóðu að því að setja á kvótakerfi, að með þeim hætti væri auðveldara að stýra fiskveiðum og vernda fiskistofnana. Ég held að það sé alveg ljóst að hvorugt þessara markmiða hefur náðst. Það hefur, ef eitthvað, gengið verr að takmarka sóknargetuna, fiskiskipastóllinn er allt of stór og sóknargetan er allt of mikil og því síður hefur tekist að beita verndunarsjónarmiðum, að passa upp á fiskistofnana, vernda hrygningarfiskinn og koma í veg fyrir smáfiskadráp. Ekkert af þessu hefur gengið eftir þannig að því miður verðum við að horfa til baka yfir kvótaárin sem tilraun sem hefur mistekist.
    Kvótakerfið hefur haft margar slæmar afleiðingar sem þó voru ekki í gamla kerfinu, þ.e. skrapdagakerfinu. M.a. hefur kvótakerfið lokað þessa atvinnugrein algerlega af þannig að inn í hana komast engir nýliðar. Ungur maður sem ætlar að hasla sér völl í sjávarútvegi á í raun og veru enga möguleika á því. Hann getur í besta falli komið sér upp einhverjum smábát og farið út í smábátaútgerð, en það er afar erfitt ef ekki nánast ómögulegt fyrir ungan og duglegan mann sem vill hasla sér völl í sjávarútvegi að komast inn í kvótakerfið. Hvernig í ósköpunum ætti honum að auðnast að koma sér upp skipi sem hefur kvóta? Svo einfalt er það mál. Það er búið að úthluta kvótanum, skipta honum á milli þeirra útgerðarmanna sem nú eru í landinu og annaðhvort gengur þá þessi kvóti í erfðir eða hann safnast á fárra hendur og helst þannig.
    Ég ræddi aðeins um verndunarsjónarmiðin sem mér hafa alltaf verið hugleikin. Ég hef haft töluverðan áhuga á því að þeim málum væri betur sinnt en verið hefur. Mér finnst með ólíkindum hvað við höfum staðið illa að verndun fiskistofnanna og hvað allar okkar aðgerðir í þeim efnum hafa verið ómarkvissar. Við höfum verið með svæðisbundnar lokanir. Það

hefur verið um það að ræða að Hafrannsóknastofnun hefur haft heimildir, að vísu nokkuð takmarkaðar að mínum dómi, til að loka svæðum þar sem hrygningarfiskur hefur komið fram eða mikill smáfiskur. Þessar aðgerðir hafa því miður verið eins og ég segi ákaflega ómarkvissar og oft og tíðum má nánast jafna þeim við hálfgert kák. Ég held að hér þurfi að grípa til miklu stórtækari aðgerða. Ég held að við þurfum t.d. að hugleiða hvort ekki sé orðið tímabært að taka jafnvel upp svokallaða togveiðilandhelgi, þ.e. að dragnót og hvers konar togveiðar verði algerlega bannaðar innan einhvers svæðis frá ströndum landsins, jafnvel þriggja mílna svæðis eða svo, þar verði engar dragnóta- eða togveiðar leyfðar. Það hefur oft verið rætt um hugtakið togveiðilandhelgi og væri kannski ráð að hugleiða það í sambandi við verndun fiskistofnanna. Eins tel ég að Hafrannsóknastofnun eigi að hafa mun víðtækari heimildir til að loka mun stærri svæðum, jafnvel heilu flóunum og fjörðunum ef svo ber undir, til þess einmitt að byggja upp fiskistofnana og koma í veg fyrir ofnýtingu þeirra með þeim hætti sem við höfum séð á kvótaárunum. Það væri því kannski það þarfasta sem við gætum gert í sambandi við stjórn fiskveiða að endurskoða algerlega frá grunni með hvaða hætti við viljum vernda fiskistofnana, byggja þá betur upp og auka þannig veiðimöguleikana.
    Fiskiskipastóllinn er of stór. Það eru allir sammála um það. Ég held að það nýmæli sem kemur fram í þessu frumvarpi sé afar athyglisvert, nefnilega að skrá sóknargetu fiskiskipa. Aðeins það eitt að það liggi fyrir í skipaskrá hver sé sóknargeta flotans í heild held ég að geti vakið menn til umhugsunar.
