Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er orðið fyllilega tímabært að skýrari og ákveðnari skil séu gerð á milli verkefna ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar. Ánægjulegt er að nú skuli þessi mál vera komin svo langt að samstaða virðist vera um hvernig þessum málum skuli fyrir komið. Svo virðist sem í stórum dráttum séu bæði fulltrúar sveitarfélaganna og ríkisvaldsins ánægðir með niðurstöðurnar og talaði einn fulltrúi sveitarstjórna hér áðan og virtist vera harla ánægður með útkomuna.
    Á síðasta löggjafarþingi kom fram frv. um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en hlaut ekki afgreiðslu. Í því frv. var aðeins gert ráð fyrir að breyta verkaskiptingunni að hluta. Val á verkefnaþáttum sem breyta átti í fyrsta áfanga, eins og það var nefnt, var mjög sérkennilegt. Nær eingöngu átti að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga án þess að tryggja fyrst fjárhagslega stöðu þeirra til að geta tekist á við þau verkefni.
    Með þessu frv. er skrefið tekið til fulls og verkefnatilflutningurinn er ekki eingöngu frá ríki til sveitarfélaga heldur einnig frá sveitarfélögum til ríkisins. Þetta tel ég til mikilla bóta. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, svo og margar sveitarstjórnir hafa lagt mikið upp úr því að þetta frv. verði að lögum nú á þessu þingi og fullyrða að það verði sveitarfélögunum til hagsbóta. Þrátt fyrir þá áherslu sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur lagt á það hve gott og hagstætt þetta muni vera fyrir litlu sveitarfélögin hef ég af því vissar áhyggjur að sú muni ekki verða raunin. Ég óttast að litlu sveitarfélögin muni eiga í enn meiri erfiðleikum eftir þessar breytingar en áður og sjálfstæði þeirra enn skert. Ég vona þó að sú spá mín muni ekki rætast. Ekki er hægt annað en að treysta því að stjórn samtaka sveitarfélaga hafi tekið mið af fámennum dreifbýlissveitarfélögum ekki síður en stórum sveitarfélögum þegar lagt var mat á ágæti þeirra breytinga sem hér eru lagðar til.
    Vissulega eru margir þættir frv. sem orka tvímælis. Margar gagnrýnisraddir hafa heyrst varðandi einstaka kafla frv. sem ná til breytinga á 14 lagabálkum. Mesta gagnrýni hefur komið á XI. kafla frv. sem fjallar um breytingar á lögum nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Þar er gert ráð fyrir að breyta rekstri tónlistarskólanna frá því sem nú er. Það þarf varla að fara mörgum orðum um mikilvægi tónlistarkennslu og óttast margir að með breyttu fyrirkomulagi muni tónlistarskólarnir margir hverjir eiga erfitt uppdráttar. Ég hefði því talið eðlilegt að breytingin nú hefði orðið í þá átt að ríkissjóður tæki meiri þátt í að greiða laun tónlistarkennara en nú er. Laun grunnskólakennara eru greidd úr ríkissjóði og er því eðlilegt að laun tónlistarkennara séu það einnig. Það skref sem hér er lagt til að tekið verði er skref í öfuga átt að mínum dómi.
    Fjölmargir aðilar hafa lýst áhyggjum sínum vegna þessara fyrirhugðu breytinga. Flestar gagnrýnisraddir hafa komið frá samtökum tónlistarkennara og

tónlistarskólastjóra og mörgum fleiri aðilum. Ég vil aðeins segja frá gagnrýni samtaka tónlistarskólastjóra sem hafa skrifað félmn. og væntanlega alþingismönnum öllum bréf þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum vegna þessara breytinga. Bæði skrifuðu þeir bréf þann 4. apríl sl. og einnig 2. maí sl. Í bréfinu sem var skrifað þann 2. maí er því haldið fram að nú þegar sé farið að undirbúa lokun a.m.k. tveggja tónlistarskóla úti á landi vegna þessarar breyttu verkaskiptingar þannig að ég verð að lýsa áhyggjum mínum yfir þessum fréttum sem berast. Samtök tónlistarskólastjóra leggja mjög mikið upp úr því að þessi breyting nái ekki fram að ganga og telja að þetta sé ógnun við tónlistarkennsluna í landinu. Þá hefur einnig borist bréf frá Félagi tónlistarskólakennara þar sem þeir segja m.a. að engin rödd hafi heyrst meðal tónlistarskólakennara eða foreldra sem hefur mælt með þessum breytingum, heldur hafi eingöngu komið fram mótmæli. Þetta er það sem heyrst hefur háværast frá þeim sem starfa sjálfir að þessum málum inni í skólunum.
    En það hafa einnig komið fram gagnrýnisraddir frá sveitarfélögunum, t.d. frá oddvitanum í Vorsabæ á Skeiðum þar sem hann telur að það muni vera til hins verra ef frv. nái fram að ganga þannig að það eru svo sannarlega ekki allir sveitarstjórnarmenn sem eru ánægðir með það.
