Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Af því að ég sé að hæstv. fjmrh. er enn þá í deildinni þó hann hafi tjáð mér, hann gerði það reyndar úr þessum virðulega ræðustól, að hann þyrfti að vera viðstaddur umræðu í Nd., hefði lofað hv. 1. þm. Suðurl. því, Þorsteini Pálssyni, þá langar mig áður en ég sé hann hverfa héðan úr deildinni aðeins árétta að allar tilraunir hæstv. fjmrh. til þess að sanna það fyrir okkur að skattar á Íslandi séu miklu lægri en í nágrannalöndum og yfirleitt í löndum Evrópu þykja mér ákaflega óburðugar. Ef menn átta sig á því hvernig hagur fólks er í nágrannalöndunum, þá segir það miklu meiri sögu en að bera saman skattprósentu launafólks í nágrannalöndunum við skattprósentu launafólks á Íslandi. Við skulum bara hafa í huga að launatekjur almennt eru miklu hærri í nágrannalöndunum. Það er kannski hægt að borga eilítið meiri skatta af miklu hærri launum en við höfum hér á Íslandi fyrir svo utan það að almenningur í nágrannalöndum okkar í Evrópu þarf ekki að borga hið geypiháa verð á matvælum sem tíðkast hér á Íslandi. Matvælaverð á Íslandi er eins og öllum er kunnugt sennilega hærra en nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli hvar sem leitað er í heiminum. Þannig segir það ekki alla söguna að bera saman einhverjar skattprósentur eftir töflum frá OECD og halda því svo fram að skattar á Íslandi séu lægri en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þetta vildi ég sagt hafa áður en hæstv. fjmrh. yfirgefur salinn. ( Fjmrh.: Ég hef fyrst og fremst vitnað í skýrslur OECD.) Einmitt. Ég þóttist vita það, en ég vildi bara árétta að ég tel að það sé ekkert mark takandi á þeim skýrslum þegar verið er að bera saman kjör almennings á Íslandi og kjör almennings í nágrannalöndum okkar í Evrópu. (Gripið fram í.) Má vera. Ég er kannski í góðum félagsskap þar. Ég skal ekkert um það segja. Ég er þar væntanlega í félagsskap einhvers vinsælasta stjórnmálamanns fyrr og síðar á Íslandi þannig að það er ekki leiðum að líkjast.
    En við erum að fjalla um frv. til l. um sérstakar ráðstafanir vegna kjarasamninga og því væri ekki úr vegi að fjalla almennt um kjarasamninga þá sem hafa verið gerðir að undanförnu og enn fremur þær kjaradeilur sem enn standa yfir. Áður langar mig þó rétt til að víkja að því nál. sem ég stend að ásamt fulltrúum Sjálfstfl. í hv. fjh.- og viðskn. Ed., þeim hv. þm. Halldóri Blöndal og Eyjólfi Konráð Jónssyni. Þar kemur fram að við munum greiða fyrir afgreiðslu málsins. Við teljum þrátt fyrir allt að hér sé um skref í rétta átt að ræða, þ.e. að sú lagfæring á sköttum sem voru settir á á jólaföstunni svo og ýmislegt annað sem kemur fram í þessu frv. er þó þrátt fyrir allt skref í rétta átt. Ég vil því alls ekki leggjast gegn þessu frv. En það er svo fjarri lagi að það hefði ekki verið hægt að gera miklu betur með þeim breytingum sem hér eru lagðar til.
    Af því að ég sé að hæstv. sjútvrh. og starfandi forsrh. gengur í salinn langar mig til að ítreka það, reyndar eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e.

