Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Þegar ég hóf blaðamannsferil minn undir góðri og skýrri leiðsögn hv. 8. þm. Reykv. og var sendur til þess að gefa einhverja mynd af þeim umræðum sem fóru fram í borgarstjórn Reykjavíkur eða hér á Alþingi tók ég fljótt eftir að það var mjög fyrirferðarmikill þáttur í umræðum á báðum þessum stöðum hversu langt hið opinbera gæti gengið til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Menn töldu að hið opinbera ætti að koma þar myndarlega til hjálpar og myndarlega til aðstoðar. Til allrar hamingju hafa aðstæður gjörbreyst svo á þeim tíma sem síðan er liðinn að umræður af þessu tagi eru farnar að setja lítinn svip t.d. hér á löggjafarsamkunduna og jafnvel svo að menn virðast hættir að hugsa um það að slíkt húsnæði sé enn í notkun.
    Ég á svolítið erfitt með að skilja að þrír þingmenn utan af landi skuli standa að tillögu um að því frv. sem hér liggur fyrir verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég var síðast í morgun að ræða við mann norðan úr Grímsey um húsnæði sem þar hefur verið notað fram að þessu, en í þeim miklu harðindum sem verið hafa undanfarið var svo komið fyrir því hússkrifli að það er ekki lengur íbúðarhæft þannig að fólkið varð að flýja úr þeim híbýlum. Þannig er þetta auðvitað mjög víða. Það var þess vegna mjög ánægjulegt á þeim tíma þegar Sverrir Hermannsson var iðnrh. að sérstakt átak skyldi gert til að auðvelda fólki sem bjó í ófullkomnu húsnæði að einangra það með sérstökum lánaflokki sem tekinn var upp hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Það voru kölluð orkusparandi lán og höfðu tvíþættan tilgang, annars vegar að draga úr orkukostnaði með því að húsin voru betur einangruð en áður og að hinu leytinu voru húsin miklu hollari híbýli eftir viðgerðina en áður mundi. Fram að þessu hefur vilji þingmanna yfirleitt staðið til þess að reyna að koma á móti þessu fólki sem er svo ógæfusamt að búa í heilsuspillandi eða ónýtu húsnæði og væri kannski miklu nær að þingdeildin velti því nú fyrir sér hvernig á því stendur að heilbrigðisyfirvöld, að Hollustuvernd skuli yfir höfuð að tala leyfa búsetu í mörgum þeim húsum sem fólk verður að hírast í. Væri það miklu frekar umhugsunarefni fyrir hv. þm. en hitt hvort ekki sé rétt með húsnæðisbótum að örva og auðvelda fólki íbúðarskiptin þannig að það geti komið yfir sig sómasamlegu mannsæmandi íbúðarhúsi eða keypt sómasamlega mannsæmandi íbúð, þó svo að slík íbúð sé ekki í félagsmálakerfinu, þó svo hún heiti ekki leiguíbúð eða verkamannabústaður. Á sumum stöðum hagar þannig til að á slíkum íbúðum er enginn kostur, þær eru ekki til á þeim stað sem þörf er á íbúðarhúsum.
    Ég held þess vegna að allir þingdeildarmenn hljóti að vera sammála um að það sé nauðsynlegt að örva fólk til þess að komast yfir holla íbúð, kannski ekki sjálfra sín vegna eingöngu. Halldór Laxness hefur dregið upp skemmtilega mynd af því að það var á sínum tíma talið merki um karlmennsku ef menn gátu gengið um í manndrápsbyl án yfirhafnar, þeir menn þóttu mestir þrekmenn og hraustastir. En þó svo að

kannski foreldrar af einhverjum ástæðum sætti sig við hin óhollu híbýli bitnar það auðvitað á öðrum íbúum hússins, t.d. börnunum. Hér er því hreyft mjög merku máli. Ég tel í öðru lagi að það sé nauðsynlegt að í skattalögum komi fram hver sé réttur fólks. Hver sá maður sem fengi bréf ríkisskattstjóra til fjh.- og viðskn. mundi undir eins lesa þannig úr því bréfi að það yrði a.m.k. mikil skriffinnska að fá viðurkenningu á því að viðkomandi ætti rétt á því að réttarstaða hans yrði sú sama og þess sem enga íbúð á, m.ö.o. að honum féllu húsnæðisbætur í skaut ef hann yfirgæfi ónýtt íbúðarhús sitt, hriplekt og nístingskalt. Ég vil í lengstu lög vona, herra forseti, að flm. frávísunartillögunnar dragi hana til baka, en að öðrum kosti geri ég mér fullar vonir um að deildarmenn, þingmenn í þessari hv. deild sem flestir, sýni vilja sinn í verki og samúð sína með því fólki sem býr við verstu híbýlin með því að samþykkja þá brtt. sem hér liggur fyrir.
    Hitt er auðvitað algjörlega út í bláinn að það sé hlutverk ríkisskattstjóra að færa út heimildir skattalaga eins og Alþingi hefur gengið frá skattalögunum. Það er hlutverk ríkisskattstjóra að framfylgja þeim lögum sem Alþingi setur. Þessi vegna er þessi brtt. við skattalögin nauðsynleg. Þó hún hafi ekki komið fram fyrr en á þessum vetri getum við enn bætt fyrir fortíðina með því að samþykkja hana sem óðast.