Tekjustofnar sveitarfélaga
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Ég gat þess þegar þetta mál var til 1. umr. hér í þessari hv. deild að ég hefði í hyggju að flytja brtt. við frv. og þá væntanlega við 17. gr. þess. En III. kafli frv. fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem að mjög verulegu leyti á að breytast samkvæmt þessu frv. Breytingin er að því leyti að Jöfnunarsjóðurinn mun nú verða þrískiptur, og þar er fyrst og fremst um að ræða ákveðin föst framlög, bundin framlög, sérstök framlög og síðan jöfnunarframlög og þessi skipting á sjóðnum er svona nokkurn veginn til helminga.
    En 17. gr., sem ég minntist á í 1. umr., hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að afloknum sveitarstjórnarkosningum skipar félmrh. fimm manna ráðgjafarnefnd til fjögurra ára sem gera skal tillögur til ráðherra um framlög skv. c-, d- og e-lið 13. gr. og skv. 14. gr. Fjórir nefndarmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga en einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti.``
    Verkefni þessarar ráðgjafarnefndar er sem sagt að sjá um skiptingu á 2 / 3 hlutum þessa Jöfnunarsjóðs sem í áætlun fyrir árið í ár er um 1100 millj. kr. og þessi skipting er fyrst og fremst á milli strjálbýlissveitarfélaga og einstakra verkefna á þeirra vegum.
    Nú er frá því að greina að drög að reglugerð hafa verið á borðum nefndarmanna sem hafa fjallað um þetta frv. og í þeim drögum er 15. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um þessa 17. gr. laganna. Og með leyfi forseta vildi ég fá að lesa hér þau drög eins og þau liggja nú fyrir, en þau eru svohljóðandi:
    ,,Félmrh. úthlutar framlögum samkvæmt reglugerð þessari að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar, sbr. 17. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Við úthlutun framlaga skv. c-, d- og e-lið 3. gr. og b-, c-, d- og e-lið 4. gr. skal hafa samráð við menntmrn.
    Fræðsluskrifstofurnar og landshlutasamtök sveitarfélaga skulu annast upplýsingaöflun og útreikninga til að byggja á úthlutun framlaganna.``
    Þarna er um að ræða tvö ákaflega veigamikil atriði og í rauninni þá meginhugsun sem ég ræddi hér um við 1. umr. og ætlaði að hafa grundvallarbrtt. Annars vegar að þessar úthlutanir snerta mjög skólahald dreifbýlisins og þar af leiðandi er mjög eðlilegt að úthlutun samkvæmt þessum greinum sé gerð í samráði við menntmrn. enda þótt Jöfnunarsjóðurinn sem slíkur heyri undir félmrn. En að hinu leytinu er það að fræðsluskrifstofurnar og landshlutasamtök sveitarfélaga fá það hlutverk samkvæmt þessari grein reglugerðarinnar að annast upplýsingaöflun og útreikninga til að byggja þessa úthlutun á. Þar með er verulegur hluti úthlutunarinnar, sem verður árviss, kominn heim í hérað til þeirra aðila sem starfa næst vettvangi, ef svo má segja, annars vegar fræðsluskrifstofurnar og hins vegar landshlutasamtök sveitarfélaga. Þetta atriði er ég mjög ánægður með og tel í rauninni fullnægjandi gagnvart því atriði sem ég

ræddi um við 1. umr.