Halldóri Blöndal, að ég held að það verði að vera algerlega á hreinu hvaðan á að taka þessa peninga í Verðjöfnunarsjóðinn, þ.e. þessar 400 millj. sem Verðjöfnunarsjóði er ætlað að taka að láni, til þess að halda áfram greiðslu bóta til frystingarinnar fram eftir ári. Eins og öllum er kunnugt voru 800 millj. teknar að láni sl. haust, en þær eru að verða búnar og lítið hefur samt þokast í þá átt að frystihúsin, þ.e. frystiiðnaður á Íslandi, hafi komist á lappirnar á nýjan leik þannig að hann geti nú staðið á eigin fótum. Sannleikurinn er nefnilega sá, hæstv. sjútvrh., að þrátt fyrir allar tilraunir núv. hæstv. ríkisstjórnar í þá átt að skapa atvinnulífinu á Íslandi viðunandi rekstrarskilyrði er atvinnulífið á Íslandi eins og dauðvona sjúklingur sem liggur í rúminu. Hæstv. ríkisstjórn kemur í heimsókn einu sinni á þriggja mánaða fresti og gefur honum sprautu þannig að hann drepist ekki alveg, en hann liggur í rúminu eftir sem áður, hann kemst aldrei á fætur. Ég veit ekki hvað við ætlum að halda atvinnulífinu liggjandi í rúminu miklu lengur því að það hlýtur að koma að því að ef atvinnulífið í þessari samlíkingu minni liggur áfram í rúminu sem langlegusjúklingur fer allt annað sömu leið. Þá getur þjóðin öll lagst í rúmið. Hún verður þá að leggjast hreinlega í kör. Hún hefur ekki um annað að velja.
    Hér stendur í gagnmerkri frétt, reyndar viðtal sem er tekið við Árna Benediktsson, framkvæmdastjóra Félags sambandsfiskframleiðenda, að það sé nauðsynlegt að loka 60--70 frystihúsum á landinu, hvorki meira né minna. Eftir telur Árni Benediktsson að eigi að lifa eða geti öllu heldur lifað ein 6--10 frystihús af öllum þeim frystihúsum sem eru til á þessu landi. Þetta er harkalegur áfellisdómur yfir þá atvinnustefnu sem við höfum átt við að búa. Ég skal vera svo sanngjarn úr þessum virðulega ræðustóli í hinni virðulegu deild að segja að það er ekki hægt að skella skuldinni af þessari atvinnustefnu algerlega á núverandi hæstv. ríkisstjórn. Fyrri ríkisstjórnir gömlu flokkanna eru allar samsekar, þ.e. gömlu flokkarnir fjórir hafa í hinum ýmsu samsteypustjórnum sem hér hafa verið við völd undanfarna áratugi hjálpast að og unnið markvisst að því að rústa allt atvinnulíf á landinu. Þeir eru nánast komnir á leiðarenda með þá ætlan sína að ganga þannig endanlega frá
atvinnulífinu. (Gripið fram í.) Ég get frætt hv. þm. Guðmund H. Garðarsson um það að áhrif mín urðu aldrei mjög mikil í einum eða neinum stjórnmálaflokki fyrr en þá núna að ég er að reyna að koma að nýjum hugmyndum gegnum nýjan stjórnmálaflokk og er ekki seinna vænna því að gömlu flokkarnir eru gersneyddir öllum hugmyndum. Þeir eru steingeldir. Það er ekki seinna vænna að hér fari að heyrast einhverjar nýjar hugmyndir um hvernig á að brjóta okkur leið út úr þeim vanda sem við eigum í. Ekki koma slíkar hugmyndir frá fulltrúum gömlu flokkanna, svo mikið er víst.
    Það var ekki ætlan mín að flytja langa ræðu við 2. umr. þessa máls. Við höfum talað lengi og fjallað um þetta frv. mjög ítarlega bæði í hv. fjh.- og viðskn. og svo við 1. umr. málsins. Ég get tekið undir margt af

því sem hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal sagði varðandi lántökugjaldið og ég stend að þeirri brtt. ásamt þeim hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, Halldóri Blöndal og Danfríði Skarphéðinsdóttur að lántökugjaldið verði endurgreitt af erlendum lánum sem voru tekin fyrir gildistöku þessara laga en hafa ekki verið endurlánuð. Það kom einmitt fram í þeim viðræðum sem við áttum við fulltrúa hinna stóru fjárfestingarlánasjóða sem komu á fund okkar í hv. fjh.- og viðskn. að sumir þeirra hafa verið forsjálir og tekið stór erlend lán, sumir jafnvel sl. haust, sem þeir hugðust síðan endurlána á þessu ári. Það er aldeilis fráleitt að ætla að þessir sjóðir verði að svara til ríkisins að fullu lántökugjaldi af þessum stóru erlendu lánum og síðan verði þeir að endurlána þetta lán án lántökugjalds eftir 1. júní eins og reyndar meiri hluti hv. fjh.- og viðskn. leggur til. Þess vegna stöndum við að þeirri brtt. að þetta gjald verði endurgreitt af erlendum lánum sem eru þegar tekin en hafa ekki verið endurlánuð.
