Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Sem áheyrnarfulltrúi í fjh.- og viðskn. þessarar deildar skrifaði ég undir nál. minni hl., með fyrirvara þó, en eins og fram kemur á þskj. með brtt. er ég meðflm. að þeim tillögum, þeim sem liggja frammi frá minni hl., og styð þær þar af leiðandi að sjálfsögðu.
    Ég get tekið undir flest af því sem fram kom í nál. minni hl. Það er lítill tími þessar klukkustundirnar til að vinna eins og maður helst vildi. Í máli formanns fjh.- og viðskn. fyrr í dag kom fram að umfjöllun um frv. hefði verið ítarleg og get ég að vissu leyti tekið undir það. Eins og ég gat um gafst samt sem áður ekki tími til að mínu mati þessa daga að vanda vinnuna nóg og þess vegna skrifaði ég undir nál. með fyrirvara en er sammála meginefni þess. Mér þykir reyndar höfundar þess taka nokkuð afdráttarlaust til orða í 1. mgr. því að mér finnst að vissu leyti snúið burt frá hallarekstri með þeim aðgerðum sem hér er verið að gera. Það er alla vega örlítið spor í þá áttina og ætla ég aðallega að gera grein fyrir því í máli mínu en ekki fara ítarlega út í frv. sjálft eða yfirleitt kjaramálin.
    Ég gat um það við 1. umr. málsins að mér þykir hæpið að hafa langan aðdraganda að niðurfellingu þeirra gjalda sem um getur í 2. og 4. gr. Þar af leiðandi styð ég þær brtt. sem hafa komið fram um það. Þá vil ég einnig láta það koma fram núna að mér þótti það í raun og veru afleitt að vegna kjaradeilna sem nú standa milli háskólamenntaðra manna og fjmrn. gafst ekki tækifæri til að fá yfirlit um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég tel ástæðu til þess að hafa af honum nokkrar áhyggjur þar sem honum eru nú fengin síaukin verkefni. Þó að ég sjái nauðsyn þess að þeim verkefnum sem um er getið í 6. og 7. gr. sé sinnt við þær aðstæður sem nú eru uppi tel ég líka að hafi verið til bóta brtt. meiri hl. sem fram kemur á þskj. um ríkisábyrgð á launum til að draga skýrar línur um gildi Atvinnuleysistryggingasjóðsins og sömuleiðis Ríkisábyrgðasjóðsins.
    En eins og ég sagði ætla ég ekki að hafa um þetta mörg orð. Ég tel að þetta sé spor í rétta átt, aðeins eitt örlítið þó, hefði mátt vera meira og fyrr, og vona ég í ljósi þess að tillögur minni hl. verði samþykktar.