Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Frsm. félmn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég bið hérna um orðið í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Austurl. sem lagði fram brtt. varðandi þetta frv. og mæltist til þess að félmn. kæmi saman og ræddi þessa tillögu, tæki hana til sérstakarar meðferðar. Mér er ljúft að segja að ég fagna þessari brtt. og mun koma því til leiðar á milli umræðna að félmn. komi saman og taki þessa tillögu til meðferðar.
    Einhvern tímann sagði ég að sennilega hefði ekkert frv. fengið jafnvandlega meðferð og jafnvandlega kynningu og frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er búin að vera í umræðunni í fjöldamörg ár. Í tíð fyrrv. hæstv. félmrh., Alexanders Stefánssonar 1. þm. Vesturl., var gefið út vandað og nákvæmt rit um þessa verkaskiptingu sem var dreift til flestra sveitarstjórnarmanna á landinu, mér skilst að þeir séu um 1100 talsins, þar sem gerð var grein fyrir þessu máli. Þannig að kynning hefur verið talsverð og það hefur verið gerð tilraun til að koma frv. þessa efnis fram hér á þingi. Það tókst nú ekki á síðasta þingi en virðist vera komið vel á veg nú á þessu þingi sem stendur yfir.
    Það verkefni sem fyrir liggur er að koma nokkuð skýrum skilum á milli verkefna, annars vegar sveitarfélaga og hins vegar ríkis, og um leið milli fjárstraumanna sem þar liggja á milli. Nú er það svo þar sem verkefni hafa verið tiltölulega rótgróin, í föstum skorðum á milli ríkis og sveitarfélaga, að þar þarf oft, ef það á að gera skýran greinarmun þar á milli, að rífa mál upp með rótum og það getur oft á tíðum valdið einhverjum sárindum hjá þeim sem koma nærri þeim málum. Það á við t.d. í því tilfelli sem þessi brtt. tekur til. Við höfum orðið vör við það að margir tónlistarkennarar hafa haft áhyggjur af því hvernig framtíðin kunni að vera, hvað hún kunni að bera í skauti sér.
    Ég held að tillaga eins og þessi, sem gerir ráð fyrir áframhaldandi samstarfi og þá á vegum menntmrn. þar sem til komi fagleg umsjón og eftirlit með tónlistarfræðslunni, ætti að stuðla að því að róa það fólk sem hefur áhyggjur af framtíðinni í þessu tilefni. Þess vegna held ég að tillaga í þessa átt sé af hinu góða. Það eru fleiri slík tilvik sem hafa komið upp, t.d. varðandi fóstrur, en dagvistarheimili fara nú að öllu leyti yfir á sveitarfélög. Fóstrur höfðu áhyggjur af framtíð sinnar greinar og það mál var leyst í brtt. sem lögð hefur verið fyrir af allri félmn. Sú breyting gekk mjög í sömu átt og þessi brtt. sem hér liggur fyrir þannig að ég mun svo sannarlega stuðla að því að félmn. komi saman og ræði þessa tillögu.