Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. Það er sjálfsagt allt rétt sem hann sagði um það að hann hefði stigið sín fyrstu spor á blaðamannaferlinum undir öruggri handleiðslu hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, það dreg ég ekkert í efa, en honum hefur hins vegar ekki enn þá lærst að tjá sig í jafnskýru og hnitmiðuðu og stuttu máli eins og hv. þm. Eyjólfi Konráð er svo gjarnan lagið.
    En varðandi það að heilsuspillandi húsnæði sé aðeins að finna á landsbyggðinni, eins og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir og hv. þm. Halldór Blöndal létu liggja mjög sterklega að áðan, er það auðvitað mikill misskilningur. Ég hygg að það sé of mikið um það að í höfuðborginni sé húsnæði af því tagi sem kalla mætti heilsuspillandi. Það er auðvitað því miður líka að finna úti á landi. En að halda því fram að þetta sé eitthvert sérstakt landsbyggðarvandamál og snúa þessu máli upp í þann farveg að þeir sem vilja vísa þessu til ríkisstjórnarinnar séu af því tilefni einhverjir sérstakir landsbyggðarfjendur er auðvitað með hreinum ólíkindum og heitir bara útúrsnúningar á venjulegri íslensku.
    Ég bið menn bara að misskilja ekki að í þeirri afstöðu sem kemur fram hjá minni hlutanum felst enginn efnisdómur um þetta mál eða þetta sérstaka tilvik sem hér er verið um að fjalla þó það sé heldur óviðurkvæmilegt að vera að fjalla um einstök tilvik í lagasetningu eins og ég sagði áðan og ég dreg það ekkert til baka. Það koma rök fyrir því í bréfi ríkisskattstjóra sem fékk málið til umsagnar að hliðstæð ákvæði við það sem hér um ræðir eru í reglugerð. Hugmynd okkar í minni hlutanum með því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar var þá sú að ríkisstjórnin tæki það til athugunar, viðkomandi ráðherra, að þetta yrði sett inn í reglugerð ef ástæða þætti til. Ég veit ekki hvað menn sjá svo neikvætt við þá afgreiðslu að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar.
    En ég vísa á bug þeirri fullyrðingu að heilsuspillandi húsnæði sé eitthvað alveg sérstakt landsbyggðarvandmál. Það er því miður hér í Reykjavíkurborg líka og víðar í þéttbýlinu. Mér finnst málflutningur af þessu tagi satt að segja fyrir neðan allar hellur. En auðvitað gengur þetta mál til atkvæða hér og þingviljinn kemur í ljós. Það er hin rétta og eðlilega leið. Fari svo að mín skoðun á þessu máli lendi í minni hluta er auðvitað ekkert annað að gera en una því. Það er bara hin lýðræðislega aðferð okkar við að afgreiða mál hér. En þegar málinu er snúið upp á þennan veg getur maður ekki lengur orða bundist vegna þess að það eru takmörk fyrir því hve hægt er að ganga langt. Og að flytja umræðuna á það plan að hér sé verið með einhverjum hætti að ráðast að landsbyggðinni er gjörsamlega fráleitt.