Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu neitt að ráði, enda á ég víst ekki rétt til þess, ég er búinn að tala tvisvar í þessu máli, og aðeins benda á nokkur atriði.
    Ég benti á í fyrri ræðum mínum hvernig þróunin hefði verið á undanförnum árum í sambandi við stöðu fiskistofna og hvað sú fiskveiðistjórn sem við höfum búið við á undanförnum árum hefði mistekist á marga vegu. Ég hef ekki heyrt neinn bera á móti því að svo sé. Menn halda því þó fram að það sé nauðsynlegt að halda sömu stefnu áfram, sem sagt að þó að kúrsinn sé rangur sé sjálfsagt að halda honum og hefðu það þótt einkennileg skipstjórnarfræði einhvern tíma.
    En það sem kom mér fyrst og fremst til þess að koma upp í ræðustól var viðtal við einn af forustumönnum Sambands ísl. samvinnufélaga og Framsfl. sem er í Dagblaðinu í dag. Það getur varla verið ákveðnari dómur um þá stefnu í sjávarútvegs- og fiskveiðimálum sem við höfum búið við á undanförnum árum en yfirlýsing þessa forstjóra Sambandsins. ( KP: Hver er sá?) Hann heitir Árni Benediktsson og kemur fram oftast nær þegar Sambandið þarf að kynna stefnu sína í sjávarútvegsmálum í fjölmiðlum og á fundum.
    Fyrirsögnin í viðtalinu við Árna Benediktsson, framkvæmdastjóra Félags ísl. sambandsfiskframleiðenda, er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Nauðsynlegt er nú að loka 60--70 frystihúsum`` og öll greinin er samfelld yfirlýsing um að það verði að draga saman seglin í íslenskum sjávarútvegi. Þar sé allt á þann veg. Annaðhvort vanti afla í húsin eða að fiskvinnslufyrirtækin hafi á undanförnum árum farið svo illa út úr rekstri að þau séu órekstrarhæf vegna mikilla skulda.
    Yfirlýsing Árna Benediktssonar er sem sagt á þann veg að sú stefna sem við höfum búið við í sjávarútvegs- og fiskveiðimálum á undanförnum árum hafi leitt af sér að nú þurfi að loka 60--70 frystihúsum. Við heyrum svipaðar fullyrðingar, meira að segja í ræðustól í hv. Ed. Hv. 7. þm. Reykn. sagði áðan að það þyrfti að fækka í togaraflotanum. Ég man ekki alveg hvaða tölu hann nefndi. Mig minnir að hann hafi nefnt 30 togara eða svo. Lausnin, hvort sem það er hv. þm. Júlíusar Sólnes eða annarra sem eru að ræða um þessi mál, er meira og minna sú að til þess að mæta minnkandi fiskistofnum vegna rangrar fiskveiðistefnu skuli loka 60--70 frystihúsum eða minnka fiskiskipaflotann um 30--40 togara eða svo í staðinn fyrir að gera hluti sem eru á þann veg að við getum byggt upp fiskistofnana.
    Þessa dagana hafa líka verið að berast mönnum í hendur ýmsar skýrslur og yfirlýsingar frá opinberum stofnunum, Byggðastofnun, Þjóðhagsstofnun og öðrum slíkum. Verslunarráð er að halda fund núna og þar er að koma ein yfirlýsingin um hvernig ástandið sé. Allar eru yfirlýsingarnar á eina bók lærðar. Sjávarútvegur á Íslandi er rekinn með halla og einnig að það blasi við í ár að það verði minnkandi

sjávarafli ef staðið verði við þau mörk í þorskveiðikvótanum sem ákveðin hafa verið. Svo koma jafnvel upp í ræðustól og á fundum á ýmsum stöðum spekingar sem eru alveg vissir um að það sé alveg nauðsynlegt að halda sömu stefnu áfram.
    Ég þakka hv. 4. þm. Vestf. fyrir að hafa hreyft þessu máli í hv. deild. Það sýnir hvað mikið er um að vera í sambandi við það að leita nýrra leiða í íslenskum sjávarútvegi á hv. Alþingi að í lok þessarar umræðu þegar því máli sem við erum að ræða hér verður vísað til hv. sjútvn. þessarar deildar mun það líkast til verða fyrsta málið á þessu þingi sem er vísað til nefndarinnar. Það er annað mál í umræðu í deildinni reyndar líka. Ég geri ráð fyrir að þessu máli verði vísað fyrst til nefndarinnar. En umfjöllun um sjávarútveg hefur ekki verið meiri á hv. Alþingi í vetur en svo að í lok þingsins, á síðustu dögum þingsins er verið að vísa fyrsta málinu til sjútvn. þingsins. Þannig er málum háttað. ( GHG: Er ekki allt í góðu standi í sjávarútveginum?) Nei. Því er nú ver og miður. Þeir sem haldið hafa og staðið hafa að stefnunni á undanförnum árum og eins og hún er og halda áfram að mæla henni bót eru ábyrgir fyrir því hvernig hlutirnir standa nú.
    Ég var að benda hv. þm. á að í Dagblaðinu í dag er viðtal við einn af forustumönnum Sambands ísl. samvinnufélaga, Árna Benediktsson framkvæmdastjóra, þar sem hann lýsir því yfir að lausnin til þess að halda áfram sjávarútvegi á Íslandi eða fiskvinnslu sé að loka 60--70 frystihúsum. Slík er reisnin. Slíkur er afraksturinn af stefnu fyrri ríkisstjórna. Þetta er niðurstaðan og afleiðingin af útkomu þessara fyrirtækja síðasta ár. Ég get svo sem alveg tekið undir að það hefur ekki batnað mikið. Samt eru hlutirnir heldur skárri en þeir voru í fyrra. Það vantar nokkuð á að þeir séu góðir. Og ekki síst þegar haldið er áfram þeirri fiskveiðistefnu sem við búum við. Haldið er áfram að ganga í smáfiskinn, sjá til þess að enginn fiskur vaxi helst upp í hrygningarstærð. Ekki gerðar neinar ráðstafanir til að byggja upp þann fiskistofn sem við byggjum fyrst og fremst á, þorskinn. Kostnaður fyrirtækja eykst í staðinn fyrir að hann átti að minnka. Öll stefnan, hvort sem það er fjárhagsstefnan í sjávarútvegsmálum eða fiskveiðistefnan, hefur verið á þann veg að það er verið að grafa undan sjávarútvegi og fiskvinnslu á
Íslandi og þær fréttir sem við erum að fá í dag um afkomu fyrirtækja á síðasta ári staðfesta að stefnan á undanförnum árum hefur verið röng og sú stefna sem við höldum áfram enn er líka röng. Það eru ákveðnir þættir sem hafa verið gerðir á undanförnum mánuðum sem hafa hjálpað til að halda á floti, en það hefur engin grundvallarbreyting átt sér stað. Það skal ég þó ekki með glöðu geði staðfesta.