Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Frsm. félmn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Félmn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og fékk til fundar við sig eftirtalda: Frá menntmrn. Örlyg Geirsson skristofustjóra og Hákon Torfason deildarstjóra, frá Fóstrufélagi Íslands Selmu Dóru Þorsteinsdóttur, formann Fóstrufélags Íslands, og Örnu Jónsdóttur, formann fulltrúaráðs Fóstrufélags Íslands, og fræðslustjórana Helga Jónsson og Guðmund Inga Leifsson. Þá störfuðu þeir Húnbogi Þorsteinsson, skrifstofustjóri í félmrn., og Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri í Garðabæ, með nefndinni.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj. Breytingar þessar eru gerðar í samráði við þá aðila er nefndin kallaði á sinn fund og nefndir eru hér á undan. Hér er þó ekki um veigamiklar efnisbreytingar að ræða og í öllum meginatriðum fellst nefndin á afgreiðslu efri deildar á frv.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.
    Undir þetta nál. skrifa Guðrún Helgadóttir, Alexander Stefánsson, Geir H. Haarde, Eggert Haukdal, Jón Kristjánsson, Kristín Einarsdóttir og Jón Sæmundur Sigurjónsson.