Tekjustofnar sveitarfélaga
Þriðjudaginn 09. maí 1989

     Þórður Skúlason:
    Herra forseti. Núverandi tekjustofnalög eru að stofni til frá árinu 1972. Með setningu þeirra varð veruleg breyting á fjárhag sveitarfélaganna í landinu. Sérstaklega á það við um hina minni þéttbýlisstaði. Fjárhagur þeirra við setningu laganna árið 1972 batnaði verulega og þessi sveitarfélög hófu að byggja þjónustustofnanir eins og skóla, dagheimili og íþróttamannvirki og síðan verkamannabústaði, leiguíbúðir, heilsugæslustöðvar í samvinnu við ríkið og íbúðir fyrir aldraða og raunar margt fleira. Á þessum tíma var einnig jákvætt viðhorf til búsetu úti á landi. Þar var fólksfjölgun og það gætti bjartsýni um áframhaldandi búsetu þar og m.a.s. einstaklingar byggðu þá í sveitarfélögunum úti á landsbyggðinni.
    Sveitarfélögin lögðu götur á þessum tíma og það var farið að leggja bundið slitlag, m.a.s. í þessum minni þéttbýlisstöðum sem ekki hafði verið gert áður. Í framhaldi af byggingu þessara þjónustustofnana var síðan tekin upp vaxandi þjónusta á ýmsum sviðum og til sveitarfélaganna voru jafnframt í framhaldi af þessu færð ný verkefni frá ríkisvaldinu án þess þó að tekjur kæmu þar á móti, eins og t.d. heimilisþjónusta við aldraða og síðan vil ég í því sambandi einnig nefna rekstur framhaldsskóla eins og fjölbrautaskólanna.
    Nú er hins vegar svo komið fyrir allmörgum árum síðan að tekjur hinna minni sveitarfélaga standa ekki undir rekstrarkostnaðinum. Árið 1987 var það raunar þannig að af 27 kaupstöðum voru 6 með lægri tekjur heldur en rekstrargjöld. Raunar er það þannig hjá hinum minni þéttbýlisstöðum að ástandið í þessum efnum er enn verra en hjá kaupstöðunum. Við þekkjum það frá sl. vetri að það eru til dæmi um einstök sveitarfélög sem eru komin í algjöra fjárþröng.
    Á sama tíma hefur hins vegar afkoma hinna stærri sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu batnað og á það kannski sérstaklega við um Reykjavíkurborg. Afkoma hennar hefur á undanförnum árum verið mjög góð. Ástæður þessa eru m.a. þenslan hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta svæði hér naut góðs af góðærinu með allt öðrum hætti en landsbyggðin, en það hafa verið miklir erfiðleikar í atvinnurekstri á landsbyggðinni, sérstaklega kannski í sjávarútveginum á undanförnum árum og það hefur komið niður á tekjum sveitarfélaganna.
    En ástæðan er líka sú að tekjustofnalögin, sem eru að stofni til frá árinu 1972, mismuna sveitarfélögunum hvað tekjuöflunina varðar og duga ekki lengur þessum litlu og fámennari sveitarfélögum til þess að standa undir þeirri þjónustu og þeim rekstrarútgjöldum sem henni fylgja. Sérstaklega á þessi mismunun í aðstöðu um nýtingu á tekjustofnun við hvað varðar fasteignaskattinn og aðstöðugjöldin og þarf ég ekki að rekja það fyrir hv. þingdeildarmönnum. Það er hlutur sem þeir þekkja.
    Einnig er það þannig að raunverulega er þjónusta hlutfallslega dýrari per íbúa í fámennari sveitarfélögum en í hinum fjölmennari og auðvitað hafa tekjustofnalögin eins og þau eru úr garði gerð ekki tekið neitt á því vandamáli. Raunar má segja að hin

góða fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna hér í næsta nágrenni hafi síðan leitt til þess að skerðing á Jöfnunarsjóðnum átti sér stað núna fyrir nokkrum árum síðan og hefur verið viðhaldið síðan. Og auðvitað leiddi sú skerðing síðan til enn verri stöðu hinna smærri sveitarfélaga úti á landsbyggðinni. Þessi skerðing jók gríðarlega á aðstöðumun sveitarfélaganna og skapaði óánægju bæði milli sveitarfélaganna og ríkisins og einnig milli sveitarfélaganna innbyrðis. Og þessi skerðing sem hefur leitt til þessarar óánægju hefur raunverulega leitt til þess þrýstings sem varð á um endurskoðun á þeim tekjustofnalögum og til þeirrar niðurstöðu sem liggur raunverulega fyrir um þessa endurskoðun.
