Valdimar Indriðason:
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. frsm. allshn. var ég ekki mættur á fundi sem afgreiddi málið. Ég er ekki að deila á það við hann eða nefndina að hafa tekið málið út vegna þess að ég er hér aðeins um skamman tíma og gat ekki kynnt mér þetta og var ekki við þegar málið var tekið út. Ég veit það hins vegar að forveri minn, sem ég gegni hér sæti fyrir, var mjög mikill talsmaður í þessu máli og vildi gera sínar breytingar við það. Ég hef farið lítillega í gegnum frv. og sé ýmsa vankanta á því frá mínu sjónarmiði. Ég dreg mjög í efa þá kostnaðaráætlun sem sett er þarna upp um þessa breytingu. Þessi flutningur á milli embætta og heimildin um það að þeim sem sitja í dag megi fjölga um helming frá því sem frv. gerir ráð fyrir, ef þeir sækja um á annað borð, held ég að geri það að verkum að kostnaðurinn sé algjörlega vanmetinn í þessu efni. Ég skil alveg ástæðuna fyrir þessu hjá flm. varðandi okkar sáttmála við mannréttindadómstólinn í sambandi við þau mál sem þar eru flutt, en ég held að við þurfum að skoða það mjög alvarlega og betur hvort að við þurfum að vera svo undir hælnum á erlendum lögfræðingum í þessum efnum að við getum ekki haft okkar eigin lögsögu hér um. Þess vegna er það að þetta á eftir að draga ýmislegt á eftir sér, og veruleg breyting verður þarna á öllum embættum, má segja alls staðar utan Reykjavíkur, sem ég held að sé ekki til bóta. Þarna er verið að draga vald úr héruðum í staðinn fyrir að flytja það til þeirra. Sýslumenn verða innheimtumenn ríkissjóðs eins og þeir hafa verið. En þeir fjalla ekkert um dómsmál nema rannsókn, dæma ekkert eftir þessu. Sérstök dómhöll á að rísa í hverjum landsfjórðungi þar sem það er ekki fyrir hendi. Svo á þetta að kosta aðeins 50 millj. kr. Ég trúi þessu ekki. Þess vegna get ég ekki stutt þetta frv. að svo komnu máli. Ég hefði viljað fresta þessu til haustsins, það liggur ekki meira á en svo. Það er ekki fyrr en 1. júlí 1992 ef ég man rétt sem þetta á að taka gildi. Þess vegna gæti málið fengið hér frekari umfjöllun og mætti því geyma það til haustsins. Það er það sem ég færi fram á.