    Bréf barst einnig frá Fjórðungssambandi Norðlendinga sem skrifað var á Akureyri þann 18. apríl 1989. Í því bréfi kom fram nokkur gagnrýni á það frv. sem hér er til umræðu, svo og það frv. sem við sjálfsagt komum seinna til með að ræða, um tekjustofna sveitarfélaga, en varðandi einmitt það atriði sem ég er hér að gera að umtalsefni, þá segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er að sjá í tillögu nefndarinnar að eyrnamerkt sé aðstoð við tónlistarskóla, t.d. með breytingum e-liðar 13. gr. Hér er á ferðinni alvarlegra mál en sýnist.`` Þetta er þeirra skoðun og ég tel fyllstu ástæðu til að taka mark á þeim ábendingum sem komið hafa og þess vegna hef ég ásamt hv. 13. þm. Reykv. Guðrúnu Helgadóttur lagt til brtt. við þetta frv. á þskj. 1056.
    Brtt. felst fyrst og fremst í því að breyta XI. kafla laganna, sem fjallar um tónlistarskólana, þ.e. að fella þann kafla algjörlega brott. Það þýðir, þar
sem þessi kafli fjallar eingöngu um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskólana, að það fyrirkomulag sem nú er verði óbreytt. Núverandi fyrirkomulag er þannig að tónlistarskólarnir hafa verið að mestu á herðum sveitarfélaganna, en þó hefur komið fram stuðningur úr ríkissjóði er samsvarar um það bil helmingi af launum tónlistarkennaranna. Að öðru leyti hafa sveitarfélögin borið mestan þungann af tónlistarskólakennslunni þannig að þessi breyting felur í sér að þessum stuðningi ríkisins verði haldið áfram. Margir sveitarstjórnarmenn hafa viljað gera lítið úr hlut ríkisins í þessu sambandi, en þeir sem þarna starfa vilja gera mikið úr þessum hlut og hafa verulegar áhyggjur af þessari breytingu eins og fram

kom í máli mínu áðan. Ég held því að það muni verða mikið óheillaspor ef þessi breyting nær fram og ég hef mikla sannfæringu fyrir því að það mundi verða farsælast ef við gætum fellt þennan kafla niður.
    Þegar ég fór að velta fyrir mér hvernig við gætum mætt þeim mikla kostnaði sem þarna kemur á ríkissjóð --- en á bls. 32 í fskj. með frv. eins og það var lagt fram í Ed. kemur fram að þetta muni valda um það bil 200 millj. kr. hækkun útgjalda sveitarfélaganna. Þegar ég fyrst orðaði það í félmn. að reyna að breyta þessu þá komu þau andmæli fyrst og fremst fram varðandi verkefnatilflutninginn að það mætti ekki raska því jafnvægi sem þarna væri á milli í fjármálum verkaskiptingarinnar vegna þess að það væri búið að gera upp þetta dæmi. Ég hef aldrei haft aðra tilfinningu fyrir þessu uppgjöri en að það yrði reynt að koma þessu þannig fyrir að sem mest skipting væri á milli ríkis og sveitarfélaga en jafnframt að hagur beggja mundi verða nokkurn veginn jafn á eftir og ef eitthvað væri þá yrði hagur sveitarfélaganna betri eftir breytinguna en áður. Þau svör fékk ég til að byrja með að þessi breyting mundi ekki geta gengið vegna þess að þarna væri um 200 millj. kr. lækkun aftur hjá sveitarfélögum sem mjög óeðlilegt væri að taka eina út úr. Eingöngu þess vegna fór ég að athuga hvar væri hægt að breyta til baka aftur án þess að það kostaði að ríkið þyrfti aftur að fara að taka að hluta til þátt í einhverju samkrulli með sveitarfélögum, eins og megintilgangur frv. er að forðast, og þá var mjög eðlilegt að litið væri til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hingað til hefur það verið þannig að það hafa verið að hluta til sveitarstjórnir, að hluta til ríkissjóður og síðan atvinnurekendur sem hafa greitt í þennan sjóð og í bók sem gefin hefur verið út og heitir Samstarf ríkis og sveitarfélaga kemur m.a. fram og vil ég fá að lesa það, með leyfi forseta:
    ,,Að áliti nefndarinnar hafa sveitarfélögin nú ekkert að segja um málefni Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þá hefur ríkið á undanförnum missirum bætt á sjóðinn nýjum verkefnum sem munu hafa í för með sér verulega aukningu útgjalda á næstu árum. Áhrif breytinganna á greiðslur til Atvinnuleysistryggingasjóðs eru misjöfn á einstök sveitarfélög. Samkvæmt úrtaki nefndarinnar má ætla að breytingin mundi minnka útgjöld þéttbýlissveitarfélaganna frá 0,5--1,5% af heildarútgjöldum en mun minna hjá dreifbýlissveitarfélögunum.`` Ef þessi breyting nær fram sem við hv. 13. þm. Reykv. leggjum til, þá mundi það koma betur við dreifbýlissveitarfélögin heldur en þéttbýlissveitarfélögin þannig að það mundi koma betur út fyrir þau sveitarfélög sem maður hefur meiri áhyggjur af vegna þessara breytinga.