    Í þessu frv. eins og það liggur hér fyrir er um að ræða verulega miklar breytingar frá tekjustofnalögunum fyrri frá árinu 1972. Eins og þetta liggur fyrir í frv. þá koma þessar breytingar til með að stuðla að mjög auknu fjárhagslegu sjálfstæði sveitarfélaganna og auknum jöfnuði í tekjuöflun og aðstöðu sveitarfélaganna til þess að veita þjónustu. Það er góð samstaða um þessar breytingar á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna annars vegar og eins á milli sveitarstjórnarmanna innbyrðis. Hér er auðvitað um málamiðlun að ræða og má endalaust deila um það t.d. hvaða sveitarfélög eigi að greiða landsútsvar og hvaða sveitarfélög eigi að greiða aðstöðugjöld. Það er t.d. kannski ekkert sjálfgefið að Samband ísl. samvinnufélaga greiði aðstöðugjald hér til Reykjavíkurborgar. Það gæti alveg eins komið til greina að það greiddi landsútsvar, vegna þess að það á viðskipti ekki síður við landsbyggðina heldur en höfuðborgarsvæðið. Sama er að segja um önnur fyrirtæki sem hafa aðsetur sitt hér í borginni. Um þetta má auðvitað endalaust deila. En í þessu frv. eins og það liggur fyrir hefur náðst málamiðlun m.a. í þessu efni og um þetta eins og það liggur fyrir hér í frv. er góð samstaða á milli sveitarstjórnarmanna.
    Breytingarnar í þessu frv. felast ekki síst í bættri aðstöðu sveitarfélaganna til þess að nýta sér þá tekjustofna sem þau hafa, t.d. í sambandi við fasteignaskattinn. En þar er um að ræða verulega rýmkun á heimildum sveitarfélaganna á landsbyggðinni til þess að nýta sér þann skatt.
Sama er að segja um aðstöðugjaldið. Þar er gert ráð fyrir því að flokkun aðstöðugjalda, sem hefur verið misjöfn eftir atvinnugreinum, falli niður og verði eftir breytinguna í höndum sveitarfélaga og aðstöðugjald verði þó að hámarki 1,3% eins og áður var. Þarna er um gríðarlega þýðingarmikla breytingu að ræða sem mun væntanlega í framtíðinni bæta mjög fjárhag hinna minni sveitarfélaga úti á landsbyggðinni.
    Ég vil leggja áherslu á það að þarna er fyrst og fremst um að ræða jöfnun á aðstöðu. Þrátt fyrir þessi breytingarákvæði þá er ekki alveg víst að þarna sé um að ræða jöfnun á tekjum vegna þess að það er eflaust misjafnt hvernig sveitarstjórnirnar geta nýtt sér þessar heimildir. Þetta á kannski sérstaklega við í sambandi við hækkun á aðstöðugjaldi á sjávarútvegsfyrirtæki, en afkoma þeirra er mjög misjöfn. En þó hygg ég að því

sé þannig háttað sums staðar á landinu að það séu sem betur fer til sjávarútvegsfyrirtæki sem strax geta borið hærra aðstöðugjald og forsvarsmenn þeirra fyrirtækja hafi þann skilning á högum sveitarfélagsins og þörfum þess að þeir séu tilbúnir til þess að gera það.
    Hv. 17. þm. Reykv. hefur greint frá því að það var gerð breyting á því frv. sem lagt var fyrir Ed. í þeirri deild að því er lýtur að undanþágum frá greiðslu á aðstöðugjöldum og það á við um afurðastöðvarnar, sláturhúsin og mjólkurbúin. Hann las hér upp samþykkt frá bæjarstjórn Blönduóss, þar sem þessari breytingu var harðlega mótmælt. Og við vitum að það eru svipaðar skoðanir uppi í mörgum öðrum sveitarstjórnum. Auðvitað á það sjónarmið sem hann greindi hér frá fyllilega rétt á sér. Það er ekki eðlilegt út af fyrir sig að einstök sveitarfélög séu látin gefa eftir af tekjum sínum til þess að halda niðri verðlagi á einstökum vörutegundum. Ég vil leggja áherslu á það, vegna þess að mér býður í grun að það sé full samstaða um það, að nái þetta álit, eins og það kemur frá Ed., fram að ganga, þá verði það tryggt að þann tekjumissi sem þessi sveitarfélög verða fyrir í þessu sambandi fái þau uppi borinn úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
    En breytingin á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er raunar lykilatriði að bættum fjárhag hinna minni sveitarfélaga. Í þeim breytingum sem gert er ráð fyrir á Jöfnunarsjóðnum, sem eru mjög verulegar, er m.a. gert ráð fyrir því að íbúaframlagið falli niður. En íbúaframlagið hefur sem kunnugt er runnið að 3 / 4 hlutum til stærstu þéttbýlissveitarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu. Í þessari breytingu einni saman felst veruleg breyting til hagsbóta fyrir minni sveitarfélögin á landsbyggðinni.