    Hvað önnur atriði þessa frv. varðar er ekki svo ýkja mikið að segja. Þær yfirlýsingar sem fylgja með frv. sem fylgiskjal, þ.e. bréf hæstv. forsrh., vinsælasta stjórnmálamanns Íslands frá því að landnám hófst eru mjög athyglisverðar. ( KP: Heimsins og þótt víðar væri leitað.) Sennilega og eftir því sem mér er kunnugt er hann nú á leiðinni heim, hæstv. forsrh., eftir að hafa bjargað efnahagsmálum í Ungverjalandi og er það vel.
    En það er ómögulegt annað en staldra við sum þeirra mála sem þarna ber á góma. M.a. langar mig til að spyrja hæstv. starfandi forsrh. Í bréfi hæstv. forsrh. til Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna er getið um að ríkisstjórnin muni fyrir næstu áramót beita sér fyrir athugun á ákvæðum laga um stimpilgjöld. Ég minnist þess að við bentum einmitt á þetta atriði í þeim umræðugrundvelli sem við lögðum fram þegar við áttum í viðræðum við núverandi stjórnarflokka í janúar, við fulltrúar Borgfl. Það vakti mikla furðu okkar að það eru greidd hærri stimpilgjöld af hlutabréfum en af öðrum veðskuldabréfum og verðbréfum sem eru á markaði hér innan lands. Þetta þótti okkur mjög merkilegt vegna þess að við héldum þrátt fyrir allt að það ætti að hvetja almenning og hvetja fyrirtæki til þess að fjárfesta í öðrum fyrirtækjum, þ.e. kaupa hlutabréf. Þess vegna hlýtur það að vera eðlileg ráðstöfun að stimpilgjöld og kostnaður vegna hlutabréfakaupa sé lægri en almennt af öðrum verðbréfum. Ég vildi því spyrja hæstv. sjútvrh., og reyndar vísa þessari spurningu enn fremur til hæstv. viðskrh. sem hér situr, hvort það sé einmitt hugmyndin að lækka stimpilgjöld af hlutabréfum við kaup hlutabréfa.
    Í yfirlýsingunni og reyndar í frv. kemur fram að jöfnunargjald af innfluttum vörum verður hækkað tímabundið úr 3% í 5% og fellur síðan niður þegar virðisaukaskatturinn kemur til framkvæmda. Við setjum okkur ekki á móti þessari breytingu, enda voru fulltrúar hagsmunaaðila sáttir við hana að mestu og kemur hún þá í staðinn fyrir það tekjutap sem

ríkissjóður verður fyrir vegna þeirrar breytingar sem verður gerð á vörugjaldinu.
    Við höfum áður bent á þá hugmynd að það sé ekkert því til fyrirstöðu að leggja jafnvel hærra jöfnunargjald á iðnaðarvörur fluttar inn frá löndum sem stunda óheiðarlega samkeppni við okkur Íslendinga. Þar á ég fyrst og fremst við Noreg sem hefur rústað skipasmíðaiðnaðinum á Íslandi með óheiðarlegri samkeppni. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. iðnrh. hvort hann hafi hugsað sér að aðhafast eitt eða annað í því máli, hvort Norðmönnum á áfram að haldast uppi að greiða niður skipasmíðaiðnað sinn um 20% og með þeim hætti undirbjóða íslenskar skipasmíðastöðvar þannig að það fer að heyra sögunni til að á Íslandi verði smíðuð skip, svo og annar iðnaður sem tengist sjávarútvegi sem er svona í þann veginn að leggja upp laupana og væntanlega hverfur að fullu héðan á næstu árum. Þetta er sorgleg þróun þegar farið er yfir þá sögu og þegar við horfum til baka og hugsum um öll þau tækifæri sem íslenskur iðnaður hefur misst af vegna skilningsleysis stjórnvalda. Hugsið þið ykkur, veltið því fyrir ykkur að Íslendingar, íslenskur sjávarútvegur hefur staðið að því að byggja upp hátækniiðnað í Noregi í sambandi við sjávarútveg, svo sem dýptarmælitæki og alls kyns rafeindabúnað í skipum sem er orðinn stór iðnaður í Noregi. Þetta höfum við Íslendingar fært Norðmönnum á silfurfati fyrst og fremst vegna skilningsleysis íslenskra stjórnvalda sem hafa aldrei séð neitt
annað en það að selja héðan úr landi fisk, helst með sem minnstri fyrirhöfn, en allt annað varðar stjórnvöld ekkert um.
