Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það var aðeins ein leiðrétting vegna orða hv. 3. þm. Vesturl. af því að hann sagði að ég hefði sagt að þessi tilvik væru aðeins á landsbyggðinni. Það var ekki rétt. Ég sagði að þau væru sennilega frekar þar. Ég punktaði þessi orð hjá mér á blað, að þau væru sennilega frekar úti á landsbyggðinni en hér í þéttbýlinu. Þá var ég með í huga hús sem þarf algjörlega að fjarlægja eða rífa og byggja ný í staðinn. Ég sagði ekki ,,aðeins`` heldur ,,frekar``.
    Ég ætla ekkert að fara að lengja þessa umræðu. Eins og hér hefur komið fram er það auðvitað atkvæðagreiðsla sem segir til um hvernig málið verður afgreitt. En ég vil aðeins minna á að það kom fram við 1. umr. að það eru fleiri hv. þingdeildarmenn en sú sem hér stendur sem þekkja svona tilfelli og töldu að það væri ekki óeðlilegt að leiðrétta þau. En það sem er í raun og veru grundvallaratriði í þessu er að það má e.t.v. vitna í orð hæstv. fjmrh., sem hann notaði í fréttum einhvers staðar fyrir tveim dögum eða svo, að þeir húsbyggjendur sem lenda í því að þurfa að rífa húsið sitt og byggja nýtt eru komnir aftur á reit eitt og þurfa þess vegna að byrja á nýjan leik og eru þess vegna að byggja í fyrsta sinn að því leyti.