Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Mér þykir afar leitt að geta ekki verið viðstaddur til lengdar þessa umræðu vegna þess að ég hafði gefið hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteini Pálssyni vilyrði fyrir því að vera við umræður um húsbréfafrv. í hv. Nd. Ég vildi engu að síður nota þetta tækifæri hér til að svara þeirri spurningu sem hv. þm. Halldór Blöndal beindi til mín.
    Sá liður sem hann vitnaði til í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar felur það í sér að aflað verður ítarlegra upplýsinga um lagareglur í helstu samkeppnislöndum Íslendinga hvað varðar skattlagningu fyrirtækja, sérstaklega útflutningsfyrirtækja og fyrirtækja í samkeppnisgreinum. Það er vinna sem alls ekki hefur verið unnin nægilega vel á undanförnum árum. Það er alveg ljóst að í sumum þessara landa er skattlagning á fyrirtæki mun meiri en hér á landi. Í öðrum er hún e.t.v. eitthvað minni. Hún er einnig með töluvert mismunandi hætti frá einu landi til annars.
    Það sem segir í þessum texta er að það verði ítarlega farið í þessa vinnu, aflað upplýsinga um öll þessi atriði og haft samráð við samtök atvinnulífsins um framkvæmdina á þessari athugun. Ég ætla ekkert að fullyrða hér hver niðurstaðan kann að verða. Það sem felst í textanum er eingöngu það fyrirheit að gera þennan ítarlega samanburð og athuga síðan rækilega með hvaða hætti er hægt að samræma ákvæði í lögum hér á landi um skattlagningu atvinnufyrirtækja sambærilegum lögum í helstu samkeppnislöndum okkar útflutningsatvinnuvega og í þeim löndum sem okkar samkeppnisgreinar í iðnaði og öðrum atvinnugreinum þurfa helst að taka mið af.
    Ég er nú þeirrar skoðunar að það hafi töluvert mikið skort á að hér á landi væri nægilega traustur og viðurkenndur grundvöllur, hvert væri skattstigið bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum og reyndar þjóðinni síðan í heild hér á landi og í nágrannalöndum. Ýmsar alþjóðlegar töflur sýna að skattar eru mun lægra hlutfall af þjóðartekjum hér á Íslandi en í öðrum löndum. Einstaka sérfræðingar hafa dregið þann samanburð í efa. Ég held að það sé mjög brýnt til þess að stuðla að þroskaðri umræðu um skattamál hér á landi að með kerfisbundnum hætti séu þessi mál skoðuð.
    Það er viljinn og andinn sem er á bak við þann texta sem hv. þm. lýsti hér og þegar komið verður til þings á næsta hausti hafa menn væntanlega skýrari mynd af þessum efnisþáttum og geta þá dregið af þessari vinnu ályktanir, vonandi sameiginlega. Ég teldi mjög heppilegt að þingið, ríkisvaldið og forsvarsmenn atvinnulífsins gætu náð sameiginlegri niðurstöðu í samanburði á eðli skattlagningar á atvinnulífið hér á landi og í helstu samkeppnislöndum okkar.