    Ég skil reyndar mjög vel af hverju sveitarfélögin vilja losna við Atvinnuleysistryggingasjóð vegna þess að þau hafa ákaflega lítið um hann að segja, en hins vegar hefur þetta ekki valdið neinum erfiðleikum varðandi greiðslur í sjóðinn og það hafa ekki komið fram neinar sérstakar kvartanir yfir innheimtu eða að þetta samkrull hafi haft einhverja erfiðleika í för með

sér. Hins vegar legg ég þetta fram eingöngu vegna uppgjörsins, ekki vegna þess að ég mundi út af fyrir sig vilja leggja til breytingu á þeim tillögum sem komið hafa fram um Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég geri ekki athugasemdir við það í sjálfu sér, heldur er þetta eingöngu til að kostnaðarskiptingin jafnist út. Og ég hef ekki enn heyrt nein rök sem mæla gegn því að gera þetta svona.
    Margir hv. þm. hafa lýst því að þeir hafi verulegar áhyggjur af breytingu á þessu ágæta fyrirkomulagi sem virðist vera á tónlistarkennslunni. Þeir eru ekki þar með að lýsa vantrausti á sveitarfélögin heldur eingöngu vilja, og það er mín skoðun, styðja sveitarfélögin á þessu sviði og við teljum að það sé hættulegt að breyta fyrirkomulagi sem hefur reynst mjög vel. Ég vil því mótmæla því að þarna sé verið að blanda saman ólíkum málum. Við erum hérna með 14 ólíka lagabálka þannig að við erum að blanda saman mjög ólíkum málum í fyrsta umgangi þegar við erum að fjalla um þessa breyttu verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga þannig að sú breyting sem lögð er til á þskj. 1056 er ekki neitt öðruvísi breyting en annars er verið að gera í þessu frv.
    Hv. 4. þm. Norðurl. v. gerði einnig að umtalsefni hér innra starf tónlistarskólanna og það er alveg rétt að það hefur komið fram áður að með þessum brtt. er ekki verið að breyta innra starfi tónlistarskólanna, það á ekki að breyta neitt faglega því sem þar er verið að gera. En þrátt fyrir það hefur verið talið eðlilegt að styrkja þessa starfsemi og styrkja tengsl tónlistarskólanna og menntmrn. enn frekar og á þskj. 1074 er einmitt brtt. um
þessa styrkingu á faglegu starfi og samstarfi tónlistarskóla og ráðuneytis og einnig grunnskóla og framhaldsskóla sem ég tel mjög mikilvægt og þess vegna hef ég gerst meðflutningsaðili að þeirri brtt. sem væntanlega verður gerð betri grein fyrir af 1. flm. hér síðar.
    Ég ætla ekki að gera að umtalsefni fleiri breytingar en vil þó benda á að þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram að eingöngu sé um að ræða kostnaðarskiptingu, að breytingar séu eingöngu gerðar af því, þá er verið að setja inn ýmsar breytingar sem varða innra starf. T.d. var í X. kafla laganna, eins og það kom frá Ed., búið að fella niður allt faglegt eftirlit menntmrn. við dagvistarheimili fyrir börn en félmn. Nd. varð sammála um að þetta þyrfti að koma inn aftur og við höfum lagt til breytingu á þessum kafla laganna meira til samræmis við það sem við teljum að hafi verið skoðun bæði sveitarstjórnarmanna þegar þessi breyting varð að samkomulagi, svo og menntmrn. Það var e.t.v. um einhvern misskilning að ræða sem við vonum að sé leiðréttur hér með.
    Þá vil ég benda á að í kaflanum sem fjallar um grunnskóla er einnig lögð til breyting frá núgildandi lögum og ég get ekki sagt að ég sé neitt sérlega ánægð með hana. En í 31. gr. frv. er talað um að fræðsluráð geti falið fræðslustjóra að annast framkvæmdastjórn fyrir ráðið. Eins og þetta er í núgildandi lögum er talað um að fræðslustjóri sé

framkvæmdastjóri fyrir ráðið þannig að ég tel að þarna sé verið að fara inn á fleiri þætti heldur en eingöngu verkaskiptinguna og fjárhagslega skiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga, það er verið að fara þarna lengra en kannski eðlilegt mætti teljast.
    Það eru fleiri atriði í þessu frv. sem orka tvímælis og ef ég hefði fengið að ráða meiru, þá hefði ég viljað sjá það öðruvísi. Eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. þá er þetta málamiðlun þannig að sjálfsagt væru margar breytingar þarna ef hver og einn mundi fá það sem hann teldi vera akkúrat samkvæmt hans eigin óskum.
    Ég vil endurtaka það að ég hef vissar áhyggjur af því að þessi breyting verði ekki til þess að hagur sveitarfélaganna batni mikið eftir þó ég vissulega voni það. Ég óttast að þær miklu vonir sem sveitarstjórnarmenn bindi við þetta muni því miður ekki verða eins bjartar þegar að lokum kemur. En ég vona að þessi svartsýni mín sé ekki á rökum reist.