    Það er gert ráð fyrir því að heildartekjur Jöfnunarsjóðs verði um 1100 millj. kr. og að gjöldum sjóðsins verði skipt í bundin framlög, sérstök framlög og jöfnunarframlög. Bundin framlög nemi um 350 millj. kr. og þau renni m.a. til Sambands sveitarfélaga og landshlutasamtaka, lánasjóðsins, Innheimtustofnunar sveitarfélaga og Eftirlaunasjóðs aldraðra. Það orkar að vísu nokkuð tvímælis að sveitarfélögin skuli láta af hendi úr sínum sjóði, Jöfnunarsjóðnum, gríðarlega há framlög til stofnunar eins og Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Þó var það með þeim hætti að sveitarfélögin tóku þátt í þessum kostnaði áður en Innheimtustofnuninni var komið á og framlögin til hennar voru greidd úr Jöfnunarsjóðnum. Sama er raunar að segja um Eftirlaunasjóð aldraðra. En framlag til hans á að nema samkvæmt þessu um 26 millj. kr. á ári. Þetta ákvæði lýtur að því að greiða eftirlaun til þeirra aldraðra sem ekki eiga aðild að stéttarfélögum. Greiðsluskylda Jöfnunarsjóðsins var á sínum tíma sett á án samráðs við sveitarfélögin og það orkar mjög tvímælis að þessi hlutur sé þarna inni. T.d. má með nokkrum rökum halda því fram að eftir þessa breytingu þá greiði t.d. Reykjavíkurborg ekki framlag til þessa sjóðs vegna þess að ef þessi greiðsla dytti þarna út þá mundi jöfnunarframlagið hækka sem

þessari upphæð nemur.
    Síðan er gert ráð fyrir því að hin sérstöku framlög, sem nema samtals 750 millj. kr., renni eingöngu til minni sveitarfélaganna og þar er auðvitað um verulega hækkun að ræða frá því sem nú er. Af þessum sérstöku framlögum fara 350 millj. kr. til sveitarfélaganna vegna verkaskiptingarinnar, til þess að mæta auknum kostnaði sem hin minni sveitarfélög verða fyrir vegna breyttrar verkaskiptingar, og síðan er afgangurinn um 400 millj. kr. sem rennur þá til sveitarfélaganna til þess að bæta þeim upp það sem vantar á að þau nái meðaltekjum. Mér skilst að í þeim hluta sjóðsins, jöfnunarhlutanum, sé um að ræða fimmföldun frá því sem er í dag.
    En við þessa breytingu á Jöfnunarsjóðnum er jafnframt rétt að gera grein fyrir því að eftir hana, eftir það að þessi jöfnunarhluti og sérstöku framlög fara að renna fyrst og fremst og eingöngu til minni sveitarfélaga, þá er auðvitað enn þá mikilvægara en áður að sveitarfélögin fái tryggingu fyrir því að hann verði ekki skertur eins og gert hefur verið.
    Auðvitað væri hægt að fjalla um þetta í miklu lengra og ítarlegra máli, en ég tel ekki ástæðu til þess og þar sem hér er líka takmarkaður tími þá ætla ég að láta þessari ræðu minni lokið.
    Ég vil bara benda á það að lokum að þetta mál hefur hlotið rækilega kynningu
í sveitarstjórnum og um það er góð samstaða meðal sveitarstjórnarmanna. Ég vænti þess að það sé einnig góð samstaða um þetta hér á hinu háa Alþingi. Ég tel að þegar þetta frv. verður orðið að lögum þá leiði það til þess að tekjur sveitarfélaga verði jafnari og aðstaða sveitarfélaganna til þess að veita íbúum sínum þjónustu verði einnig jafnari en verið hefur.