    Nú skulum við t.d. gefa okkur að heimiluð sé veiði á 300.000 tonnum af þorski á einu ári. Það er ekki fjarri lagi að það sé það sem er verið að tala um þessa stundina. Síðan komi það í ljós samkvæmt skipaskrá að fiskiskipastóllinn sé þess megnugur að veiða 1200.000 tonn af þorski á ári. Það gæti kannski orðið til þess að hrista aðeins upp í hugum manna þannig að menn væru loksins reiðubúnir til að velta því fyrir sér: Hvert stefnum við? Hvert erum við að fara í okkar fiskveiðum? Þess vegna held ég að það sé mjög athyglisvert nýmæli sem kemur þarna fram í frumvarpinu og gæti orðið til þess að menn hugleiddu betur á hvaða leið við erum í sambandi við fiskveiðar okkar.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef við gætum með einhverju móti fundið leið til að komast út úr kvótakerfinu mundum við fá miklu betri og markvissari stýringu á fiskveiðunum. Ég sé fyrir mér að við þurfum að halda áfram að setja heildaraflakvóta ársins hverju sinni. Ég held að það sé öllum ljóst. Hins vegar má kannski spyrja hvort ekki þurfi að ákveða heildaraflakvótann með öðrum aðferðum en hingað til hefur verið beitt, t.d. í nánara samráði við alla þá aðila sem eiga hagsmuna að gæta, þ.e. bæði í samráði við sjómennina sjálfa, í samráði við útgerðina og í samráði við fiskifræðingana og svo stjórnvöld. Síðan má íhuga hvort það þurfi ekki að

taka upp svæðisbundinn aflakvóta. Við skulum segja að það sé búið að ákveða hámarksaflakvóta ársins á ákveðnum tegundum sjávardýra. Þá má velta því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt og eðlilegt að skipta þeim hámarksaflakvóta milli árstíða og jafnvel milli landsvæða eftir því hvar er skynsamlegast að veiða hverju sinni. Það eru ýmsir möguleikar sem ég tel að séu ókannaðir í sambandi við stjórn fiskveiða hvað þetta atriði varðar.
    Ég ætlaði ekki að tala lengi um þetta. Það er búið að fjalla ítarlega um frumvarpið og efnisatriði þess. Mig langar til að vekja nokkra athygli á þeim möguleikum sem við höfum horft fram hjá og ekki kært okkur um að nýta, en það eru fiskveiðar á fjarlægari fiskimiðum. Þess vegna var það kærkominn ljósgeisli hér í umræðunni um daginn þegar fyrir hinu háa Alþingi lá frumvarp til laga um að heimila skráningu á fiskiskipi sem er ætlað að stunda úthafsveiðar fjarri Íslandi, þ.e. nánast hinum megin á hnettinum. Þar er einmitt sú spurning sem ég hef oft velt fyrir mér: Gætum við Íslendingar ekki nýtt okkur fjarlæg fiskimið, aflað okkur veiðiheimilda t.d. við strendur Afríku, í Persaflóa, svo dæmi séu tekin, með hliðsjón af því að við erum með allt of stóran fiskiskipastól? Ég gæti best trúað því að okkur mundi ekkert muna um að setja saman flota upp á ein 50--60 togskip og halda með hann út í heim og reyna að nota hann til að veiða á fjarlægari fiskimiðum. Mér er fullkunnugt um að það er tiltölulega auðvelt að fá veiðiheimildir t.d. undan ströndum Marokkó þar sem eru mjög auðug, góð og gjöful fiskimið. Samkvæmt marokkóskum lögum má flytja inn fiskiskip sem eru allt að fimm ára gömul og það er hægt að fá heimild marokkóskra stjórnvalda til að setja upp útgerðarfyrirtæki þar í landi og reka fiskiskip, sem við mundum þá leggja fram til slíkrar útgerðar, allt að fimm ára gömul. Eins er hægt að fá fiskveiðiheimildir undan ströndum Sómalíu, svo dæmi séu tekin, og víða annars staðar.
    Íslendingar hafa því miður einblínt á heimaslóðir og verið algerlega lokaðir fyrir þessum möguleikum sem ég tel miður með hliðsjón af því að við sitjum hér uppi, eins og ég sagði áðan, með kannski 50 eða 60 togskip sem mætti hreinlega leggja vegna þess að við höfum enga þörf fyrir þau. Þá væri athugandi hvort ekki væri hægt að fara með þau eitthvað út í heim og nota fiskveiðimöguleika annars staðar.
    Þetta vildi ég sagt hafa og hef lokið máli mínu, herra forseti.