    Þessar ráðstafanir til að liðka fyrir kjarasamningum eru eins og ég gat um skref í rétta átt, en þá vaknar sú spurning og er slæmt að hæstv. fjmrh. skuli vera genginn burt úr salnum: Var ekki hugmyndin að gera neitt áþekkt til að liðka fyrir kjarasamningum við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn? Háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn hafa nú verið í verkfalli um fimm vikna skeið og það heyrist næsta lítið af hálfu ríkisvaldsins um það með hvaða hætti mætti liðka til og ná samningum við þann hóp sem nú er búinn að vera í verkfalli um langan tíma. Að vísu höfum við tækifæri til að fjalla betur um það mál á morgun þar sem fyrirhuguð er umræða utan dagskrár um málefni háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna eftir því sem mér hefur skilist. Ég vil lýsa furðu minni á því að ríkisvaldið skuli ekki hafa séð ástæðu til að koma með einhverjar áþekkar ráðstafanir og hér eru lagðar fram til að ná samningum við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn og/eða liðka fyrir þeim með einum eða öðrum hætti. Það vekur mikla furðu mína að þessi mál hafi verið látin reka á reiðanum um margra mánaða skeið því að það held ég að verði að viðurkenna að sé rétt, sem haldið er fram af hálfu fulltrúa háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, að fyrstu alvöru samningaumleitanirnar sem voru gerðar af hálfu ríkisvaldsins voru núna fyrir nokkrum dögum, en þá voru liðnir líklega einir fjórir eða líklega á fimmta

mánuð frá því að þessi hópur starfsmanna hjá ríkinu hafði óskað eftir samningagerð við ríkið.
    Ég held að það sé kominn tími til að við Íslendingar og einkum hv. alþingismenn sem eiga nú sæti á hinu háa Alþingi fari að velta því fyrir sér og ræða um það af einlægni hver sé framtíð okkar sem búum hér og byggjum þetta land. Á hverju ætlum við eiginlega að lifa í náinni framtíð og jafnvel ef við horfum lengra fram á veginn? Það virðist vera svo að við séum orðin sammála um að við getum ekki haldið uppi neinum iðnaði hér. Svo mikið er víst að stjórnvöld hafa verið að marka slíka stefnu að iðnaðurinn megi lognast út af. Það er sjaldnast hægt að finna nokkuð sem er bitastætt í þá veru að skapa samkeppnisiðnaði og reyndar öðrum iðnaði sem reynir útflutning þau ytri skilyrði sem gera að verkum að það borgi sig að standa í slíkum rekstri. Ég velti því orðið fyrir mér: Á hverju ætlum við að lifa ef það er rétt, sem hér kemur fram í áður tilvitnaðri grein, að það reynist nauðsynlegt og e.t.v. er það hlutur sem mun gerast á tiltölulega fáum árum að 60--70 frystihús víðs vegar um landið leggi upp laupana og hreinlega loka? Það þýðir þá að heilu landsvæðin í hinum dreifðu byggðum verða án nokkurra atvinnumöguleika. Þá hlýtur að vakna upp sú spurning í hugum okkar: Á hverju ætlar fólkið að lifa sem byggir landið utan höfuðborgarsvæðisins? Eða er verið að koma markvisst á slíku þjóðfélagi að við neyðumst til þess að flytja öll hingað á þetta svæði og lifa --- ja, ég veit ekki af hverju?
    Það er alveg ljóst að við þurfum að móta einhverja nýja atvinnustefnu. Við þurfum að reyna að hjálpast að við það öll sömul. Það þýðir ekkert að standa og rífast hvert við annað. Við verðum að vinna saman að því að reyna að leysa þessi vandamál okkar á Íslandi. Við þurfum að reyna að leita nýrra tækifæra og finna leiðir til að treysta og tryggja atvinnuöryggi, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum. Það kann vel að vera að við eigum eftir að sjá byggðaþróun sem gerbreytir byggð á Íslandi þannig að hún eigi eftir að þjappast verulega saman til þess að þetta verði hægt. Þetta kann að verða mjög sársaukafullt, en þetta er hins vegar þróun sem við verðum að horfast í augu við. Við verðum að reyna að leita leiða til þess að gera þessa þróun sem auðveldasta þannig að hún valdi sem minnstum sársauka og minnstri röskun á högum þeirrar þjóðar sem hér byggir.