Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):
    Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. Það væri freistandi að ræða frekar um ýmis atriði sem fram hafa komið í þessum umræðum, en þess er ekki kostur.
    Ég stóð upp einungis til að leiðrétta eitt sem hæstv. ráðherra sagði. Hæstv. sjútvrh. lét orð falla á þá leið að í frv. því sem við hér ræðum væri ekki kveðið á um hvernig skyldi fjármagna úreldingarsjóð. Þetta er ekki galli á þessu frv. vegna þess að flm. gera ráð fyrir sérlögum um úreldingarsjóð og fara að forminu til eins að og ráðherra sjálfur sem lagt hefur fram frv. til l. um úreldingarsjóð til sjálfstæðra laga en ekki til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða.
    Það skal aðeins tekið fram að í greinargerð með frv. taka flm. fram hvernig þeir geta hugsað sér að fjármagna úreldingarsjóð. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Tekjur úreldingarsjóðs mættu vera af gjaldi sem lagt væri á hverja útgerð í hlutfalli við aflahlut. En sú gjaldtaka væri léttbær útgerðinni borið saman við þá aflaskerðingu og kaup á veiðiheimildum sem hún þarf að búa við meðan kvótakerfið er við lýði.``
    Hér lýkur tilvitnun. Þetta er aðeins til þess að skýra hvað flm. hugsa um í sambandi við úreldingarsjóð og að gefnu tilefni í sambandi við það sem hæstv. ráðherra sagði.