Ólafur Þ. Þórðarson:
    Ég hefði eiginlega óskað eftir því að umræðu um þetta mál yrði frestað. Það er svo að í því málaflóði sem hér streymir inn er það misjafnt hvað manni hefur gefist tími til að fara ofan í saumana á þeim málum sem eru að koma frá nefndum. Hér er verið að fjalla um nokkuð gamalt ágreiningsmál og mér sýnist að þar stefni hlutirnir í það sama, að miðstýringin er stöðugt að aukast í landinu. Það er verið að færa valdið burt úr héruðunum og til höfuðborgarinnar. Ég er ekki heldur viss um að hæstv. dómsmrh. geri sér grein fyrir því að auðvitað er verið að semja fjárlög með svona ákvörðunum. Það er verið að taka ákvörðun um aukin ríkisútgjöld, aukinn halla á íslenskan sjávarútveg. Hver borgar þetta annar? Og það út af því að menn hjóla á Akureyri á reiðhjólum á annan veg en kerfið þar nyrðra er ánægt með og halda svo áfram út í Haag með vitleysuna. Það á að umturna sýslumannakerfi landsins, hvorki meira né minna. Það er ekki skrýtið þótt ráðherrum sé skemmt, það er ekki skrýtið þótt þeim sé skemmt. Ég man hins vegar eftir því að menn afgreiddu hér á færibandi frumvarp um Bifreiðaskoðun Íslands hf., úthugsað miðstýringarkerfi sem strandaði á Strákagöngunum fyrir norðan, enda gerir hæstv. samgrh. ráð fyrir að nú þurfi að víkka göngin. Það er strax komið á dagskrá. Hvað á að gera svo að hægt sé að sinna lögum landsins? Lagasetning með þeim hraða sem verið er að framkvæma á seinustu dögum þingsins er því miður mjög oft vanhugsuð. Það er búið að leggja fram af lögfræðingum í þessu landi mjög greinargóðar skýringar á því hvað það er sem við þurfum að gera svo hægt sé að standa á því að hér sé búið að aðskilja framkvæmdarvald og dómsvald sem í sjáfu sér þarf að aðskilja. En að það þurfi að byggja upp þetta bákn sem hér er verið að tala um, sóa fjármunum á þennan hátt, það er engin nauðsyn. Vandamál íslenska dómkerfisins hafa löngum verið hér í Reykjavík en ekki úti á landi.
    Ég hefði eindregið viljað óska eftir því við hæstv. forseta að hann frestaði þessari umræðu þar sem ég var í hádeginu að gera gangskör að því að fá gögn um þetta mál til að geta rætt það nægilega efnislega og ég veit að þau verða komin í mínar hendur á morgun og hefði þá viljað eiga kost á því að ræða þetta mál nokkuð ítarlega hér í deildinni.