Hafnalög
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Frsm. samgn. (Karvel Pálmason):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá samgn. deildarinnar um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 69/1984, um hafnalög, sem flm. er að hv. 4. þm. Suðurl. Nefndarálitið er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarp þetta sem felur í sér að Hafnamálastofnun yfirtaki það verkefni sem Seðlabanki Íslands hefur annast fyrir Hafnabótasjóð.
    Nefndin fékk til viðræðna um málið Hermann Guðjónsson og Eyþór Elíasson frá Hafnamálastofnun, Harald Andrésson frá Seðlabanka Íslands og Sigurð Þórðarson frá Ríkisendurskoðun. Það kom fram í viðræðum við áðurgreinda menn að enginn þeirra leggst gegn breytingu á núverandi fyrirkomulagi en þeir telja hins vegar að það þurfi að athuga betur hvaða aðili sé heppilegastur til að annast það verkefni sem hér er um að ræða. Í því sambandi var rætt um að fela verkefnið Hafnamálastofnun, Sambandi ísl. sveitarfélaga eða öðrum aðilum.
    Nefndin er hlynnt því að breyta núverandi skipan mála varðandi Hafnabótasjóð en telur í ljósi ábendinga að athuga þurfi nánar hvernig heppilegast sé að koma slíkri skipan á og leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Með nefndaráliti þessu er prentað sem fylgiskjal yfirlit yfir kostnað við rekstur Hafnabótasjóðs á árinu 1987.``
    Undir þetta nál. skrifa allir nefndarmenn í samgn., auk þess sem hér stendur: Guðmundur Ágústsson, Egill Jónsson, Jón Helgason, Skúli Alexandersson, Þorv. Garðar Kristjánsson og Stefán Guðmundsson.
    Ég tel rétt út af fskj. sem prentað er með að geta þess að fulltrúi frá Seðlabankanum gat þess í viðræðum við nefndina að að öllum líkindum yrði hér um lægri upphæð að ræða í áframhaldi málsins en hér fylgir með og ég tel rétt að það komi fram að þess var getið í viðræðum innan nefndarinnar.